miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Rækt

Á þessu síðustu og mestu tímum er ógalið að líta svolítið í eigin garð. Það gerði ég í allt sumar.... og tók myndir af því ferli.
From Garðurinn

Ég og Hanna tókum á leigu garðskika hérna útfrá bakvið róló og fórum í gegnum jómfrúarsumarið okkar með hann. Amma Valla kom sterk inn í apríl í plægingu og standsetningu sem skapaði grundvöll allrar framþróunnar þaðan í frá.

Ýmislegt var reynt og rekið sig á. En í sumarlok held ég að við höfum bara verið nokkuð sátt. Smá endurhönnun var gerð á bréfsnepli á eldhúsborðinu eitt kvöldið og svo var pælt upp og sáð grasi í eitt hornið svona til frekari yndisauka. Hanna var ekki alveg að kaupa "freestyle" útlitið sem er víst þó í tísku í garðaheiminum. Einnig skelltum við upp moltukassa sem gleypir við lífrænum úrgangi okkar í hverri viku. Stundum er þetta ekki ósvipað og í heimi viðskiptanna: það þarf að henda úrganginum í safnhaug til rotnunnar og til nytja næstu kynslóða í formi áburðar.....

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Umbrot

Hrúga af sultu á glóðvolgu ítalska speltbrauðinu. Baldur Freyr lét öll tilmæli um hófsemi í sultumokstri sem vind um eyru þjóta, haugurinn bar þess merki. Svo var bitið í. Og sjá, hér losnaði loksins þessi hægri framtönn sem hafði dinglað svo lengi framan í okkur. Þá eru þðr dottnar fimm vinkonurnar og tvær holur bíða þess að verða fylltar.

Ásta Lísa er líka að taka ýmis skref áfram. Núna í dag var ekki lengur málið að vera með ermakúta í sundinu. Ég myndi álykta að þetta komi til eftir að við feðginin höfðum verið að prófa að synda án kúta í barnalauginni. Það kom ekki til mála að taka kútana einu sinni með út að sundlaugarbakka. Í staðinn fengum við okkur bara frauðplastskút á bakið og busluðumst með hann á bakinu milli heita pottsins og barnalaugarinnar. Hún er að verða bara nokkuð brött í buslinu stelpurófan. Hef engar áhyggjur af ákveðninni né þrjóskustuðlinum, það er allt til staðar....

laugardagur, 22. nóvember 2008

Skrap

Spennandi og skemmtlegt. Gaman er að undirbúa og elda góðan mat. Stemningin nær svo hámarki þegar tekið er til matar síns og innbyrtar eru kræsingarnar. Hitt er svo aftur leiðinlegra verk að skafa og skrúbba pottana, en alverst er að skrapa mínútugrillið sem hefur verið baðað klísturkenndri en hinni mjög svo gómsætu maríneringu.

Einhvern vegin þannig datt mér í hug að efnahagsmálum Íslands væri háttað þar sem ég stóð og skrapaði þaulsetna ábakaða maríneringuna. Allt er leyft og í sóma á meðan stemningin er há, fáir virðast fást til að hreinsa upp í brunarústunum. Og jú, panódíl pillum er spítt út til múgsins með hálfvolgum yfirlýsingum um mögulega ábyrgðarköllunnar sukkaranna og glæframanna. Þó virðist mér skína í gegn að Jón Ásgeir verði látinn taka hin þungu högg Davíðs sem hefur beðið lengi í bláa horninu. Þetta verður hanskalaust og undir yfirskini "þjóðarréttlætis" og tvær eða fleiri flugur slegnar í einu: blóð fyrir múginn, Jón kýldur kaldur eftir langa bið Davíðs, góðgæðingar blámanns fá endurreisn og fálkaorður.

Þegar ég reyni að setja vinnufélagana inn í ástandið eftir síaukinn áhuga um stöðuna, verður þetta eitthvað hálfsúrrealískt þegar maður útskýrir helstu leikendur og "leikreglur" (hlífðarskildi). Þá fær maður athugasemdir eins og þessa frá vinum mínum frá Makedóníu: "Já, veistu að Makedónía og Ísland er mun líkara en mér hefði grunað". Þess ber að geta að spilling í stjórnkerfinu er landlæg og stendur framþróunni fyrir dyrum....

mánudagur, 17. nóvember 2008

Skræður

Það er komið upp að ákveðnum þröskuldi í náttborðinu. Enn og aftur hefur mér lukkast að setja of margar bækur í gang:
 • Slash - frásögn þessa geðþekka krulluhauss frá uppruna Guns 'n Roses. Vel skrifuð, skemmtileg og fróðleg
 • Managing Humans - umbúðalaus og hnellin 15+ ára reynslusaga úr hugbúnaðarbransanum í Sílikondal
 • Með bakið í heiminn - sýn fréttakonunnar norsku, Åsne Seierstad, á lífið og baslið í Serbíu á meðan hún dvaldi þar frá 2000-2004

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Undur Ameríkunnar

Á síðustu 4 vikum eða svo hef ég dvalið helminginn í Bandaríkjunum, Seattle nánar tiltekið. Þar hef ég tekið eftir nokkrum sérkennum og merkilegheitum:
 • Öryggisgæsla hefur aukist við innkomuna frá því á síðasta ári. Núna er krafist fingurskönnunar á öllum 5 fingrum beggja handa, plús mynd. Í fyrra voru þetta bara vísifingurnir og mynd.
 • Ég fékk líka að rúlla í gegnum landbúnaðarafurðaskannann þeirra. Þrátt fyrir að vera langt því frá Framsóknarmaður, ég hef bara litið út fyrir að vera með sveitasæluna í töskunni.
 • Kaffibúllur, þær eru svo margar að það jaðrar við að maður fái upp í kok. Í stofnborg Starbucks, Seattle, er þetta sérlega áberandi: tully's, seattle's best, starbucks, ofl ofl
 • Mér fannst alltaf vera lykt plantað út um allt. Á hótelunum, klósettunum, verslunarmiðstöðvum ofl. Einhvern vegin alltaf sama væmna blómalyktin, eða hvað svo sem það átti að líkjast.
 • Þið áttuð kannski von á þessu, en ég verð að segja nokkur orð um salernin þarna ytra. Fyrir það fyrsta eru þau með skálarnar í sköflungahæð þannig að það er nokkur kúnst að staðsetja sig. Ég get rétt ímyndað mér hvernig hávaxnir menn eins og Hannes yrðu að sitja með hnén klemmd við eyrun...
  Annað er að mörg salernin sturta ekki, heldur sjúga með offorsi þannig að manni krossbregður í fyrsta skiptið sem þetta gengur yfir. Ekki síst þegar þetta gerist sjálfvirkt við það að staðið er upp. Þar væri gaman að sjá fólkið bakvið tjöldin sem ýta á "sturt" þegar sést í skoruna...
 • Umferðin. Eins og margt annað hefur þetta ferli verið hámarkað til tímasparnaðar. Þá kemur ekkert gult ljós heldur skiptir beint úr rauðu í grænt. Einnig má taka hægri beygju á rauðu þegar leiðin er greið. Í Danmörku verður þetta aldrei leyft þar sem hjólreiðamennirnir eiga framgöngurétt á grænu, hvað þá rauðu!

Amen

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Eirðarleysi vs. værðargeyzi....

Af hverju get ég ekki notað eirðarleysið í að sinna þeim verkefnum sem fyrir liggja í stað þess að vafra um í tóminu (lesist: alnetinu) og verða einskis vísari??

og btw. getur e-r útskýrt upphaf heimsins?