Makedóníuferð - dagur 2 (18.9.2008) Það var ræs 10 og rölt inn í bæinn. Marjan var með áætlanir eins og fyrri daginn. Við fórum í kruðerísbúllu sem átti að þykja framreiða besta burek-ið í bænum. Það var því tekið burek og jógúrt á línuna. Þetta er mjög hefðbundið í balkanlöndunum og er frekar feitt deig með alls kyns fyllingum s.s. kjöti, spínati og osti. Við fórum í ostinn og erum við því komin í undirtegundina zeljanica. Með svona ballest í maganum voru allir klárir í slaginn og við skelltum okkur í bílana. Áfangastaðurinn var syðri endi Orhid vatnsins þar sem fallegt svæði er með uppsprettum og klaustri heilags Naum. Að venju var vegurinn hlykkjóttur með eindæmum og við borguðum fyrir að leggja á grasi gróin og hálftóm bílastæðin. Ferðatíminn er greinilega búinn því ekki var troðningurinn hér í gangi. Samt voru ekki svo mörg skörð í sölubásunum, nema kannski í kebab deildinni sem var lokuð. Við byrjuðum á að skoða kirkjuna og klaustrið kennt við heilagan Naum. Þetta er eins og marg...