miðvikudagur, 30. nóvember 2005

Rokkað í Køben

Snigillinn sagði:

Enn eitt kvöldið fékk ég bæjarleyfi og því var haldið niður í miðbæ Kaupmannahafnar. Ég sagði ykkur frá því um daginn að ég myndi fara á tónleika með Anne Linnet í nóvember og þeir voru einmitt á laugardagskvöldið. Íris og Magga voru hér hjá okkur og við nutum samvista við þær á milli þess sem þær sóttu tónleikastaði heim. Takk kærlega fyrir komuna, stúlkur. Við vonum að heimferðin hafi gengið vel! En aftur að laugardagskvöldinu .....

 


sem var frábært. Anne Linnet er hreinlega frábær tónlistarmaður. Krafturinn í henni og frá er ótrúlegur og því voru tónleikarnir heilmikil upplifun. Það er svo gaman að heyra Anne segja frá t.d. skýjum, hegðun fugla, upplifun af vatni og afbrýðissemi á hátt sem fær mann til að nánast upplifa lýsinguna hennar.

Anne hefur víst ekki farið ávallt troðnar slóðir í lífinu, og þar af leiðandi er tónlistin hennar undir miklum áhrifum af því. Platan "Her hos mig" sem kom út í október fer með mann í gegnum heila sögu sem hún skýrir svo flott á tónleikunum. Svo skilur hún mann einmitt í þessu ástandi að vilja vita meira og meira og meira.... svo að nú bíð ég spennt eftir því sem koma skal.

Eitt af því sem heillar mig hvað mest við tónlist yfirhöfuð er þegar hún kemur manni í ákveðið hugarástand og fær mann til að taka allan tilfinningaskalann og muna eftir atburðum sem tengjast einmitt hinum og þessum tilfinningum. Tónlistin og stemningin sem var á tónleikunum hrifu mig svo sannarlega á braut og komu mér í þetta hugarástand.

Á leiðinni heim í lestinni urðu við fyrir annarri og ekki eins ánægjulegri sýn. Það kom maður inn í klefann og settist niður fyrir aftan okkur. Fljótlega gaus upp mikil límlykt og við sáum svo að lyktin fylgdi honum því að hann var að sniffa. Aumingja maðurinn, hann var svo út úr öllum raunveruleika og gerði ekkert annað en að "bögga" fólkið í lestinni. Sorglegt.

Í gær var "julehyggen" í (leik)skólanum hans BFF. Þar hittust foreldrar og börn og boðið var upp á æbleskiver, pebbernødder, glögg og saft. Þetta byrjaði kl. 15.30 og þegar ég kom um 4, þá sé ég að BFF er að borða æbleskiver. Bettina kallar á mig og sagðist bara vilja láta mig vita að hann væri búin að borða "rigtig rigtig mange", etv. 10 stk. æbleskiver, svona ef vera skyldi að honum yrði illt í maganum. Hann hélt svo áfram að borða, eflaust 3-4 til viðbótar og þegar hann fékk sér bita dýfði hann æbleskiven samviskusamlega í sultuna og flórsykurinn. Þessi elska! En hann var alveg í fínu standi á eftir, lék sér með strákunum og var eins og ljós. Hann borðaði hinsvegar ekki mikið í kvöldmat og skyldi engan undra ;-) Ásta Lísa skemmti sér einnig konunglega í skólanum eins og við var að búast, en henni finnst alltaf svo gaman að koma inn í skólann hans BFF.

Jæja ætli ég verði ekki að fara að gera e-ð, mor&far eru að koma á föstudaginn - JIBBÍ JIBBÍ - og þá er nú eins gott að hafa allt hreint & fínt fyrir hana Oddný og setja upp eins og eina, tvær seríur fyrir hann Jakob. Mikið rosalega hlakka ég til að sjá þau!!

Ég sendi ykkur mínar ástarkveðjur og munið að þó ég sé ekki alltaf að skrifa hér inn á síðuna, þá er ég alltaf að hugsa um það sem ég gæti sagt ykkur. En það er nú bara eins og það er, ég fæ ekki alltaf gert allt sem ég hugsa og langar til ;-(

Svo að lokum munið að njóta undirbúnings jólanna, því jólin og stemning þeirra byggir á undirbúningnum.

