miðvikudagur, 28. september 2005

2 í gleði.

Snigillinn sagði:
Jæja ætli það sé ekki kominn tími til að deila því með ykkur hvað það er sem vekur gleði mína.

Í dag er rigning og er það fyrsta almennilega rigningin sem hefur komið síðan ég kom til landsins. Það hefur nefnilega verið ansi hlýtt svona þveröfugt við það sem hefur verið á Íslandi ;-) Ég vona samt að rigningin stadri aðeins stutt við því að á föstudagskvöldið mun elskuleg systir og vinkona, Sibbý Dögg Kayz mæta á svæðið. Og þar er komin ástæða fyrir gleði minni! Ég þakka veitta forvitni og tilgátur. En þetta með óléttuna, þá verð ég nú að segja að jafnmikið og ég elska börnin mín þá vona ég að sighlétt verði ég ekki í bráð.

Nóg er nú samt. Ég sagði síðast að 2 jaxlar eru á leiðinn hjá ÁLF en þeir eru nú barasta 4. Einn í hverju hólfi. Í morgun er hún meira búin að naga snuðið en að sjúga það.

En jæja hvað á ég nú að segja ykkur? Það hefur lítið gerst síðan síðast. Ég ætla nú að fara fljótlega að skoða atvinnur og skóla. Ég get kannski búist við því að geta farið að gera e-ð, annað en að vera "bara heima", í desember eða janúar.

Ég er farin að hafa miklar áhyggjur af hundahræðslunni hjá BFF. Hann fæst varla út úr húsi öðruvísi en í fanginu á manni og ekki séns að hann sé einn úti í garði. Hann hrekkur í kút við snöggar hreyfingar eins og t.d. ef hjól fer framhjá eða fugl flýgur af trjágrein. Hann vill burt hið snarasta ef hundar birtast og í gær þá stóð hann í miðjum tröpppunum hér úti þegar Mia (stelpa sem býr við hliðina á okkur) kom út með hundana sína tvo og hann gjörsamlega frýs af hræðslu, grætur og skelfur. Litla greyið, hann á svo erfitt með þetta. Ef þið hafið e-r ráð þá megið þið endilega deila þeim með mér.

Altså nú læt ég þetta gott heita. Við ætlum að fara á bókasafnið í Holte nú á eftir og á morgun förum við í heimsókn í leikskólann sem BFF er að byrja í á mánudag. Það er eins gott að hann geti ekki lesið því þá myndi hann harðneita því að hann væri að fara í leikskóla, hann segist vera búinn að vera þar og nú sé hann að fara að byrja í skóla.

Ástarkveðjur til ykkar allra um allan heim
Hanna

mánudagur, 26. september 2005

laugardagur, 24. september 2005

Ljúfur laugardagur

Snigillinn sagði:

Hef ákveðið að nota þær fáu mínútur sem gefast nú til þess að skrifa nokkur orð. Verð að segja að ég hef ekki haft gríðarlega þörf fyrir að skrifa þó svo að ég viti að aðrir gætu haft gaman að heyra fréttir héðan frá Danaveldi.


Hef ákveðið að nota þær fáu mínútur sem gefast nú til þess að skrifa nokkur orð. Verð að segja að ég hef ekki haft gríðarlega þörf fyrir að skrifa þó svo að ég viti að aðrir gætu haft gaman að heyra fréttir héðan frá Danaveldi.

Eins og Finnur sagði í gær þá keyptum við annan stól á hjólið. Þegar þeir feðgar fóru í að setja hann á nú áðan þá kom í ljós að ýmsar skrúfur og festingar vantaði. Svo að orðum var ekki ofaukið þegar Finnur kallaði þá óreiðumeistara ;-) Strákarnir mínir eru því lagðir af stað í skrúfu&festingaleiðangur. Ásta Lísa (ÁLF) er sofandi, hún er voða pirruð í tönnunum sínum en það er að koma amk. 2 jaxlar svo að það er við því að búast að e-r séu átökin.

