þriðjudagur, 30. september 2008

Haglabyssusöngvarinn

Ég má til með að mæla með nýjustu plötu Kris Delmhorst, Shotgun Singer. Ég hafði rekist á fyrri útgáfur hennar þegar ég var að þræða niðurhölin á eMusic fyrr á árinu. Þá leist mér svona rosa vel á Strange Conversations.

En þessi plata er enn betri að mínu mati. Ber einkenni þeirra platna sem fara í fyrsta rekka hjá mér; plata sem þarf margar hlustanir og vinnur og límist meira og meira á mann. Mætti kalla þetta laukplötur þar sem maður flysjar hvert lag af lauknum við hverja hlustun. En nú er lag ekki sama en lag, er það? Eða þannig, æi hættu nú alveg. Þið vitið hvað ég meina....

Þessi plata er tekin upp í lágstemmdum aðstæðum upp í fjallakofa og lýsingin á tilurðinni passar einmitt við lauklýsinguna mína. Maður er ekki alveg galinn. Eða hvað, og þó...

sunnudagur, 28. september 2008

CPH - BUD - SKP

Makedóneíuferð - dagur 1 (17.9.2008)

Ferðin suður til Skopje gekk eins og í sögu. Við lentum á áætlun um hálfþrjú á litla flugvellinum í Skopje. Þetta var í líkingu við Reykjavíkurfluvöll og töskurnar komu á skammri stund. Marjan, Katarina og bróðir hans biðu með bílana fyrir utan. Eftir mikla fagnaðarfundi hófum við að troða töskunum í bílana og brunuðum svo upp að aðsetri Marjan inn í Skopje.

Hnúar okkar Hönnu voru hvítir eftir hurðararmana og ömmuböndin. Hann Viktor frá Hvítrússlandi var ekki alveg sá mest traustvekjandi í umferðinni. Við ræddum þetta á leiðinni og sömdum neyðaráætlun sem var hrundið í gang um leið og við stoppuðum hjá íbúð Marjan. Við spurðum lærvíslega hvort þau ættu bíl í Danmörku. Nei ekki var nú það. Ertu þá ekki vanur að keyra dags daglega. Nei, varla neitt síðasta 1,5 árið síðan hann flutti til Danmerkur. Nú vill svo til að við eigum bíl og keyrum á hverjum degi. Ég get alveg keyrt, við getum reynt að skiptast svolítið á. Það varð úr að ég tók við stýrinu og sat þar fram á lokadag.

Við stoppuðum við húsasund inn í Skopje þar sem Marjan hvarf og kom svo til baka með Makedóníska Dínara á góðu skiptigengi. Borgar sig að vera kunnugur. Á leiðinni út úr bænum komum við í búð sem var eins og kaupfélagið heima í kringum Duran Duran tímabilið, ægilega kósí eitthvað. Þar birgðum við okkur upp fyrir ferðina, keyptum kort á bensínstöð og brunuðum út á þjóðveg á leið suður til Orchid. Hinn alþjóðlegi hópur var tilbúinn í ævintýrin með þjóðernin 7: Ísland(2), Hvítarússland(2), Malta(1), Pólland(1), Kanada(1), Makedónía(2) og Bandaríkin(1).

Þegar beygt var af þjóðveginum tók ótrúlega hlykkjóttur fjallvegur við sem liðaðist inn um gil og tré. Nokkuð merkilegt var að það var varla að sjá gatnamót á löngum köflum. Þetta var bara vegur með stóru V-i, engir útidúrar né krúsidúllur bara beint áfram. Svo kom að því að við stoppuðum, að mér virtist í hvergilandi. Hér var búr með geltandi hundum hægra megin vegar, malarstæði á vinstri hönd. Upp tröppurnar gengum við og þar var hringlaga áningarhús með tvo værukæra keðjureykingakarla innandyra. Nokkrir bekkir voru þarna inni og grill í miðjunni, ekki mikið meira en það. Marjan pantaði hjá þeim og við fengum innan skamms skál af sýrðri mjólk og kornjafningi sem er víst mjög algeng hjá fólki á landsbyggðinni. Súrmjólkin var ágæt en kornið var frekar þurrt, en ekki slæmt. Sérkennilegt var að ekkert var boðið að drekka með matnum en það átti eftir að sýna sig að vera algengara en ekki. Að þessari stórmerkilegu máltíð lokinni brunuðum við aftur út á hlykkjóttann veginn út í kvöldhúmið.