Kys og kram
Hanna

föstudagur, 25. nóvember 2005

Svipmyndir

Framkvæmdir í Sölleröd

Nokkrar nýjar myndir eru komnar í albúmið. Þar á meðal frá framkvæmdum, Raadvaad deginum ofl.


þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Andleysi

Snigillinn sagði:

Skrýtið þetta andleysi sem hellist oft yfir mig þegar ég er sest við tölvuna og ætla að skrifa e-ð. Eins og heilastarfsemin leggist af. Flakka þá á milli síða og geri í raun ekki neitt. En nú er kominn tími til að skrifa því að langt er síðan síðast.

 


Heil vika ... og þá er bara að rifja upp. Valla og Sæmi komu á miðvikudaginn sl. Og voru fram á laugardag. Ljúft það og börnin sérlega hrifin. Við bjuggumst við að ÁLF myndi vera e-ð feimin við þau en ekki aldeilis. Þegar ég og Valla sóttum hana í Legestuen á fimmtudaginn var alveg spurning hvort ÁLF vildi meira til mín en ömmu sinnar. Gott mál! Við fórum í Experimentarium á fimmtudaginn og í Tivoli á föstudeginum og skemmtum okkur vel þrátt fyrir að frostið biti ansi skart í kinn.

Á laugardagskvöldið fór ég í bæinn, fékk s.s. bæjarleyfi hjá manninum en þið sem hann þekkið þá gerist það ekki oft ;-) Ég fór og hitti Jenný, Silju, Berglindi og Ellen. Seinna komu svo Davíð og Sanne. Við borðuðum á Ankara sem er tyrkneskur veitingastaður á Vesterbrogade og fórum svo á bar á Istedgade. Ljómandi fínt.

Á veitingastaðnum voru Danir sem fóru að spjalla við okkur og e-ð barst talið að því hvort við værum ekki enn undir Dönum og það að við værum að kaupa upp alla Kaupmannahöfn (sbr. Merlin, Magasin, Illum etc.). Jenný var ekki par hrifin af því að vera sett undir Danina og nýtti því tækifærið þegar komið var inn á öll kaupin, og svaraði "já og næsta sem við Íslendingar munum kaupa er tungumálið og þá munuð þið öll þurfa að tala íslensku!" Ansi gott hjá þér stelpa :-)

Sunnudagurinn var rólegur, við hjóluðum til Holte og fórum á bókasafnið með krakkana.

Og nú er komin ný vika með sól í hjarta og sól í sinni. Ég bið fyrir ástarkveðjum til ykkar allra um allan heim og vona að þið nýtið daginn í dag til hins ítrasta!!
Hanna.

laugardagur, 19. nóvember 2005

Október 2005, Baldur Freyr

Baldur Freyr batman

Margt gerðist hjá Baldri í október. Hann byrjaði í nýjum leikskóla, fór að kúka í klósett, fór á kanó í fyrsta skipti ofl...


 • Byrjar í Engevang Syd (leik)skólanum þann 3. október. Gengur nokkuð vel í aðlögunni. Klárar fyrstu vikuna ágætlega með smá niðursveiflu eftir hádegi á föstudeginum, þegar þrekið hefur sennilega verið búið. Er annars ánægður með að vera með öðrum krökkum að leika. Einn íslenskur strákur er líka þarna: Garðar (Gæi). Morgnarnir eru oftast erfiðir, lítill í sér og grætur.
 • Hundaleikur tekinn í gagnið: binda hundinn (pabba/mömmu) og skilja eftir fastan við kommóðu eða önnur húsgögn. Er hrifinn af köttum.
 • Latibær uppgötvast á Norskri stöð (tv 2). Mjög vinsælt og tekið upp á spólu. Farinn að horfa á meiri flóru af teiknimyndum og barnaefni, enda úrvalið mjög mikið í stöðvaflórunni.
 • Fer að sofaupp í hjá foreldrunum. "Þú átt að sofa bara í þínu rúmi", "Nei, stundum þarf að sofa í þessu rúmi. Stundum er það bara svoleiðis.". Mát.
 • Frasar: "Þannig er það bara!" enda samtölin oft á tíðum. Upp við hurð: "Ég er að hugsa (í mig)"
 • Danska Nej kemur sterkt inn. Ahhh, nejjj.
 • Uppgötvar Andrés Önd í Disney stundinni. Verður forfallinn aðdáandi frá fyrstu mínútu.
 • Fer að kúka í klósett að undangengu umbunarkerfi þar sem verðlaunin voru gítar eftir þrjú skiptin.
 • Stundum sport að vera með MP3 spilarann hans pabba þegar hjólað er í leikskólann. Hlustað á The Shins og Stine Nordenstam
 • Ferá kanó með mömmu á opnum degi í Raadvad Naturskolen. Sér líka fláningu dádýrs við sama tilefni upp við húsvegg. Ekki mjög hrifinn af því: "Af hverju er búið að skera í rassinn?"

