föstudagur, 31. mars 2006

Libba & tibba

Þá er komin helgi - aftur. Ótrúlegt hvað tíminn líður og ég enn ekki búin að segja ykkur frá hinu frábæra djammi sem fór fram um síðustu helgi. Takk kærlega Dagný og Peta - þið eruð gullmolar! Alltaf jafngaman að rifja upp Svíþjóðarferðina góðu hér um árið ;-) Það er nú alveg ótrúlegt (eða ekki) hér í borg að það eru Íslendingar út um allt. Djammið um síðustu helgi varð til dæmis eitt allsherjar Íslendingadjamm.

Ísskápadruslan á heimilinu er að gefa upp öndina, rokkar frá -5 og allt upp í +10 og ég er ansi hrædd um að í þessum skrifuðu orðum að hann sé búinn að gefa upp öndina, því að hann hrekkur ekki í gang sama hvað ég slekk og skrúfa. Djö, djö, djö - það er ekki hægt að vera án ísskáps, sérstaklega ekki þegar ein allsherjarbúðarferð er nýyfirstaðin! Ég ætla bara að vona að jarðaberin og vínberin rölti sér ekki út af sjálfsdáðum í mótmælaskyni.

Ég bið fyrir þurru veðri hér um helgina þar sem fyrirhuguð er bæjar- og dýragarðsferð.

Mikið rætt og hugsað um Libbu & tibbu þessa dagana.

Bið fyrir ástarkveðjum til ykkar allra og hlakka til að heyra frá ykkur hér að neðan (því að sjálfsögðu skiljið þið eftir "comment"!!)

Kys og knus
Hanna


mánudagur, 20. mars 2006

Hönnudagur

daman sagði:

Af og til gerist þess þörft að breyta út af rútínunni og það er einmitt það sem ég gerði í dag, alveg meðvitað.

 


Ásta Lísa er sem betur fer orðin hress og fór til dagmömmunnar í dag. Hún er nú reyndar orðin svo hress að hún er farin að öskra af heilmiklum krafti ef ekki farið að vilja hennar. Daman er því hreinlega orðin hin versti vargur og á víst ekki langt að sækja það. Ég minnist myndar af nöfnu hennar þar sem sú var orðin ansi rauð í framan sökum öskurs. Ég vona bara að hún verði jafnskapgóð og nafnan!

Það var frí í leikskólanum hans Baldurs í dag vegna starfsdags og þar sem við vissum þetta með ágætum fyrirvara, þá var Fuz í fríi líka svo að þeir áttu feðgadag saman. Tókst hann með miklum ágætum og farið var í sund og fengið sér fransk hotdog.

Fyrst ÁLF fór til dagmömmunnar gekk það upp í dagbókinni að ég fengi eitt stykki frídag og var hann vel þeginn. Ég var búin að ákveða að fara og kaupa mér föt. Spenningurinn sökum þess var svo mikill að skynsamlegri sundferð var ýtt til hliðar og hafist handa bið búðarhlaup. En það fór nú eins og svo oft áður, því að þegar ákveðið hefur verið að versla föt þá virðast þau bara ekki á hverju strái. Því fór ég úr búð í búð og endaði svo á mínum uppáhaldsstað H&M og verslaði þar lítillega (en ekki nándar nærri eins mikið og hafði ætlað í upphafi).

Ég fór svo að velta því fyrir mér á leiðinni heim hvað þetta er merkilegt með mig og föt. Eins og ég tel mig vita hvar ég stend í lífinu gagnvart sjálfri mér þá verður það sífellt erfiðara fyrir mig að versla föt. Ástæðan er sú að ég fer alltaf í e-a afneitun á fatastíl mínum og reyni alltaf að fara að leita að e-u sem er öðruvísi. Ég enda svo alltaf á því að vita ekki hvað þetta "öðruvísi" er og er svo hundþreytt á þessu búðarrápi að ég hætti bara við allt. Ég þarf að vinna aðeins í þessu skitzo-i í mér og vera bara sátt við það sem mér finnst í alvörunni, ekki satt?

Nú er komið kvöld, ÁLF sofnuð og Fuz að lesa fyrir BFF. Madpakken stendur klár í ísskápnum og nú er komið að því að standa við gefin loforð. Við verðum að fara snemma í rúmið í kvöld........

sunnudagur, 19. mars 2006

Bandaríkjaför - Dagur 0

Ameríkufarinn sagði:

Sunnudagurinn 12. mars rann upp og tími var kominn til að halda af stað til Ameríku. Nelly skutlaði mér niður á Skodsborg og hafði forláta ullarsokka við höndina. Sagði þá vera ómissandi í löngum flugum þar sem gott væri að fara úr skóm og fara í sokkana. Það reyndist svo alveg hárrétt.


