Fara í aðalinnihald

Í essinu

Hr S sagði:

Sóttkví, snjór, samgöngufangar og stigahlaup...


Sóttkví
Við höfum verið í sóttkví hér í Sölleröd síðan á miðvikudagskvöld, en þá varð ljóst að Ásta Lísa væri komin með hlaupabóluna. Bólunum fjölgar jafnt og þétt og þær planta sér út um allt, meira að segja á tungunni hjá greyið Ástu Lísu. Það getur ekki bara verið annað en óþægilegt, enda er það ákveðið merki um að svo sé þegar daman fussar og sveiar á snuddurnar. Algerlega fáheyrt. Og svo er horið alltaf að aukast og hálsbólgan komin líka. Greinilega er þónokkur vanlíðan því það er farið að hafa áhrif á svefninn hjá Ástu og er þá mikið sagt. Í nótt var hún að vaka svolítið og voða ómöguleg en það er mjög óvanalegt að hún sofi ekki bara út í eitt. Vonandi fer nú varicella-zoster veiran að hopa og að við getum aflétt sóttkvínni. Það verður sennilega þó ekki fyrr en í lok næstu viku.

Snjór
Það hefur snjóað nokkuð frá því hlaupabólusóttkvíin skall á. Núna er bara alvöru vetur, 15 cm snjór og frostið var um 7 stig í morgun. Snjóþotan kemur sér nú heldur betur vel og það var sko farið í gær og fjárfest í góðum kuldagalla á Baldur Frey. Við prufukeyrðum hann svo í gær þegar við feðgarnir fórum hérna út á snævihulinn rólóinn að leika. Baldur velti sér um allt snjónum og fann ekki fyrir neinum kulda á meðan ég var alveg freðinn á tám og fingrum. "Far þú bara inn að hlýja þér, ég bíð hér úti á meðan" sagði meistarinn. Sem ég og gerði; ég fór í ullarsokka og annað par af vettlingum. Þá gátum við verið svolítið lengur úti og tekið venjulega hringinn yfir brúna og framhjá ruslasvæðinu.

Samgöngufangar
Hann Sandeep kollegi minn er einn af mörgum samgönguföngum DSB og HUR sem daglega er haldið í gíslingu af seinkunum og afboðunum áætlanna lesta og strætóa. Þetta er alveg magnað hvað þetta er alltaf úr skorðum. Sandeep hefur bara einu sinni lukkast að komast í vinnuna fyrir kl 9 frá áramótum, þrátt fyrir að leggja vel tímalega af stað. Og svo er nú ekki eins og hann þurfi að komast langa leið, bara frá Amager. Ég er nú bara nokkuð sáttur við að þurfa bara að skrönglast í leið 193-195!

Stigahlaup
Hún Ásta Lísa var ekki slappari en svo að hún skellti sér í stigahlaup á föstudaginn. Í hvert skipti sem hún sér að neðra hliðið er opið í stiganum rýkur hún af stað og freistar þess að fara að príla upp. Eitt augnablik litum við af henni og gleymdum að loka hliðinu. Svo vitum við ekki fyrr en við heyrum að hliði er skellt. Úps, er hún að fara af stað upp. Nei, gott betur en það. Hún var að skella hliðinu uppi og var þá búin að klöngrast upp ein og óséð, með brauðbollu í hendinni! Það þarf varla að taka fram að hjartahnoði þurfti að beita til að fá foreldrahjörtun í gang á ný...

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Úps!

Svið: Á leið heim í lestinni sunnudagskvöldið 4. janúar Persónur: fjölskyldan situr með 4 stk ferðatöskur, nýkomin úr flugi frá 2 viknar fríi á Íslandi Ásta Lísa (ÁL): Pabbi, ég þarf að pissa Pabbinn (ég): Ok, klósettið er bara hérna rétt hinu megin við hornið. Taktu í hendina á mér, lestin vaggar svolítið og við gætum dottið. Hérna er þetta. Prófaðu að ýta á takkan, þá opnast hurðin (ÁL ýtir á takkann og við blasir miðaldra feitlaginn maður sem situr á salerninu "í hægðum sínum") Ég: Úps, fyrirgefðu. Vissi ekki að það væri ólæst. (ýti aftur á takkan og loka hurðinni aftur. Það kemur ekki í veg fyrir að 2,27 rúmmetrar af geigvænlega fúlu þarmalofti sleppa fram í ganginn. Við röltum til baka og setjumst í sætin sposk á svip. Allir í vagninum skilja og finna lykt af því sem gerðist. Vandræðaleg brosin og allir reyna að láta sem ekkert hafi gerst. Þá kemur hreinskilni barnsins...) ÁL: Það er kúkafýla (sniff sniff, sogið upp í nefið til að vera viss) ÁL: Pabbi, það er vond lykt.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var