Október 2005, Ásta Lísa

Ásta Lísa

Í október varð Ásta Lísa eins árs hvorki meira né minna. Fær pláss hjá fyrstu dagmömmu sinni ofl...


 • Gangbrautarljós. Finnst svo gaman að fá að ýta á takkana. Byrjar að skríkja um leið og götuljós eru í augnsýn. Finnst líka gaman að ýta á takkana í lyftunum.
 • Stingur sjálf með gaffli í matarbitana eftir stutta sýnikennslu. Getur sjálf!
 • Voða hrifin af því að leika sér með plastdósirnar marglitu sem má raða ofan á og inn í hvor aðra.
 • Farin að fara aðeins upp á hnén. Frekar löt við að standa í fæturnar, setur þær frekar í setstöðu þegar prófa á að tosa upp og láta standa.
 • Tennurnar ryðjast fram. Fjögur stykki jaxlar koma upp á yfirborðið. Mikill pirringur vegna þess. Augntönn vinstra megin uppi kemur líka í ljós.
 • Mikið að gera á gólfinu og oft verið að færa hluti fram og til baka, inn og út úr skúffum. Setja dót í uppþvottavélina og inn í skápa. Leikurinn gjörðusvovel-takk-gjörðusvovel-takk-.... osfrv voða vinsæll.
 • Setur Fisher-Price kalla sjálf í stóla og kubbar saman Lego kubbum (stórum).
 • Vill svolítið fara að ráða því hvenær er farið að sofa á daginn og stundum á kvöldin líka, sem er alveg nýtt fyrir foreldrunum. Ótti grípur um sig að dýrðardagar svefnljúflegheitanna sé á enda þegar mótmælin eru sem háværust hjá litlu dömunni.
 • Er alveg vitlaus í þurrkaðan ananas og svolítið sólgin í rúsinur í hallæri ef ananasinn er ekki í boði.
 • Fær pláss hjá dagmömmunni Joan Peterson í Egehegnet. Fer í kynnisheimsókn með pabba sínum. Gríðarhrifin af bollunum sem Joan bakaði en vill mest vera við og í fanginu á pabba. Fer svo í 1 árs skoðun og sprautu á eftir. Vegur rúmlega 8 kg

þriðjudagur, 15. nóvember 2005

Hæ hó ég hlakka til

Herforinginn sagði:

þegar þessu veikindastússi verður lokið. Tengdó að koma á morgun og Finnur lagstur í bælið.

 


Það er ekki alveg rétti tíminn fyrir veikindi, en hvenær er það svo sem? Ég vona bara að þetta verði ekki í langan tíma, vinsamlega sendið góða straum!

Enn og aftur datt mér líkingin við herforingjann í hug. Ég held að maður sé nokkuð gott efni í herforingja miðað við æfinguna á börnunum, sérstaklega á dögum sem þessum þar sem allt þarf að ganga nokkuð smurt.

Ásta hefur sent frá sér sitt fyrsta bréf frá Marokkó og lætur mjög vel af sér. Ég býð spennt eftir því að fá smámunalegar lýsingar af öllu, alveg væri ég til í að vera að skoða svona nýjan heim. Svo að nú er ekkert annað en að drífa sig í að læra frönsku og fara! Ég sendi mínar hlýjustu kveðjur niðureftir - stór koss.