Eins og sjá má hér á síðunni þá hafa skrif mín ekki verið tíð (lesist engin) frá því að ég kom til Danmerkur. Ástæðurnar eru tvær og nokkuð augljósar, sú fyrri er að dagurinn flýgur í faðmi barnanna og sú seinni að orkan sem eftir stendur að kvöldi dugir ekki í skriftir. Ég hef stundum ekki orku í að tala við hana Sibbý mína í síma og þá er nú mikið sagt! Sem einmitt leiðir mig að einu umhugsunarefni mínu þessa daganna.

Hvernig stendur á því að sú kona sem velur (eða ekki velur) að vera heimavinnandi fær ekki greitt fyrir það og hvers vegna er virðingin fyrir starfinu ekki meiri?? Málið er að ég hef aldrei lent í eins erfiðu starfi og að vera heima með börn. Þá meina ég erfitt andlega og líkamlega!

Ég reyni t.d. að fara út á hverjum degi og það er ekki alltaf auðvelt að vera með tvö börn í strætó, í vagni ( sem verður hátt í 40 kg. sem þarf að ýta, snúa, bakka, halda á (þegar blessaður strætó og götuviðgerðir eiga ekki saman)). Baldur Freyr er svo hræddur við hunda að ef hundur er nálægt þar sem ég þarf að setja hann niður þá er hann eins og api sem hangir utan á mér (og það í alvörunni). Ég leik líka oft hestaleik við Baldur á daginn og þá er það bara að vera á hnjánum og ganga um gólf, og það getur tekið á! Ég hvet alla eindregið til þess að leika þennan leik, hann gefur nefnilega svo skemmtilega áferð á hnén ;-) Ástu Lísu þarf líka að halda mikið á svo að oft er maður hálfskældur og snúinn eftir daginn.

Svo er það með andlega áreitið, það er stanslaust frá morgni til kvölds. Ég hef aldrei verið í vinnu þar sem ekki hefur verið pása, matar- eða kaffitími, örlítill tími þar sem færi hefur gefist á að hvíla hugann og tæma hann. Ekkert af þessu er í boði í starfi hinnar heimavinnandi húsmóður!!

Ég legg því hér með til að tekin verður upp launatafla fyrir heimavinnandi húsmæður þar sem grunnlaun eru um 350 þús og hana nú!

Jæja það var nú ekki ætlun mín að draga úr ykkur allan mátt. Nei nei ekki aldeilis og því verður að fylgja með e-ð jákvætt.

Ekki satt??

Oft getur nú verið gaman að tungumálum þegar misskilningur verður og ég lenti í einu slíku atviki í þarsíðustu viku. Ég var að fara á milli til þess að skoða vöggustofur fyrir ÁLF og þar sem ég er að skoða eina langar mig að spyrja hvort stofurnar séu kynjaskiptar. Ég æðislega kúl á því spyr á minni velsmurðu dönsku: "er stuerne könsdelte??" Konan sem ég var að ræða við horfir vandræðalega á og um leið átta ég mig á hvað ég hafði sagt. Ég spurði nefnilega ekkert um skiptingu eftir kyni, það var frekar að ég spyrði hvort stofurnar væru kynfæraskiptar :-( Ég var fljót að leiðrétta mig.

Þetta var svona svipað og þegar ég byrjaði í háskólanum hér í Köben '97 og fór með nýnemum í ferð þar sem haft var að leiðarljósi að kynnast betur. Ég sat eitt kvöldið og var að spjalla við strák sem heitir Carsten og hann sagði mér að hann hefði verið undanþeginn herskyldu vegna e-s (sem ég man ekki alveg, minnir að það hafi verið bakið). Á dönsku er sagt "at blive kasseret" í merkingunni að fara ekki í herinn nema hvað ég spurði hann: " er det derfor du blev kastreret?" Ég ætlaði að spyrja "var það þess vegna sem þú varst undanþeginn?" en spurði aumingja manninn "var það þess vegna sem þú varst geltur?". Greyið strákurinn - ég er viss um að enn í dag lítur hann Íslendinga ekki réttum augum.

