laugardagur, 28. janúar 2006

Jan 2006, Baldur Freyr

DSCF5959 
transpixel

Stór strákur fær stórt rúm, er á kafi í flugvélum og byssum.


 • Flugvéladellan er lífseig. Allt verður að flugvélum, heimasmíðaða legóflugvélin samt alltaf vinsælust. Alltaf sama módelið smíðað eftir kúnstarinnar reglum þrátt fyrir að burðarvirkið sé frekar lasburða. En allar tilraunir til að styrkja flugvélaskrokkinn mæta hörðum mótmælum, þrátt fyrir að betrum bætur myndu koma í veg fyrir það að flugvélin væri alltaf að detta í sundur (sérstaklega í baðferðunum)
 • Pappírsskutlur verða nokkuð vinsælt innlegg í flugvéladelluna en háar kröfur á útfærslur og módel gera foreldrum erfitt fyrir og leita þarf á náðir internetsins í leit að uppskriftum.
 • Baðferðirnar styttast aðeins, eru núna bara svona rúmur hálftími enda er litla systir með fyrstu 10 mínúturnar eða svo.
 • Siðmenntun nær hærra stigi á salerninu þegar beðið er um bók til að lesa á meðan tefla á við páfann. Ekki barnabók, heldur svona bók með stöfum.
 • Stóri strákurinn fær nýtt stórt rúm sem var orðið tímabært. Rosalega stoltur ungur maður fer að sofa í rúminu með bláum tjaldhimni sem er rosalega spennandi. Í kjölfarið fær hann stærri sæng með mótorhjólaköllum á sem er ekki síður spennandi og öllum tilraunum til að setja sængurver utan um sængina er hafnað.
 • Byssuæði gengur í garð. Allt getur verið byssa og klipptar eru út nokkrar úr pappa sem falla vel í kramið. Skjóta allt og alla eins og fylgir þessum aldri.
 • Danskan kemur alltaf meira og meira. Frasar blandast inn í málið heima fyrir.
 • Það má ekki segja "dommi". Orðið dommi er fúkyrði sem kemur frá leikskólanum og er sennilega einhver afleiða af vera "dum". Foreldrarnir þurfa ítrekað að þetta orð sé ekki "í boði" og er Baldur fullkomlega meðvitaður um það. Enda segir hann ítrekað "það má ekki segja dommi" og getur þá fengið að segja orðið um leið. Sniðugt, ekki satt?

Jan 2006, Ásta Lísa

DSCF5998 
transpixel

Ásta fékk hlaupabólu, tekur til við að príla upp í stiga ofl, staulast aðeins ef hvatning er fyrir hendi.


 • Unga konan er hálfgerð óhemja í bíl. Bíltúr á nýársdag var þokkaleg þolraun. Það varð að snúa við þegar mútur kexkökurnar voru búnar. Kannski ágætt að vera bara bíllaus?
 • Fer í pensilínofnæmisrannsókn og úr því fæst skorið að ungfrúin er ekki með ofnæmi fyrir þessu sveppagumsi.
 • Hlaupabólan skellur á að kvöldi 18. janúar þegar þrjár litlar bólur sjást á hægra herðarblaðinu. Daginn eftir er þetta orðið alveg ljóst þegar bólurnar margfaldast í fjölda sínum og dreifa sér um allt. Meira að sega á tunguna, sem er ekki góður staður. Svo vondur að fúlsað er við snuddum, þá er nú mikið sagt. Hæsi og hor fylgja í kjölfarið en þetta gengur yfir á rúmlega viku.
 • Kvenkynið og nafnið skila algerlega af sér símafíkninni en það er mikið sport að fá símann frá pabba, skoppa um gólfið á rassinum og blaðra hástöfum.
 • Sófapríl kemst í tísku. Gefnar skýrar skipanir um að taka sessurnar úr sófanum svo hægt sé að skríða upp og niður. Það er svo gaman.
 • Næsta stig er að læra að fara niður tröppur og það er æft af miklum móð í lok mánaðarins. Daman skríður aftur á bak niður tröppurnar tvær upp á fyrsta stigapall.
 • Ein og óstudd skellti litla konan sér upp alla leið á 2. hæð þegar hún slapp augnablik óséð eitt annríkis föstudagskvöldið. Hún skreið alla leið upp, með brauðbollu í hendinni! foreldrarnir beittu hjartahnoði á hvort annað til að ná hjartslættinum í gang aftur.
 • Aðeins farin að láta leiða sig um og sýnir tilburði til að labba ef hvatningin er fyrir hendi. Er til í að ganga með ef farið er upp stigann eða þegar farið er í fótboltaleik.
 • Verður stubbaaðdáandi, en er minna hrifin af leiknu innskotunum sem koma út úr maganum á litglöðu skjábelgjunum. Vill bara hafa litadýrðina á skjánum með djúpum samræðum fjórmenninganna.
 • Uppgötvar tunguna og skellir henni inn og út um munninn með reglulegu millibili. Er þó ekki komin með mikinn orðaforða en gerir sig vel skiljanlega með "ahhhm" og kinkar kolli þegar svarið er já en "ehhhei" og hristir höfuðið þegar við erum eitthvað á villigötum.