Það er orðið ansi napurt og í dag hefur blásið þokkalega. Í kvöld er hinsvegar fullt tungl, eins og hjá ykkur hinum líka ;-) og hér er heiðskírt og þvílík fegurð. Ég verð alltaf jafnagndofa yfir náttúrunni. Hún lengi lifi!!

Ég ætla að kasta mér upp í sófa með popp og kók. Heyrumst síðar!

Kys og kram
Hanna

mánudagur, 14. nóvember 2005

Ungur piltur

Elsku Harpa og Torfi

Til hamingju með prinsinn ykkar. Ég hlakka til að sjá ykkur öll, vona bara að það líði ekki ár og öld þar til það verður. Gangi ykkur vel í nýju hlutverkunum!!

Ástarkveðjur
Hanna


sunnudagur, 13. nóvember 2005

Undarlegt

Freðfinnur sagði:
Helgin hjá okkur var um margt frekar undarleg þótt hún hafi í sjálfu sér ekki verið mjög viðburðarrík. Ekki nálægt því eins viðburðarrík eins og dagarnir eru hjá henni Ástu okkar sem er sennilega núna í þessum töluðu orðum að knúsa Rachid sinn í Morokkó. Undarlegt að hún sé flogin suður á bóginn eins og farfuglarnir....

Á laugardagsmorguninn var undarlegt að koma niður í stofu og sjá auðan svefnsófan þar sem Ásta hafði bylt sér undanfarnar nætur. En hún var farin til London í einn sólarhring að bíða eftir aðalfluginu: til Marokkó á fund Rachids, hvorki meira né minna.

Þennan morguninn mátti vægt orða það sem svo að Baldur Freyr hafi vaknað á röngunni, enda var Ásta Lísa að ræsa fjöskylduna fullsnemma þarna klukkan hálf sjö. Morgunverkin höfðu nú samt sinn vanagang og okkur datt svo í hug að annað okkar færi með Baldur Frey í sundhöllina sem við höfðum svo lengi ætlað okkur. Aðeins að viðra frumburðinn og gera eitthvað skemmtilegt.

{mosimage}Það varð því úr að við feðgar hjóluðum til Nærum í Rundforbihal sundhöllinna. Ég borgaði okkur ofaní hjá stærðfræðiþenkjandi afgreiðslustráknum og fann karlaklefann. Sem var svo undarlega tómlegur að ég hélt að við værum að villast. En þetta var alveg rétt hjá okkur og þá var bara drifið sig í sturtu, sundskýlur, ermakúta og svo út í laug.

Undarlega ísköld var laugin og langt frá því sama paradísin og sundlaugin í Hróarskeldu sem við fórum í með Jónasi, Hirti og krökkunum í síðasta mánuði. Baldur Freyr reyndi að harka þetta af sér en hann var alveg blár og hríðskjálfandi, enda vantar allan verndarhjúp á hann eins og faðirinn hefur svo haganlega komið sér upp í gegnum árin. Soldið súrt að þurfa að fara eiginlega bara strax upp úr, en það var víst ekki um annað að ræða þegar tennurnar glömruðu bara bak við bláar varirnar á Baldri og eistu föðursins voru á hraðri leið upp í handarkrika.

{mosimage}Baldri fannst eiginlega bara skemmtilegasti hluti sundferðarinnar að leika sér í klefanum á meðan við vorum að klæða okkur. Þegar það kom svo loksins að því að klæða sig í sokka og skó, þá brá svo undarlega við að ég fann hvergi sokkana mína! Ég reif allt upp úr töskunni aftur og leitaði þar ásamt því að kíkja inn i alla opna skápa ef ske kynni að ormurinn hefði verið að koma þeim fyrir þar. En ég endaði á því að hjóla heim berfættur í skónum, sokkunum fátækari, þannig að í heildina séð var þessi sundferð ekki mikil frægðarför.

