mánudagur, 27. desember 2004

Dagur 2 (2.júlí 2003)

Veðrið:
Þurrt og hlýtt fyrir utan hressilegan skúr í miðdaginn
Meðal efnis:
  • Ikea ferð - sýnishorn í dönskum trylling
  • Regnskógur heimsóttur
  • Tikka masala og bað

Baldur var fljótur að átta sig á tímamismuninum og stillti sig strax á danska tímann. Fjölskyldan fór því á fætur upp úr kl 8 að venju. Hinn gríðarvinsæli róló var heimsóttur um morguninn en svo snæddum við hádegisverð úti á verönd áður en haldið var í IKEA leiðangur til Árósa.

Sólin skein í heiði við komuna til Árósa og það var hlýtt og gott á bílastæðinu. Danir hafa náð einhverju æðra stiigi við útfærslu ranghala IKEA-verslana því það var ekki nóg með að það að við þyrftum að fara alla hringavitleysuna, án möguleika á styttri leið, heldur hafa þeir kosið að hafa lönguvietleysuna á 2 hægðum. Kaupleiðangurinn lukkaðist þó dæmalaust vel og kom litala fjölskyldan skælbrosandi út í sólina með nýja barnastólinn hans Baldurs ásamt viskustykkjum sem hafði skort tilfinnalega í híbýlunum í Ebeltofte. Vegna einmuna sólarblíðu og hungurs hjá litla herranum var ákveðið að tylla sér niður fyrir utan í sólinni.

Froðufellir
Alltaf hefur maður haft þá mynd af Dönum að þeir séu svo "ligeglad" og afslappaðir. Þetta virðist þó ekki vera algilt og þessu virðast þó vera undantekningar. Sem við stitjum í sólarbrlíðunni og horfum á fólkið fara inn og út úr IKEA, verðum við bitni að alerum tryllingi hjá einum miðaldra Dana. Ung kona með kerru í eftirdragi hafði tekið aðeins of þrönga beygju á bíl sínum og var því talsvert inn á vegahelmingi froðufellandi miðaldra dana. Froðufellirinn hafði stuttu áður hrakið burt gangandi konur fyrir fram an bíl sinn með viðeigandi flautukonstert, hreyfingum og stýriskýlingum. Ekki varð hann hressari við að sjá þessa konu sem virtist ætla að gera fyrirhugaða beygju hans heldur erfiða. Eftir að flaut og hreyfingar virtust ekki hreyfa við konunni í bílnum, vatt hann sér út öskrandi og benti mjög ákveðið á hvítmálaða beygjupíluna á malbikunu. Þannig vildi hann gera ungu konunni ljósan óskorðanann beygju rétt sinn. Unga konan hristi bara höfuðið yfir þessum látum. Á meðan hafði hin skynsemi vædda kona freyðisins þokað sér um sæti þannig að nú sat hún við stýrið og gerði sig líklega til að aka bílnum áfram og koma þeim úr þessum vandræðalegu aðstæðum sem dró nú að sér athygli sífellt fleiri sem úti sátu. Þegar tryllingslegir tilburðir froðufellisins virtust ekki ætla að hafa tilætluð áhrif á ungu kerru-konuna, strunsaði hann að bílnum sínum. Þar reif hann upp hurðina og öskraði eitthvað í líkingu við "færðu þig!" á konuna sína sem var ekki nógu fljót að bregðast við og var henni því skotið snaggaralega með hintmiðuðum mjaðmahnykk yfir í farþegasætið. Froðufellirinn settist sjálfur undir stýri og spólaði burt með tilþrifum.

Regnskógar
Þá var kominn tími til að heimskækja
regnskógana í Randers. Það mátti með sanni segja að regnskógurinn bæri nafn með rentu því um leið og við eygðum sýningarsvæðið skall á þetta líka rosalega úrhelli að fjölskyldan mátti dúsa inn í bíl á bílastæðinu og maula nestið á meðan skýfallið lyki sér af. Þegar það var orðið ferðafært á ný voru regnskógar 3ja heimsálfa heimsóttir inn í sérhönnuðum glerhvelfingunum. Mjög margt merkilegt bar fyrir auga en loftslaginu var ekki auðvelt að venjast: 27°C og yfir 90% raki sem er haldið stöðugu með öflugri veðurtölvu. Eftir rakamettaða samveru með hinum ýmsustu dýrum regnskógana þótti ekki annað hægt en að kæla fjölskylduna niður með kúluís. Við kvöddum regskógana með bros á vör og snæddum hvítlauksleginn N-Evrópskan kjúkling með tikka-masala sósu í smáhýsinu okkar um kvöldið. Rakamettun regnskóganna var skoluð af fjölskyldunni í baðhúsi tjaldsvæðisins fyrir svefninn.

Dagur 1 (1.júlí 2003)

Veðrið:
Íslenskur morgungrámi og dönsk sumarblíða í bland.
Meðal efnis:
  • Brottför
  • Rúmkaup og sjóferð
  • Snyrtiboxið sent í útlegð

Baldur var brottnuminn upp úr kl 5 þriðjudagsmorguninn 1.júlí 2003 til að fara í bíltúr suður með sjó með mömmu sinni, pabba og Ástu, frænku, Kefla vík nánar tiltekið. Á vellinum hitti ég fyrir gamlan vin sem ég hef ekki séð árum saman, hann Elvar. Hann var á leið heim aftur til Noregs með Gunn spúsu sinni, en hann og Gilli fluttu einmitt út fyrir nokkurm árum og hafa aðlaðast sönglandi norskunni svona ljómandi vel.

