þriðjudagur, 30. ágúst 2011

Áskorunin

Stundum verður maður bara að láta slag standa og oflofa sér. Það gerði ég hér í ágúst byrjun þegar Lalli og Biggi  spurðu hvort ég væri til í að vera 3. maður í liði í 12 tíma fjallahjólakeppni. Ekki hafði ég farið mjög oft út í alvöru túra hér síðasta árið, nokkra einn og með Lalla og þar með upp talið. En stundum á maður bara að kýla á það. Og það gerðum við.

Stuttu síðar í vinnunni spurði Marc mig hvort ég væri maður í að koma um borð í 5 manna lið MS á laugardaginn. Ég sagðist ekki geta það, væri að fara að taka þátt í keppni. Sem reyndist vera sú sama, Atea12. Hvað eruð þið margir? Öh, við erum 3ja manna lið. Núúú, ahah. Þá fékk ég á tilfinninguna að þetta yrði erfitt. Sú tilfinning kom aftur þegar Hans spurði um það sama og ég fékk aftur svona "einmitt, aha" þegar ég sagði að við værum 3.

Við könnuðum aðstæður og hjóluðum upp að svæðinu þann 24. ágúst og tókum smá hring. Stemningin var komin af stað þá þegar og minnkaði ekki við að sjá svæðið. Lokaundirbúningur fór á fullt og það var pakkað útilegubúnaði, hjólavarahlutum, fötum, mat og drykk. Við slógum tjaldinu upp á föstudag í fínu veðri og fengum fínan stað rétt við brautina. Föstudagskvöldið kláraði ég að pakka því síðasta og grillaði mér kjúkling fyrir pastasalatið. Stóri dagurinn handan við hornið...

Ég hefði ekki þurft að stilla vekjaraklukkuna því ég vaknaði við þvílík óhljóð klukkan 20 mín yfir 6. Það var skollið á þrumuveður af stærri gerðinni. Himininn var grænn og eldingarnar leiftruðu um allt. Hanna sá greinilega á svip mínum hvaða hugsanir flugu gegnum höfuðið. Ég var áhyggjufullur yfir slæmu veðri, það var ekki hægt að leyna því.

Við mættum ferskir á svæðið upp úr átta og vorum mikið glaðir með að hafa verið svo fyrirhyggjusamir að sklá okkur inn daginn áður og slá upp tjaldinu. Nú var að koma að þessu, Biggi átti fyrsta leik og brunaði af stað kl 9 í sólskinsblíðu. Kannski var þessi hressilega demba bara smá stríðni veðurguðanna?

Lalli tók næsta hring og svo var komið að mér. Biggi var með mér á meðan við biðum eftir Lalla og gaf mér ráð og frásagnir úr því hvernig brautin leit út. Nokkrar af lýsingunum voru ekki traustvekjandi, eins og um brekkuna ógurlegu, dauðabrekkuna, undir lok brautarinnar (sést í myndbandinu hér að neðan þegar fólk teymir upp leðjubakkana).

Og svo var komið að mér, ég rúllaði af stað staðráðinn að gera mitt besta. Eftir ekki svo langa stund byrjuðu þrumur og eldingar og ég öslaði í gegnum eldingalýstan skóg og fékk svo dembuna yfir mig. Leðjan byrjaði að taka á sig mynd. Eftir fyrstu hringina okkar ákváðum við að taka bara einn hver í einu, enda varla meira bensín á kroppnum til að taka annan til í síversnandi leðjuaðstöðu brautarinnar. Við héldum góðum anda, staðráðnir í að klára þetta mál og keyra allt til enda keppninnar. Sumir keppendur höfðu farið að pakka saman eftir tvo tíma þegar leðjan hóf innreið sína.

Hér að neðan má sjá skemmtilegt myndband af því hvernig brautin varð að sífellt meira leðjubaði með hverjum hring og urg og surg í bremsum og tannhjólum var allsráðandi í skóginum. Bremsuklossarnir spændust upp og milli umferða var staðalferli að drífa í sig mat, þrífa og standsetja hjólið, fylla á orkudrykk, hvíla, pissa og svo aftur af stað.

Um fjögurleytið var tilkynnt af mótshöldurum að keppnin væri stytt um 3 tíma og við myndum hætta kl 18, því ekki væri forsvararlegt að hjóla eftir myrkur við þessar aðstæður. Ég held að enginn hafi sett sig á móti því. Ég hafði orð á því í tjaldbúðunum að ef við gætum klárað keppni við þessar aðstæður, þá gætum við sennilega allt!

Við klárðuðum dæmið og náðum 14 hringjum og lentum í 28 af 65 í okkar flokki (3 manna karla) og 60/159 í heildina. Við erum stoltir af árangrinum sem fyrsta skiptis lið. Það verður ekki hætt hér....

Myndatenglar frá keppninni eru hér:
http://www.pialind.dk/galleri/sport/atea12-270811/index.html (ég sést á mynd 354, Lalli á 167)
http://blogspot.sobol.dk/

http://t-bikes.dk/mtb/2246
https://picasaweb.google.com/107383435341048175254/ATEA12August2011
http://flic.kr/s/aHsjvQcKb2 
(Þessi er með góðar myndir úr brautinni)
http://www.atea.dk/dk/atea12/fotogalleri/


http://www.thamdrup.org/kundelogin/atea/