En ég var ekki sá eini fáklæddi í bænum þennan laugardaginn. Um kvöldið þegar við vorum á leiðinni heim frá kaupmanninum að versla nýsjálenska lambasteik, hvatti Hanna mig eindregið til að kíkja inn á fasteignasöluna í endanum. Sem ég og gerði og viti menn: þar sat einn undarlegur fýr við tölvuna með tónlistina í eyrunum alveg niðursokkinn í sínum heimi. Og hvað var svona skrýtið við hann? Tja, hann var bara ber að ofan. Ekki að neðan þó, ég gáði vandlega að því ef ske kynni að ég gæti séð hvort hann hefði kannski stolið sokkunum mínum þarna um morguninn.

Undarlegt!

 

föstudagur, 11. nóvember 2005

Börnin mín kær

Móðirin sagði:

Nú er ferðin hennar Sibbý á vit ævintýranna í Morokkó hafin. Það er búið að vera yndislegt að hafa hana og við ansi dugleg að hafa það gott. Því brá mér er ég hrökk upp í nótt við óþægileg hljóð.

 


Sibbý greyið var orðin veik og faðmaði Gustavsbergið. Hún hefur það þó betra núna en þetta var ekki alveg tekið með í reikninginn þegar ferðalagið var undirbúið. En til þess að vera nú svolítil Pollýanna þá segi ég; betra hér en þar. Það væri nú ekki gaman að vera nýbúin að hitta fjölskyldu R og verða svo veik. Óneiónei. En það er ekki nóg að hún Sibbý sé/var veik heldur er hann Baldur Freyr líka veikur. Hann var e-ð svo ofsalega þreyttur eftir leikskólann í gær og borðaði lítið af matnum sínum. Hann sofnaði svo um 7 í gærkvöldið, vaknaði aftur um 11 en fór fljótt aftur í rúmið með foreldrum sínum. En þegar við vöknuðum í morgun var staðreyndin óumflýjanleg, hann er með hita. Þau sofa nú frændsystkinin saman uppi í herbergi og vonandi mun þeim líða betur þegar þau vakna.

Ég glími við e-n einbeitingarskort hér við tölvuna, kveð því í bili og vona að þið eigið öll góða helgi.

Kys og knus
Hanna

þriðjudagur, 8. nóvember 2005

Koma hinnar eðalbornu

Ég hef verið hér eins og útspýtt hundskinn við þrif á íbúðinni og ekki vanþörf á. Það sem dreif mig hvað allra mest áfram var að von er á hinni umhverfisvænu á hverri mínútu.


Hún Sibbý systir mín er nefnilega að koma bara rétt bráðum og er nú í þessum skrifuðu orðum eflaust að lenda á Kastrup. Mikið hlakka ég til. Ryksugan hlakkaði greinilega líka til vegna þess að hún fór hreinlega yfir um af spenningi. Þegar það gerðist dreif ég mig í að slökkva á vélinni og koma henni út fyrir svona ef e-r eldur væri í uppsiglingu. Eftir smátíma afréð ég að kíkja á hana og tók úr poka og filter, prófaði svo að setja hana aftur í gang og þá sté upp þessi mikli reykur úr öllum vitum vélarinnar. Hún er því úrskurðuð látin eða í það minnsta mikið biluð.

Þá kemur einmitt upp umhverfissjónarmiðið, eigum við að gera við vélina eða kaupa nýja þar sem báðir möguleikarnir geta kostað jafnmikið. Umhverfislega séð ættum við að gera við vélina, því betra er að endurnýta en að henda og kaupa nýtt. Við eigum eftir að funda um þetta mál og komast að niðurstöðu. Læt ykkur etv. vita þegar það að kemur!?!

Aftur að umhverfismálum, og ekki fjarri lagi þar sem hún Sibbý mín tók á móti umhverfisverðlaunum Ferðamálaráðs Íslands ekki alls fyrir löngu.