sunnudagur, 22. janúar 2006

Í essinu

Hr S sagði:

Sóttkví, snjór, samgöngufangar og stigahlaup...


Sóttkví
Við höfum verið í sóttkví hér í Sölleröd síðan á miðvikudagskvöld, en þá varð ljóst að Ásta Lísa væri komin með hlaupabóluna. Bólunum fjölgar jafnt og þétt og þær planta sér út um allt, meira að segja á tungunni hjá greyið Ástu Lísu. Það getur ekki bara verið annað en óþægilegt, enda er það ákveðið merki um að svo sé þegar daman fussar og sveiar á snuddurnar. Algerlega fáheyrt. Og svo er horið alltaf að aukast og hálsbólgan komin líka. Greinilega er þónokkur vanlíðan því það er farið að hafa áhrif á svefninn hjá Ástu og er þá mikið sagt. Í nótt var hún að vaka svolítið og voða ómöguleg en það er mjög óvanalegt að hún sofi ekki bara út í eitt. Vonandi fer nú varicella-zoster veiran að hopa og að við getum aflétt sóttkvínni. Það verður sennilega þó ekki fyrr en í lok næstu viku.

Snjór
Það hefur snjóað nokkuð frá því hlaupabólusóttkvíin skall á. Núna er bara alvöru vetur, 15 cm snjór og frostið var um 7 stig í morgun. Snjóþotan kemur sér nú heldur betur vel og það var sko farið í gær og fjárfest í góðum kuldagalla á Baldur Frey. Við prufukeyrðum hann svo í gær þegar við feðgarnir fórum hérna út á snævihulinn rólóinn að leika. Baldur velti sér um allt snjónum og fann ekki fyrir neinum kulda á meðan ég var alveg freðinn á tám og fingrum. "Far þú bara inn að hlýja þér, ég bíð hér úti á meðan" sagði meistarinn. Sem ég og gerði; ég fór í ullarsokka og annað par af vettlingum. Þá gátum við verið svolítið lengur úti og tekið venjulega hringinn yfir brúna og framhjá ruslasvæðinu.

Samgöngufangar
Hann Sandeep kollegi minn er einn af mörgum samgönguföngum DSB og HUR sem daglega er haldið í gíslingu af seinkunum og afboðunum áætlanna lesta og strætóa. Þetta er alveg magnað hvað þetta er alltaf úr skorðum. Sandeep hefur bara einu sinni lukkast að komast í vinnuna fyrir kl 9 frá áramótum, þrátt fyrir að leggja vel tímalega af stað. Og svo er nú ekki eins og hann þurfi að komast langa leið, bara frá Amager. Ég er nú bara nokkuð sáttur við að þurfa bara að skrönglast í leið 193-195!