Innritun
Ég stóð í hinni óendanlega löngu innritunarröð fyrir ameríkuflug í uþb þrjú korter en þetta hafðist fyrir rest. Ég last svolítið í námskeiðisbókinni á meðan ég silaðist áfram. Við Klaus keyptum okkur nokkra dollara og svo fórum við út í vél. Ég fékk sæti í miðjuröðinni við hliðina á móðir með 2 krakka á leið heim til USA. Greinilega af sænsku bergi brotin því börnin hétu Sven og Elsa en töluðu alveg ekta bandarísku. Og töluðu alveg heilmikið við mig um heima og geima. Flugfreyjur og flugþjónarnir drógu þá ályktun að ég væri pabbinn í þessari fjölskyldunni og ávörpuðu mig alltaf á sænsku.

Flug
Þetta reyndust rúmlega 9 klst flug sem leið bara nokkuð hratt. Kláraði námskeiðisbókina og horfði á tvær fínar bíómyndir: Walk the Line og The Weather man. Sú síðarnefnda kom nú bara nokkuð skemmtilega á óvart. Fyllti út komupappírana fyrir tollayfirvöldin. Svo lentum við í landi hinna frjálsu í Washington Dulles International í 20 stiga mollu. Fórum áleiðis í átt að tengifluginu. Það er ekkert verið að grínast með öryggismálin hér á bæ. Fyrst í gegnum vegabréfaskoðun þar sem fingraförin eru tékkuð og tekin mynd af manni. Næst var að taka töskurnar sínar og rúlla þeim að haugunum við gegnumlýsingarvélarnar. Við sjálfir þurftum líka að láta gegnumlýsa okkur og okkar dót þar sem allir fara úr skóm, úlpum, beltum, taka fartölvur upp úr bakpokum oþh. En þetta hafðist fyrir rest og ég furðaði mig á því að maður skyldi bara ekki týna einhverju í þessum hamagangi.

Næsta flug
Við þrömmuðum langa leið í átt að hliði D10 og hlömmuðum okkur niður þar til að bíða eftir að það kæmi að okkar sætasvæði í boarding. Á meðan helltus fréttirnar yfir okkur í sjónvarpinu þar sem gengdarlaust var verið að telja upp morðmál, nauðganir og aðra glæpi. Ofvaxnir líkamar svifu framhjá klæddir í skræpóttar mussur með Dunkin donuts kassa og aðrar skyndibitaumbúðir. Loksins var komið að okkur og þessi Boeing 757 þótti manni orðið vera hálfgerð rella miðað við SAS Airbus flugvélina. Eins flugtíminn, sem var áætlaður 5,5 klst til Seattle. Þetta eru nú samt sömu flugvélatýpur og notaðar í millilandafluginu milli Íslands. En skemmtikerfið reyndist bilað. Engin bíómynd né músik. Þá kom sér vel að hafa MP3 spilara og lestrarefni. Matur var seldur um borð en úrvalið var orðið mjög takmarkað þarna aftast í vélinni og ég fékk síðasta salatbakkann þar sem allar samlokur voru búnar. Sessunautur minn varð að sætta sig við einhvern snarlkassa sem flugfreyjan reyndi nú að selja henni sem "æðislegur, það er bara allt gott í þessum kassa og bla bla". Ég bauðst til að skipta við hana, en hún sagði þetta vera í lagi. Væri bara svona dagur, hefði verið að koma til USA frá Róm í gær, væri á leið til Seattle í tengiflug til Alaska. Við vorum nokkurn vegin á sama báti hvað varðaði flugþreytu.

Komið til Seattle, upp á hótel að sofa
Töskurnar voru komnar í skottið á bílaleigubílnum okkar um kl 21 að Seattle tíma (3 að nóttu CPH tíma). Engin smádrossía: Cadillac DTS V8. Djordje var smá óstyrkur að keyra svona stóran bíl í Seattle en okkur tókst að komast nokkuð klakklaust að hótelinu. Herbergin reyndust nokkurs konar íbúðir og fékk ég reyndar úthlutað tvílyftu með 2 tvíbreiðum rúmum, 3 sjónvörpum, eldhúsi, 2 baðherbergjum og þar fram eftir götunum. Góð sturta og beint í rúmið, enda kominn sólarhringsvaka í ferðalögum.

miðvikudagur, 15. mars 2006

.... og hana nú

Bjarta sagði:


fuglaflensa
orðfæri
spenna


nú var ég að heyra að fuglaflensan hafi greinst hér í landi og ég veit ekki almennilega hvernig ég á að taka því - eða á ég að taka því á einhvern hátt?? ég bara spyr...