Hafið þið e-n tíman velt fyrir ykkur magninu af hreinlætisvörum sem við sendum frá okkur út í náttúruna? Og eru allar þessar hreinlætisvörur nauðsynlegar eða erum við fangar markaðsaflanna? Mín skoðun er sú að það eina sem við þurfum til þess að þrífa heimilið okkar (að klósettinu etv. undanskildu) er heitt vatn. Það er samt ekki endilega svo að það sé það eina sem ég nota. Eins ef við lítum á það gríðarlega úrval sem við höfum af þvottaefnum. Fyrir það fyrsta; hversu rosalega eru fötin okkar skítug og í öðru lagi þá er það alveg ótrúlegt að þegar nýtt efni kemur á markaðinn (og það virðist alltaf þurfa meira og meira magn í hvern þvott - skrýtið?) þá er eins og það sem áður var best sé bara nothæft því að þetta nýja er algerlega málið og það langbesta, sbr. auglýsingarnar.
Þetta getur ekki verið gott fyrir náttúruna og því vil ég biðja ykkur í þetta sinnið að leiða hugann að þessu næst þegar kemur að notkun á hreinlætisvörum. Hafðu það í huga að þú ert bara einn af svo fjöldamörgum sem notar þessi efni og því ættum við að reyna að minnka magnið sem við notum. Það besta er náttúrulega að skipta yfir í umhverfisvænar hreinlætisvörur, þó svo að þær komi aðeins við pyngjuna í dag þá eru þær náttúrunni til framdráttar fyrir komandi kynslóðir.

Eitt umhugsunarefni til viðbótar og það er blessað vatnið okkar. Ert þú ein/n af þeim sem lætur vatnið renna umhugsunarlaust, t.d. þegar þú ert að tannbursta þig eða ætlar að fá þér eitt glas af köldu vatni? Oftast er þetta vegna þess að við höldum að það verði alltaf til nóg af vatninu. Hugsaðu þér þá barnið þitt, í nútíð eða framtíð, sem myndi eyða peningum eins og það væri nóg til af þeim. En ástæðan fyrir því að nóg væri af þeim væri sú að þú hefðir unnið hörðum höndum til þess að eignast peningana. Hvað gerðist svo ef þín nyti ekki lengur við? Það er hægt að hugsa það sama með náttúruna, hún hefur unnið hörðum höndum til að viðhalda ferska vatninu en hvað myndi gerast ef hún gæti það ekki lengur?? Spáum aðeins í því!
Jæja ætli ég sé ekki búin að skrifa nóg, eflaust eru nú e-r hættir að lesa og búnir að skrifa ímynduðum stöfum "tuð" yfir tölvuskjáinn hjá sér. Ég kveð því í bili og vona að þið hafið það sem allra best í hreinni náttúru og hreinu lofti!

Kys og kram
Hanna

laugardagur, 5. nóvember 2005

Er ég á Íslandi??

Íslending sagði:

Já það var einmitt stóra spurningin sem leitaði á okkur í dag er við lögðum leið okkar til Kaupmannahafnar en skýringin kom fljótt í ljós.

 


Við vorum ekki fyrr mætt í pulsuvagninn nærri Vesterport station en íslenskan hljómaði um allt. Og áður en margar mínútur liðu hittum við hana Rósu Lyng. Hún útskýrði fyrir okkur alla þessa Íslendingamergð. Haukar voru víst að spila við Århus í handboltanum og Sálin hans Jóns míns er á Vega í kvöld. Það voru víst ansi mörg starfsmannafélög og saumaklúbbar sem sáu sér leik á borði og fylktust til Kongens København. Ég er ekkert að grínast með að það var nánast eins og að vera í miðbæ Rvk, svo margir voru Íslendingarnir. Ég óska því öllum þeim sem leggja leið sína á Vega í kvöld góðrar skemmtunar.

Sibbý - hún Rósa bað fyrir sérlega góðri kveðju til þín!

Við hittum Dagnýju og Kolbein Hrafn á Rådhuspladsen og Hjörtur hitti okkur svo stuttu seinna í Kongens Have. Við eyddum svo deginum með þeim og höfðum það gott. Þeir eru svo frábærir saman Baldur Freyr og Kolbeinn Hrafn, og gaman að fylgjast með samskiptum þeirra.

Það er eitt sem við Finnur verðum að fara að gera betur í skipulagningu. Okkur gengur nefnilega svolítið erfiðlega að láta lestar og strætisvagna passa saman og því endar það ansi oft með því að við þurfum að ganga heim frá Holte. Þannig var það líka í dag og við gengum heim í grenjandi rigningu. Við vorum nánast vot upp að hnjám ;-)

En heim erum við komin og notalegt kvöld framundan. Ég bið fyrir kærri kveðju til ykkar og vona að þið njótið kvöldsins.