Baldur Freyr á líka ansi góða frasa þessa dagana. Hann er með heilu leikritin upp úr Emil og Línu. Sat hér á mottunni við útidyrnar einn daginn, rýkur upp og segir: "ég ætla rústa þessari smíðaskemmu í eitt skipti fyrir öll og koma aldrei hingað framar" og annað úr Línu: "þú skammast sýknt og heilagt". Einu sinni var það algerlega málið að fara út í glugga og öskra: "Druuuulllluuuuhaali". Mömmuhjartað bráðnar alveg þegar hann segir: "þú ert fallegust í öllum heimi" og "ég elska þig". Svo á hann frábær moment, eins og t.d. í fyrrakvöld þegar hann vildi ekki fara að sofa. Þegar ég kom úr sturtu og kom í inn í svefnherbergi þá lá hann í rúminu okkur og vildi fá að sofna þar. Við ræddum það aðeins, hann fékk leyfi en svo sagði ég við hann að hann ætti nú auðvitað bara að sofa í sínu rúmi og þá sagði hann mjög alvarlegur: "mamma, stundum þarf maður bara að sofa annars staðar, það er bara svoleiðis". Ég verð svo að passa mig hvorki að hlæja né brosa þegar svona kemur, því að hann er svo innilega að meina þetta.

Ég fékk bæjarleyfi í gærkvöldi og fór til Köben í Tívoli. Lis Sörensen var með tónleika og ekki veldur hún vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Anne Linnet er svo með tónleika í nóvember og þangað er stefna tekin. Ég hlakka til.

Jæja strákarnir mínir eru komnir heim og því tími til komin að fá sér nýbakaða hjónabandssælu og kaffibolla - namminamm !

Bara svona til þess að láta ykkur vita þá er 25 stiga hiti og við á leiðinni til Lyngby til þess að njóta góða veðursins.

Ástarkveðjur til ykkar, hvar sem þið eruð í heiminum.
Hanna

föstudagur, 23. september 2005

Good News For People Who Love Bad News

{mosimage}

Bara verð ekki þreyttur á að hlusta á þessa snillinga, er búinn að vera með þessa nýjustu afurð í spilaranum síðan hún kom barasta út. Eru svoldið sér á báti með svo dáleiðandi hrynjanda og kraft. Það verður að segjast bara eins og er. Ekki spillti fyrir að hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sjá þá á Gauki á Stöng 7. mars 2001, komnir 'ferskir' beint af Hróarskeldunni. Þeir voru frábærir þar.

Þetta er samt fyrsta skífan sem kemst upp á yfirborðið og fer í almenna spilun í útvarpi, amk skv minni vitund en þeir sem hafa ekki ennþá uppgötvað töfra MM er bent á að hella sér í allan listann frá a-ö.

útg: apríl 2004


Aw c'mon / No you c'mon

{mosimage}

Tók fyrir þessar skífur og spólaði yfir á MP3 spilarann til að dúlla í hljóðhimnunum á leiðinni í vinnunna á grísastígnum á hjólinu. Skemmtileg stemningstónlist, missa sig stundum yfir í Neu og Tortoise úr lágstemmda kántrý-jassinum. Alveg ágætt bara, verður svolítið einsleitt reyndar.

Aw c'mon / No you c'mon , útg: feb 2004

 


Indjánasumar

Húsbóndinn sagði:

Fallegt yfir að líta við Furesöen

Indjánasumar kalla Danirnir það þegar það kemur svona síðsumarsblíða. Hér hefur verið ljúfasta sumarveður nánast síðan ég kom fyrir 6 vikum síðan. Sól og um 20 stig í dag, það er nú eitthvað annað en snjófölin á Garðarshólmanum góða.