Stigahlaup
Hún Ásta Lísa var ekki slappari en svo að hún skellti sér í stigahlaup á föstudaginn. Í hvert skipti sem hún sér að neðra hliðið er opið í stiganum rýkur hún af stað og freistar þess að fara að príla upp. Eitt augnablik litum við af henni og gleymdum að loka hliðinu. Svo vitum við ekki fyrr en við heyrum að hliði er skellt. Úps, er hún að fara af stað upp. Nei, gott betur en það. Hún var að skella hliðinu uppi og var þá búin að klöngrast upp ein og óséð, með brauðbollu í hendinni! Það þarf varla að taka fram að hjartahnoði þurfti að beita til að fá foreldrahjörtun í gang á ný...

miðvikudagur, 18. janúar 2006

iCon Steve Jobs : The Greatest Second Act in the History of Business

iCon, Jeffrey S. Young, William L. Simon "{mosimage}

Magnað ævihlaup Steve Jobs, stofnanda Apple. Fékk þessa senda yfir atlantshafið úr Microsoft bókasafninu. Algerlega gripinn á fyrstu síðu og það verður erfitt að leggja þessa frá sér


Þessi var aldeilis stórgóð. Mæli eindregið með henni, magnað hvað Jobs er greinilega ákveðinn, ósvífinn og hrífandi/drífandi maður. Svífst einskins og fer þangað sem hann ætlar sér. Fyrri hlutin bókarinnar fannst mér þó betri þar sem það virtist sem höfundur hefði mun meiri "innri" þekkingu á umfjöllunarefninu og frásögnin lifandi og skemmti.eg. En þegar komið var út í Disney/Pixar tímabilið fannst mér sem ég væri að lesa meiri svona niðurstöðu heimildavinnu. Engu að síður dúndur bók og mæli með henni.

Lokið í Jan/Feb 2006

Sister Alice

Sister Alice, Robert Reed.

Vísindaskáldsaga. Sú eina sem fannst í uppflettingum í bókasafninu í Holte. Tók hana að láni í október 2005. Fer hægt af stað en lofar svo sem ágætu.


Þetta var nú alveg ágætis bók. En lestrarstundirnar eru ekki margar og því miðaði mér fremur hægt áfram og þurfti að framlengja leigunni. Loksins þegar hlutir fóru að gerast og stefna í afhjúpun leyndardóma og allsherjaruppgjör, þá þurfti ég að skila henni!

Ekki eins safarík og heildstæð sköpun og bækur Asimov, en ágætis hugarheimur hjá Reed engu að síður. Truflaði mig aðeins þessi sambræðingur af hinu forna og svo ofur-framtíðar hugmyndir um sköpun heima og hæfileika.

Gömul reynsla og ný

Flugvélavirkinn sagði:

Hún ætlar að verða langvinn flugdellan hjá Baldri Frey. Nú hefur allt verið undirlagt í flugvélum og flugvélaleikjum síðan traktoratímabilið lagðist af í haust. Hið nýjasta er að búa til pappírsskutlur og þá kemur sér ágætlega að hafa búið til nokkrar slíkar um ævina, en kröfurnar eru nokkru meiri en það....


Já nú er beðið um hin allra mögulegustu útfærslur og reyndist mér nokkuð erfitt í gærkvöldi að verða við óskum um s.k. "svölu" týpu af flugvél. Lukkulega gat ég fundið mjög góða lesningu á skutluvef Alex þar sem hinar ýmsustu útfærslur er að finna. Það ætti að duga um sinn.

Síðastliðinn laugardag komu Jónas, Áslaug og Margrét Sól í heimsókn til okkar hér í Sölleröd. Það var svo ljómandi skemmtileg stund sem við áttum og ekki spillti fyrir að núverandi og fyrrverandi nágranni okkar hún Nellý drakk með okkur kaffið.

Veðurfréttir: hér hangir hitastigið öðru hverju megin við núllið og hefur verið þannig það sem af er af árinu. En það birtir óðum með hverjum deginum og við hlökkum mikið til að strípalingast á ströndinni í Vedbæk í sumar.

föstudagur, 6. janúar 2006

Blessað barnalánið

Móðirin sagði:

Enn ein klósettsagan. Baldur Freyr situr á klósettinu, búin að vera svaka duglegur og ég hrósa honum í hástert fyrir árangurinn. Þá segir hann: "mamma, ég er sterkur Batman að kúka".

Og á meðan burstar Ásta þvottavélina með tannburstanum sínum.

Elsku börn!

 


mánudagur, 2. janúar 2006

Risaskammtur af myndum

Ég var að setja inn eins og 200 stk af myndum frá vetrinum, jólum og áramótum. Við fengum marga góða gestina og vænan skammt af vetri milli jóla og nýárs. Sjón er sögu ríkari...

transpixel
transpixelDSCF5824