Hanna

p.s. ef svo skyldi vilja að engin skrif verði á morgun, þá þjófstarta ég og óska honum Þorláki Lúkasi til hamingju með árin 2. Ástarkossar og knús frá Søllerød.

föstudagur, 4. nóvember 2005

Skrýtin tilfinning

Kærleiksbjörn sagði:

Í dag er 4. nóvember, J-dagur og veðrið alveg hreint yndislegt. Hér er um 12 stiga hiti, fá ský á lofti og hellingur af laufblöðum á trjánum ennþá. En von er á snjókomu. Ég er hrifin af þessu! Stórt skref var stigið í dag ....

 


Snjókoma?? Já mikið rétt, því í kvöld kl. 20.59 mun fyrsti snjórinn falla til jarðar og honum mun eflaust fylgja gleði. Snjórinn er í formi bjórs og það er Tuborg sem gefur kassavís af honum í kvöld. Við munum ekki taka þátt í gleðinni nú í ár (kannski næsta ;-) ) en aldrei að vita nema ég versli e-n góðan bjór til þess njóta í kvöld.

Í dag er hún Ásta Lísa ein í fyrsta sinn hjá dagmömmunni sinni og nú eru komnir tveir tímar frá því að ég fór með hana og enn ekkert heyrst svo að það hlýtur að ganga þokkalega. Þetta er ansi stórt skref fyrir okkur mæðgurnar og ekki frá því að ég sé með hálfgert samviskubit að sitja hér við tölvuna. Ég hlakka til að fara að ná í hana nú eftir um klukkutíma og heyra hvernig hefur gengið. Hún er nú reyndar soddan félagsvera að ég held að hún komi til með að njóta þess að vera í félagsskap annarra barna.

Það er alltaf jafngaman hvað heimurinn er lítill. Á sunnudaginn sl. hitti ég hana Helgu kennara úr Húsó á götu í Kaupmannahöfn. Við vorum að fara yfir götu hjá Nørreport þar sem ég heyri íslensku, lít til hliðar og þar var hún Helga og maðurinn hennar. Mér finnst gaman að hitta Helgu.

Enn og aftur er ég glöð!! Hún Ásta systir mín er að koma á þriðjudaginn og hún ætlar að vera fram á laugardag. Ég er með ýmsar hugmyndir um hvað verður gert en ætli ég beri það ekki undir hana áður en framkvæmt verður. Hún er jú stóra systirin! Mikið hlakka ég til að þú komir elsku sys!

Og enn af heimsóknum því að nú hafa mor&far&Anja studd við bakið á íslenskum flugiðnaði. Von er á þeim 26. desember og heimferð rétt fyrir nýja árið. Nú hef ég ennþá meira til að hlakka til!!

Verið velkomin öllsömul :-)

Það er nú ekki oft sem ég horfi á Judging Amy en gerði það á þriðjudagskvöldið. Amy sagði svolítið sem hefur fengið mig til að hugsa, hún sagði "we have to look out for eachother, all of us". Það var verið að fjalla um mál tveggja manna, sem áður voru vinir en höfðu fetað mismunandi stíga í lífinu. Báðir voru þeir múslimar, annar heittrúaður en hinn ekki og sá átti kærustu sem ekki var múslimi.
Þó svo að þetta hafi verið atriði í sjónvarpsþætti þá held ég að þetta sé einmitt málið. Við þurfum að sýna hvort öðru aðeins meiri kærleik; hvernig svo sem við lítum út, hvaðan við komum, hvaða trú við höfum, hvaða fatasmekk, tónlistarsmekk, talgalla, útlitsgalla, eða bara hvað það nú er sem getur vakið viðbrögð. Stundum eru viðbrögð okkar við því sem er öðruvísi svo snögg og hvöss að við gleymum að líta í eigin barm. Við eigum jú öll okkar galla, suma sem við reynum að fela og aðra sem við reynum að vinna í. Við lítum líka mismunandi augum hvað eru gallar og hvað ekki, í mínum huga getur galli verið kostur en öfugt í þínum.

