fimmtudagur, 27. apríl 2006

Svefnlaus nótt

Við mæðgurnar erum geðbólgnar og urrum hvor í takt við aðra. Hún situr nú sem prinsessa í stólnum sínum og borðar havrefras með rísmjólk - og kallar á meira. Augnablik!

Þessi blessaða vírussýking er ekki að leggjast neitt voða vel í dömuna og er henni lítt svefnsamt á nóttunni. Verstar eru blöðrurnar í munninum. Ég vona samt að við höfum náð hápunktinum í nótt og að héðan í frá fari þetta í rétt átt. Finnst komið nóg.

Ég er hreinlega að kafna úr löngun til þess að ferðast á nýjar slóðir og e-ð heilla fyrrum austantjaldslöndin mig, þá helst þau sem enn eru lítt könnuð af ferðamönnum.

En ætli ég þurfi ekki að bíða um sinn.

Sáum fyrsta þáttinn um Eurovisionlögin í gær og þvílík snilld. Ég mæli svo með þessum þáttum, held að þeir séu sýndir á Rúv á laugardagskvöldum.

Daman biður um athygli, heyrumst síðar.
Kys og knus
Hanna


þriðjudagur, 25. apríl 2006

Sól sól skín á mig

Sumarstelpa sagði:

Skrýtið hvað er alltaf jafnerfitt að byrja að skrifa á ný eftir að hlé hefur verið gert. Finnst eins og ég þurfi að segja ykkur svo mikið, en svo eins og ég hafi ekki neitt áhugavert að segja.


Það er e-ð eirðarleysi að hrjá mig, sem lýsir sér einmitt best í því að ég dríf mig ekki í að gera bara hlutina. Þessa litlu hluti sem í raun þarf svo lítið til. En ég vona að það lagist nú allt. Ásta Lísa greyið er veik enn eina ferðina og nú er um að ræða hånd-, fod- og mundsygdom. Þetta er vírussýking og ekkert að gera annað en að bíða þetta af sér. Við vonum að þessu ljúki fljótt.

Hér er hreinlega íslenskt sumarveður en Danirnir kalla þetta vor. Hér er 17 stiga hiti og sól skín innan um hin örfáu ský sem vappa um himininn. Dásamlegt alveg!

Það er ýmislegt búið að vera á döfunni hjá okkur fjölskyldunni. Finnur sagði ykkur stuttlega frá sumarbústaðarferðinni og varð hún þess valdandi að við munum vonandi verða komin á bíl fyrr en síðar. Sama dag og við komum heim úr sumarhúsinu þá mætti hin sænska Maria á svæðið með ektamanni sínum Kjeld og þau voru hjá okkur yfir páskana. Það var rosa gaman að hitta hana á ný og við áttum góðar stundir hér saman.

Um síðustu helgi fórum við í æðislegu veðri í Tivoli og áttum mjög góðan dag. Ásta Lísa er orðin það stór að nú gerir ekkert til þó að hún missi úr daglúr af og til og það gerði hún þennan dag. Það var allt of mikið að gera til þess að leggja sig. Krakkarnir nutu sín til hins ýtrasta og svei mér þá ef við Finnur gerðum það ekki bara líka. Á sunnudaginn var farið til Holte á fyrsta markaðsdag ársins og gerð ágætis kaup. Síðar um daginn fórum við í góðan hjólatúr og var það sá fyrsti á nýja/gamla hjólinu mínu. Ég keypti notað hjól af konu sem býr hér nálægt þar sem gamla hjólið mitt er fast í 3. gír og ef ég hefði haldið áfram á því hefði ég endað með ónýt hné og læri sem ekki hefðu passað við líkamann.

Krakkarnir eru alltaf að verða "mere dansk". Ásta Lísa fer ekki á "ha"-tímabilið heldur "hvad er det"-tímabilið og er spurt látlaust. Hún segir líka "dygtig" og "farvel" ef við skiljum hana rétt. Hún er líka með e-ð sokkaæði því að hún fer hér um allt með sokk á annarri hönd. Nú er væntanlega stutt í að hún sleppi sér alveg og fari formlega að ganga. Það er ekki alltaf auðvelt fyrir unga dömu að vilja meira en hún getur ;-) Það er svolítið skondið með Baldur Frey því það er eins og hann hafi dottið í dönskugírinn við það að fara í tíu daga frí yfir páskana. Nú talar hann svaka fína dönsku og leikskólakennararnir eru alveg yfir sig hissa. Hann kemur okkur svo á óvart, því orðaforðinn er svo góður og hann er sko ekki feiminn við að tjá sig við hina og þessa.