Flugvélin fór í loftið rúmlega 7:30 og stóð Baldur sig eins og hetja í flugtakinu. Honum þótti nú ekki mikið til þess koma og sofnaði fljótlega eftir flugtakið og móðirin fylgdi fordæmi hans. Við vorum svo lukkuleg að hafa autt sæti á milli okkar þar sem Baldur gat sofið vært og þar sem það virtist vera almenn stemning fyrir svefninum lokaði ég augunum líka.

Lendingin var mjúkleg og áfallalaus en kom þó ekki í veg fyrir það að snyrtibox frúarinnar springi á limminu. Mýflugufæluúðabrúsinn þoldi ekki þetta aukna álag og ákvað að enda viðburðalausa tilveru sína. Allir ferðafélagar hans fengu að kenna á því þar sem allt innihald snyrtitöskunar var löðrandi í hvítleitum sítrónu ilmandi flugnafæluvökvanum sem vall út um samskeytin. Húsmóðurinni var ekki skemmt. Bráðabirgðaþrif voru drifin af, sjúklingnum svo stungið í plastpoka og stikað af stað til að sækja bílinn.

Bíllinn reyndist hinn vörpulegasti Peugeot utan þess að bílstóllinn var alveg af síðustu sort. Gauðdrullugur, gamall larfur ofan af háalofti ef marka mátti skítinn sem hjúpaði hann. Húsmóðurinni var ekki skemmt. Einnig fylgdi með bílnum miðstærð af notuðu kókglasi og ein ónotuð saltpilla í hólfinu undir útvarpinu. Ekki þótti annað verjandi en að fá nýjan stól sem mældist yfir velsæmismörkum í skiptum fyrir upphaflega stólræsknið. Þá var okkur ekkert að vanbúnaði að bruna beinustu leið til Holbæk þar sem stutt stopp var gert í BabySam því skyni að versla 1 stykki ferðabarnarúm fyrir Baldur Frey. Margt fleira hefði nú eflaust verið hægt að versla sér í þessari stórglæsilegu búð en fjögur-ferjan til Ebeltoft frá Sjællands odde beið okkar (vonandi) við bryggjusporðinn.

Við komum á bryggjusporðinn þegar klukkuna vantaði 10 mínútur í fjögur og var okkur hleypt um borð án vandræða. Pöntunin okkar af netinu fannst fljótt og vel og innan skamms vorum við á fullri ferð yfir stilltan sjóinn. Tæpri klukkustund síðar lagðist hraðfleyið Maí að bryggju við Jótlandsstrendur, Ebeltoft nánar tiltekið. Tjaldsvæðið Mols fannst eftir vægar vegvillur í nágrenni Ebeltoft þar sem við keyrðum nokkra hringi með kortin í klofinu, en við komumst á leiðarenda að lokum. Í móttökunni var það hún Þórhildur þrusa staðarhaldari sem tók á móti okkur með kostum og kynjum. Ekki skorti ákveðnina og hvassan málflutninginn þegar hún vísaði okkur veginn að kofanum okkar. Engar óþarfa spurningar né inngrip voru leyfðar við þaulæfðar leiðbeiningaræðuna, takk!

Smáhýsið okkar reyndist ljómandi fínt og dótinu var komið fyrir. Þá var það fyrsta verk að gera að áðurnefndu snyrtiboxi sem hafði snarlega verið stungið í plastpoka við farangursböndin á Kastrup fyrr um daginn. Lital fjölskyldan rölti sér því niður að hinni miðlægu þvottamiðstöð svæðisins. Aðrir gestir tjaldsvæðisins litu undrunaraugum á þetta furðulega lið sem stóð í einu horni eldhússins og vaskaði upp snyrtibox! Eftir á var nú hlegið létt að þeirri tilhugsun að við hefðum ábyggilega komið með nýja angan af sítrónuflugnafæluvökvanaum, inn í allan matarlilminn sem steig upp frá snarkandi pönnum Dananna. Hláturinn dó og brosið hvarf þó skjótt af vörunum þegar við mundum eftir kúkableyjunni hans Baldurs í netinu undir kerrunni. Sítrónuilmurinn af flugnafæluvökvanum hefur þó þó vonadi náð að yfirgnæfa kúkafýluna. Við borðuðum úti niður í bæ um kvöldið á mongólskum grillstað þar sem við myndum örugglega ekki finnast en snyrtiboxið beið heima á verönd í útlegð.

mánudagur, 20. desember 2004

39 þrep til glötunar

{mosimage}39 þrep til glötunar. Eiríkur Guðmundsson, Bjartur 2004.

Ég hafði lengi beðið eftir að hefja lestur þessarar bókar frá æðstapresti Víðsjár. Enda eru pistlar hans og prósi ákaflega skemmtilegir og hressandi.


Og jú minn kæri, þetta var alveg hreint ljómandi lesning af 39 hugvekjum og vangaveltum. Eiríkur skrifar skemmtilega og eru hin 39 glötunarþrep bundin saman með þeim þræði að um bréf til vinkonu að vestan sé að ræða.

En eins og margar af helstu bókmenntaverkum heimsins, er þessi bók í raun ekki um neitt eitt ákveðið eða um neitt yfirhöfuð. Þó er þetta mun aðgengilegra en t.d. Óhuggandi (Kazuo Ishiguro) sem ég hef gert 3 atlögur að..

Lokið: 4.janúar 2005

laugardagur, 11. desember 2004

Nýjar myndirVegna mjög ákveðinna tilmæla tveggja lesenda set ég inn nokkrar nýjar myndir af Ástu Lísu og Baldri Frey. Baldur Freyr stóri bróðir er voða góður við litlu systir sína og er duglegur að halda á henni.