Ég ætla í kjölfarið af þessari hugleiðingu að biðja ykkur sem lesið þetta að hafa þetta bakvið eyrað. Reyndu að sýna aðeins meiri náungakærleik í dag en í gær, aðeins meira umburðarlyndi, aðeins meira af hinu góða. Ég er alveg sannfærð um að það sem við sýnum í dag fáum við tilbaka á morgun.

Kærleiksknús til ykkar allra og vona ég að helgin sem framundan er verði ein sú besta í lífi ykkar.

Hanna

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Nýjar myndir

Myndarlegi maðurinn sagði:

Haust í Danmörku

Já það kom að því: nýr og vænn skammtur af myndum af lífinu hér ytra er kominn í myndaalbúmið okkar.


Það verður að viðurkennast að það er um nokkuð liðið síðan síðasti skammtur kom inn (mánuður) en það stafar aðallega af því að myndirnar koma af símanum mínum yfir á vinnufartölvuna og svo þurfa þær að skutlast þaðan inn á netið. Hér var ég sem sagt að þylja upp einhvern tæknilegan fyrirslátt fyrir þessari bið. Íris, þú getur andað rólega núna og ég skal vera duglegri að setja inn næstu myndir ;o)

Er barnið komið??

Móðirin sagði:

Netsambandið er ekki upp á sitt besta þessa dagana, dettur inn og út. Pirrandi. Sérstaklega þar sem þetta er sambandið við umheiminn. Ýmislegt er búið að gerast síðan minn heittelskaði skrifaði hér inn síðast.

 


Ásta Lísa er eins og netsambandið, ekki alveg upp á sitt besta. Það er samt ekki hægt að benda á neitt annað en tennurnar en þær eru að koma hver af annarri. Hún er ekki alveg eins kát og hún á að sér að vera og móðursjúk er hún sem aldrei fyrr. Ég fór með hana til dagmömmunnar, Joan í morgun. ÁLF var mjög vör um sig og grét dramatárum þegar mamman dirfðist að fara á klósettið. Henni fannst ég ansi hörð við sig. Á morgun mun ég fara með hana og skilja hana eftir. Ég verð að viðurkenna að ég er með smákvíðahnút í maganum yfir því. En hún hlýtur að læra þetta, er það ekki?

En þar sem bæði börnin eru komin í dagvistun þá get ég víst farið að huga að sjálfri mér. Hvað vil ég? Það er skrýtin spurning en svarið hlýtur að líta dagsins ljós einhvern daginn.

Ekki það að ég hafi ekki nóg að gera. Það þarf að klára að taka teppið af svefnherberginu, það er eflaust 12 - 15 klst. vinna. Það þarf að mála ganginn uppi og snurfusa aðeins. Síðan er tengdó að koma í heimsókn og Íris&Magga líka svo að það verður gaman og nóg að gera. Það þarf að fara með ÁLF til tannlæknis og fara með hana í pencilín-ofnæmispróf. Síðan eru jólin á næsta leiti.

Þannig að ég get alveg látið tímann líða. En þrátt fyrir það þarf ég að svara spurningunni J

Þau ykkar sem stoppuðu við það að fara með ÁLF til tannlæknis þá er það víst þannig hér að foreldrar/börn fá viðtalstíma hjá tannlækni þar sem farið er í gegnum umhirðu tanna hvað varðar heilbrigði, lyfjagjöf, drykkjarvenjur, snuðnotkun o.s.v. Mér líst vel á þetta og hlakka til að sjá hvernig verður.

Hvað titilinn varðar þá er ég að spá í hvort e-ð sé farið að gerast hjá henni vinkonu minni. Er það nokkuð?? Allt í rólegheitum ennþá?? Eins og við töluðum um í símann þá getur verið ansi pirrandi að fá sömu spurningarnar aftur og aftur og aftur og ..... og ég ætla því ekki að hringja/skrifa til þess að spyrja. En mikið væri ég til í annað samtal eins og um daginn. Það var skemmtilegt. Það fór fram með aðstoð Skype-sins.

Jæja ætli ég láti ekki staðar numið. Kaffiþörfin gerir vart við sig, eins og áður. Kannski að ég taki eina Sudoku með bollanum!!

ÁSTUkveðjur frá Søllerød yfir allan heiminn.
Hanna