Hundahræðslan er enn sterk í honum og veldur okkur vandræðum. Við óskum enn eftir ráðgjöf ef þið lumið á einhverjum slíkum. Svo virðist sem flugna- og fiðrildahræðsla sé líka að hrjá litla kallinn okkar en við vonum að smæð þeirra muni verða til þess að hann komist yfir það. Það er því bara að vona að mygget (mý) láti hann í friði í sumar.

Jæja hvað á ég að segja ykkur meira......

Jú, ég var að fá bréf í morgun og er boðuð í viðtal vegna námsins, sem ég var að sækja um í. Ef þið viljið skoða heimasíðuna þá er slóðin www.skolenforpsykomotorik.dk. Ég vona að ég komist inn.....

Jæja ég læt þetta gott heita í bili og vona að ekki líði á löngu þar til ég skrifi hér inn á ný.
Ástarkveðjur til ykkar allra
Hanna

mánudagur, 17. apríl 2006

Hva, ekkert að frétta?

Ójú jú, þrátt fyrir þránaða uppfærslutíðni frétta úr Danaveldi hefur ýmislegt verið að gerast hér hjá okkur. Laus úr viku viðjum ískápaleysis, sumarbústaðarferð, svíaheimsókn, sumarkoma ofl. Byrjum á sumarbústaðinum....


Í bústað
Eins og áður hefur verið nefnt þá var búið að panta vikudvöl (8-14 apríl) í sumarbústað upp í Dronningmölle í samfloti við Hjört, Dagný og Kolbein Hrafn. Litlu mátti þó muna fáeinum dögum fyrir brottför að úr yrði fýluferð þar sem mislæsi á greiðsludagsetningu gíróseðils hafði kostað okkur pöntunina og redda varð nýjum bústað 1-2 og 3! Það hafðist nú og hægt var að fara að pakka niður á sem allra naumasta hátt og mögulegt var þar sem til stóð að fara með lest og strætóum. Okkur var bjargað sem fyrr af Nelly nágranna. Hún er svo stórkostleg að bjóðast til að keyra okkur upp eftir og hló nú bara þegar hún sá farangurinn okkar. "Hvernig ætluðuð þið svo að komast með þetta í lest?"


Tetrisþjálfun mín kom sér vel þegar ég púslaði töskum, barnavögnum, bílstólum, matarpokum og okkur 5 inn í litlu Toyotuna hennar Nelly. En það hafðist og við vorum bara rúman hálftíma uppeftir en á þeim tíma hafði Ásta Lísa klárað geðvonskulagerinn og annað töskuhjólið náð að nudda sér langleiðina inn beinvef hægri sköflungsins á mér. En við römbuðum á "Lykkehuset" sem leit svona ljómandi huggulega út eins og sjá má af myndinn hér að ofan.

Slyddu drifin skrefin
Þá var kominn tími til að fara í búð og ná í Hjört og Co. Við hittumst við "búðina" og hófum svaðilförina heim með farangurinn og vörurnar þar sem sýnishorn verðurkerfanna dundu á okkur: rok, rigning, slydda, haglél, þrumur o.s.frv. Þetta var ansi langt "korters labb" þar sem við lentum í smá blindgötum og höfðum ekki enn bestað bestu leið eftir leynistígum. En öll komumst við rök og kát í bústaðinn og var hátíðin þar með sett.

Vikan sem leið
Í stuttu máli var þetta mjög skemmtileg vika að velflestu leyti þótt allt færi ekki samkvæmt sólbökuðum væntingum um veður og heilsufar. Ásta Lísa veiktist strax á sunnudegi með hitavellu og magapest. Var hún því innandyra að mestu fram á föstudaginn langa. Veðrið fór nú að sýna á sér betri hliðar á þriðjudeginum en þá bættist ég í hóp veikindapésanna og gat varla borðað neitt af viti alla vikuna með hita og vitleysu. Er það nú tímasetning! Borðaði fyrstu máltíðina af viti í gærkvöldi.

Þetta var nú samt mjög gaman og strákarnir léku sér mikið saman sem og við fullorðna fólkið sem áttum skemmtilegar kvöldstundir með spjalli, gúmmulaði, popppunktum, bíósýningum ofl. Það var í öllu falli ákveðið að þetta yrði svo sannarlega endurtekið að hausti.