Emma, 6 ára, sagði í hádeginu í dag: "Guilia, tænk hvis hele verden var lavet af is og chokolade!" Mér fannst þetta sætt og út frá þessu spunnust heilmiklar umræður. Mér fannst það hins vegar ekki eins sætt þegar hún sagði við mig síðar í matartímanum: "jeg synes at du skal klappe i" (sem er eins og að segja haltu kjafti á aðeins mildari hátt). Já blessað barnalánið!

Þá er ekki úr vegi að koma með eina klósettsöguna enn af BFF. Kvöld eitt var hann kominn yfir strikið v. þreytu og grét því mikið. Við ræddum ástæðuna fyrir þessu og töluðum um að þegar manni liði illa, segði ljót orð og hagaði sér illa (s. þreytunnar) þá liði mann illa og sérstaklega í hjartanu. En þegar maður væri glaður og brosti þá yrði manni svo hlýtt í hjartanu. Hann sat svo á klósettinu nokkrum dögum síðar og segir þá: "mamma, mér er illt í maganum og mér er illt í hjartanu" og þá sagði ég: "nú er þér líka illt í hjartanu?" og Freysi sagði: "já og þá þarf maður að kúka!". Allt í samhengi??

Finnur er nú staddur í USA og veit því ekki enn af því að ég er búin að bóka sumarhús í vikunni fyrir páska og með okkur eru Dagný, Hjörtur og Kolbeinn Hrafn. Þetta lítur bara svo vel út að ég held að þetta verði bara hreinlega dásamlegt. Ég hlakka svo til!!

Jæja, ég sendi barasta kossa og knús til ykkar allra um allan geim og sérstakar kveðjur fá Hulda og Gústi!

Kys og kram
Hanna

þriðjudagur, 14. mars 2006

Djö.. djö og djö

xxxxxx sagði:

Ég er alveg hundfúl, aldrei skal ég læra af eigin mistökum... djöfull í heitasta....

og btw. ÁLF er veik eina ferðina enn, litli engillinn minn.

Hanna


föstudagur, 10. mars 2006

Langt um liðið...

Tíðindamaðurinn sagði:

Já það fer að slaga í mánuðinn síðan við létum í okkur heyra hérna á vefnum. Það er þó ekki til marks um algert viðburðarleysi, síður en svo.


Kvöld í borginni
Það gekk allt að óskum með samvinnuverkefnið milli okkar Hönnu annars vegar og svo Hjartar og Dagnýar hinsvegar. Laugardaginn 25. febrúar komu þau skötuhjú neðan af Amager með hann Kolbein Hrafn og tóku við búi hér í Sölleröd meðan við skötuhjúin trilluðum okkur niður í bæ til fundar við Jónasi og Áslaugu á hinum stórgóða indverska veitingastað Bindia (www.bindia.dk). Við fengum að sofa í íbúðinni þeirra á Amager á meðan þau voru með gríslingana þrjá. Þetta gekk alveg eins og í lygasögu hjá Dagný og Hirti og heppnaðist kvöldið okkar frábærlega sem og sunnudagsröltið um miðbæinn með ljúffengu kaffistoppi.

Á Íslandi
Tæpri viku síðar fór Hanna af stað með gríslingana tvo til Íslands í fyrsta hluta Íslandsheimsóknarinnar. Ég var heima á meðan að vinna og reyna að finna nýjan takt eftir að hin daglega rútína breyttist við brotthvarf 3/4 heimilisfólksins. En ég þurfti ekki að bíða lengi, því þann 3. mars flaug ég til Íslands og þeyttist inn í stífbókað heimsóknarprógram yfir helgina. Við náðum að fá okkur í gogginn með Hannesi og Guðrúnu á Austur-Indía, hitta Linnetstígsgengið, fara upp á Sólheima og gista og fá ljúffengan Tashin rétt í góðra vina hópi, hádegisverð í Hveragerði með fjölskyldunni og svo hálfgerðan kveðjukvöldverð á sunnudagskvöldinu. Ég flaug svo til Íslands að morgni mánudagsins með hana Ástu Lísu og gekk þetta bara alveg eins og í sögu.

Frá Íslandi og til Bandaríkjanna
Og svo á morgun kemur hún Guðrún systir í heimsókn frá Íslandi til okkar Sölleröd búanna í vikutíma eða svo. Það verður nú gaman að sýna nýju heimkynnin og eiga góðar stundir saman. Ekki næ ég að njóta margra stundanna saman með Guðrúnu þar sem ég er á förum til Bandaríkjanna á sunnudag og verð í burtu í 6 daga. Ég er að fara á námskeið í Redmond á vegum vinnunnar og kem bara til landsins um það bil klukkutíma eftir að Guðrún hefur

Svo fer nú bara vonandi vorið að láta sjá sig og að þessi snjór fari nú að pakka saman og drífa sig eitthvert norður og niður með vini sínum frostinu. Við viljum skríkjandi smáfugla, hjaðnandi tún og vorilm í loftið, takk!