Baldur er kominn með pláss á leikskólanum Engevang Syd í Nærum (ca 2 km) frá og með 3. október. Þar var enginn biðlisti, heldur bara laus pláss. Annað en fyrir Ástu Lísu sem er nr 13-20 á nokkrum biðlistum. Það mun skýrast á næstu 10 vikum eða svo.

Við fórum og keyptum annan barnastól á hjólin fyrir Ástu Lísu ásamt hjálmum á stelpurnar tvær. Þá ætti öll fjölskyldan geta farið út að hjóla saman þegar viðu munum skella stólnum á á morgun. Gott ráð fyrir þá sem ætla að versla sér hjól og hjólavörur í Nærum, þá er mun ódýrara að versla hjá óreiðumeisturunum NÆRUM CYKLER ApS heldur en hjá Suhr Cykler I/S . Það hefur margsannað sig.

Ég bíð enn langeygður eftir sjúkrasamlagsskírteininu mínu því það er einnig brúkað sem bókasafnsskírteini hér í héraði. Sölleröd kommúnan er búinað taka sér meira en mánuð í þetta. Lofuðu Hönnu að það færi alvega að bresta á (hafa ekki þorað að viðurkenna að þeir hafa klúðrað þessu) en viðurkenndu þó að eitthvað hefði farið forgörðum í hennar tilfelli og krakkanna. Annars fær stjórnsýslan hér í Sölleröd nokkuð há einkun hjá mér fyrir aðgengi og skilvirkni, að flestu leyti.

fimmtudagur, 15. september 2005

Fjölskyldan sameinuð

Jæja, þá gerðist sá stórviðburður í kvöld að nettenging er komin í gagnið. Húsfreyjan sá um að rumpa af eilífðaruppsetningu TDC. Og það tókst í fyrsta, ótrúlegt. Hefði að sjálfsögðu ekki gerst hefði ég setið við lyklaborðið. Það votta þeir sem mig þekkja, enda er t.d. gsm síminn minn nýi eitthvað orðinn skrýtinn.


En hvað hefur gerst frá því ég skaut inn fréttum hér af innflutingi? Í stuttu máli: heilmargt. Hanna, krakkarnir og Anja komu hér til Danmerkur 4. sept og sótti ég þau á bílaleigubílnum sem við tókum í viku. Þá keyptum við okkur sófa, sófaborð, skenk ofl til að fylla upp í tómið á brakandi stofugólfinu. Áttum saman ágætis viku með Önju sem fékk að vígja svefnsófann sama kvöld og Jalla-Jallandi flutningsmennirnir komu með gripinn með sér. Anja fór svo heim þann 11. sept.

Við höfum verið að þreifa fyrir okkur með leikskóla og dagvistun enda Baldur orðinn til í að fá nýja leikfélaga. Við Hanna og Ásta Lísa erum svo sem ágæt, en ekki til lengdar sem leikfélagar... Tekin var rispa á þessum málum í dag og Hanna skoðaði 2 staði til viðbótar við þá 2 sem áður höfðu verið athugaðir. Umsóknir voru sendar inn og fingur krossaðir. Biðtími fyrir Ástu Lísu getur verið a.m.k. 10 vikur, vonandi eitthvað styttra fyrir Baldur.

Síðastliðinn sunnudag komu margir góðir gestir til okkar í Sölleröd. Fyrst komu Dagný, Hlynur og Kolbeinn Hrafn ásamt Petu. Við sátum úti í góða veðrinu (sem virðist ekki ætla að taka nokkurn enda...) dágóða stund seinnipartinn þar til leið að seinni hálfleik. Þá komu Jónas og stór-fjölskyldan rúntandi frá Hróaskeldu og varð samkoman enn gleðilegri fyrir vikið. Sérréttur hússins kom sterkur inn og stóðust fáir galdra Hjónabandssælurnar sem nýbökuð blikkaði gestina og freistaði ótvírætt.

Jæja, meiri myndir koma seinna og nú verður vefmyndavélin tengd. Þá förum við nú að verða aðeins sýnilegri alheiminum.