Engillinn Nelly kom svo og sótti okkur á föstudeginum og þá var sko góða veðrið komið sem hefur svo haldist um páskana. Dásamlega milt vorveður með fuglasöng og sólskini. Nú er sumarið loksins að detta inn um lúguna hjá okkur!

föstudagur, 14. apríl 2006

mánudagur, 3. apríl 2006

Bandaríkjaför - Dagur 1

Ameríkufarinn sagði:
Fyrsti dagurinn á námskeiðinu í nýju landi í nýju tímabelti. Og það er vor!

Dásamlegt vor í lofti og mikill munur að sjá græn lauf og stika um í hitastigi yfir frostmarki. Morgunmaturinn í hótelmóttökunni var með nóg af gúmmulaðinu og brasi en líka var hægt að fá sér jógúrt, múslí og hafragraut. Merkilegt nokk enginn ostur né kjötálegg.

Formsatriðin
Við komumst nokkurn vegin klakklaust til höfuðstöðva Microsoft í Redmond. Mættum inn í byggingu 16 en fengum þau skilaboð að við þyrftum að virkja aðgangskort okkar í bílakjallara byggingar 8 sem og skrá bílinn okkar á bílastæðalistann til að hann yrði ekki dreginn burt. Það var nú hálfgert greindarpróf að fylgja hvítu pílunum á malbiksgólfinu inn í þröngu kytruna með aðgangskortavinnslunni.

Þegar búið var að redda formatriðunum fundum við kennslustofuna og fengum þar möguleikann á að úða í okkur glassúr og sykurhúðuðum kleinuhringjum. Starbucks gæðakaffi á könnunni og verður að segjast að það er Microsoft til mikils hróss að hafa eingöngu gott kaffi í gangi, ábyggilega til að fyrirbyggja magasár og almenna starfsóánægju.

Námskeiðið hefst
Námskeiðið hófst þegar við villuráfandi sauðirnir fimm frá Danmörku (ég, Klaus, Djorjde, Nuria og Björn) mættum loksins á svæðið. Arthur var þegar mættur, enda kunnugur á þessum slóðum. Hann Joe frá SecurityInnovative sá um kennsluna og ferst það bara nokkuð vel úr hendi. Fórum yfir efni bókarinnar.

Hádegismaturinn var í kaffiteríunni sem er í raun markaðstorg þar sem nokkrir matsölustaðir bjóða mismunandi tegundir matar til sölu s.s. Hamborgaragrill, tex-mex, pizzur, samlokubar o.s.frv. Það þarf að kaupa matinn, en drykkir eru fríir (fyrir utan kaffidrykki af Starbucks). Skellti mér á eitthvað Texas Tijuna meatsauce fansí-smansí nafn en átti í erfiðleikum með að finna kjötið í sósunni. Alveg við og undir meðallagi gumsið það.

Smá verslun og risa máltíð
Eftir námskeiðinu lauk, skiluðum við tölvukostinum upp á hótel og fórum niður á Crossroads í smá tilraun til verslunnar. Kvöldmaturinn á hótelinu var ekki upp á marga fiska: kjúklingaleggir og -vængir ásamt smá grænmeti. Við ákváðum þá að reyna að finna eitthvað að borða í þessum Crossroads verslunarkjarna. Þar var ekki mikið úrval af veitingastöðum, eiginlega bara skyndibitar en þarna var líka raftækaverslun þannig ég gat keypt mér 1 stk útværan harða disk. Allt er stórt í Bandaríkjunum segir sagan og er það alveg rétt. Hátt til lofts, vítt til veggja og ótrúlegustu búðir og þjónusta eins og til dæmis keramikmálunarbúðin þar sem fóls situr til borðs og málar flísar og annað keramik.

Þar sem ekki fannst neitt ætilegt í Crossroads ákváðum við að prófa Mexíkanska veitingastaðinn Azteca sem er rétt hjá hótelinu okkar. Já, skammtarnir eru risavaxnir. Stór bjór bara fyrir handsterka einstaklinga. Maturinn, vá. Alveg helmingi of stór. Klaus sagði að við værum etv kallaðir "svagspisers" af heimamönnum. Ég kláraði þó mínar 2 enchiladas en Klaus og Djordje gátu varla komist hálfa leið. Heppnir að hafa ekki pantað "big dishes" með alvöru skammtastærðum!