Þótt það væri komið eftir sólsetur ákváðum við að reyna að kíkja á 10. aldar klaustur heilags Jóhannesar skírara og þræddum ansi hreint skemmtilega sikk sakk brekku upp á fjallstoppinn. Heppnin var með okkur og Marjan sjarmaði sig ekki bara inn í klausturgarðinn heldur fengum við þann heiður að fá að vera við kvöldmessu munkanna. Þarna fór maður í nýjan heim og það var dolfallandi tilfinning að hlusta á söngl munkanna sem skiptust á að fara með ritningarorðin á leifturhraðri makedónísku. Það verður að segjast að þetta er ekki ólíkt rappi ef maður spáir í hrynjandann og hvernig þeir skiptust á og gengu inn í línur hvors annars. Eftir athöfnina fengum við einkaleiðsögn eins munksins um dýrgripi kapellunnar og þar lærði maður undirstöðuatriðin í að lesa úr altarisíkonunum til að vita hvaða dýrlingi þessi kirkja tilheyrir o.s.frv. Þarna var allsvakalegasti útskurður sem ég hef á ævinni séð. Heill veggur af meistaralega útskornum táknmyndum, sögubrotum og fígúrum. Að sjá þessar trésúlur úr heilum trjám sem hafa verið holaðar innan með heilu sögunum innan í. Hvernig var þetta hægt?

Aftur út á hlykkjóttu vegina. Mér leið eins og í tölvuspili í næturkeyrsluborði: beygja, bremsa, beygja, gefa í, bremsa o.s.frv. Á meðan við hlykkjuðumst meðfram landamærum Albaníu leið mér eins og ég væri að fara yfir sömu brúnna aftur og aftur. Enda kom það svo í ljós að við vorum að þræða fram og til baka yfir þessa sömu á: svarti draumurinn.

Við komum svo seint og síðar meir til Orchid og hentum töskunum inn á hið nýuppgerða íbúðarhótel stutt frá vatnsborðinu. Eftir stuttan stöðufund var stikað upp í bæ og rölt um í kvöldkulinu, það var nefnilega bara nokkuð svalt þarna. Mun kaldara en maður hafði átt von á og vonast eftir. Eiginlega það sama hitastig og í Danmörku, svona um 10-12 stig að kvöldi til. Marjan endaði svo með okkur á góðum makedónískum veitingastað þar sem við fengum fyrsta skammt af mörgum af tvennunni góðu: shopska salat og vínberjabrennivíninu rakija. Á eftir fylgdi blandaður kjötbakki, grillaðir chili (sterkir!), hvítlauksmauk, edik og brauð. Mjög gott að fá svolítið í belginn þótt seint væri og í raun kominn nýr dagur. Við röltum í rólegheitum meðfram vatninu og hlökkuðum mikið til að sjá öll herlegheitin í dagsbirtu. Það var svo ótrúlega margt sem við höfðum upplifað á svona skömmum tíma. Magnað að hafa verið í kvöldmessu Orthodox munka innan 12 tíma eftir morgunkaffið í Köben. Og þetta var bara rétt að byrja...

fimmtudagur, 25. september 2008

Á slóð jógúrtsins

Ævintýri. Það er eina orðið sem ég á yfir ferð okkar til Makedóníu í síðustu viku. Þetta var í einu orði sagt frábært. Við hurfum algerlega inn í nýjan heim og gleymdum að það findist önnur veröld hér á sjálandi sem innihéldi skóla, vinnu og tvö yndisleg börn. Það var bara of mikið að upplifa og sjá.

Þetta var frábær og alþjóðlegur hópur (Ísland, Hvítrússland, Pólland, Malta, Kanada, Bandaríkin og Makedónía) sem við vorum hluti af. Marjan var okkar einkaleiðsögumaður og gerði okkur kleift að upplifa land og þjóð með augum heimamanna.

Meðal þess sem við fengum að upplifa var kvöldmessa munka af grísku rétttrúnaðarkirkjunnar, synt í Orchid vatni við sólarlag, róið yfir vatnsuppsprettur, virki, klaustur og kirkjur, minnisvarðar um byltingar, allskyns matarkyns (burek og jógúrt í morgunmat, osta í öllum stærðum og gerðum , tyrkjagruggið boza, klassíska salatið shopska sem fer hönd í hönd með vínberjabrugginu rakija, anísdrykkin mastika, Skopje bjórinn Skopsko) ofl ofl. Og svo að taka þátt í ekta makedónísku brúðkaupi með kórónuskiptingum, gómsætu 4 rétta borði skoluðu niður með rakija og hringdans í meira in 5 klukkutíma við undirleik þjóðrænnar tónlistar, er ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi.

Ég tók auðvitað helling af myndum og myndböndum ásamt því að halda dagbók. Þetta mun allt rata hér inn á vefinn bráðlega, bíðið bara róleg....

sunnudagur, 14. september 2008

Í helgarlok

Sérdeilis gott er það búið að vera um helgina, sólarglenna flesta daga og hlýtt yfir hádaginn. Ég tók skorpu í garðinum á föstudaginn og undirbjó jarðveginn fyrir grassáningu, í orðsins fyllstu merkingu. Það þýddi að jarðaberjaplönturnar og rauðbeðurnar urðu að flytja sig um set. Kryddjurtaóræktarhringurinn fékk að fjúka vegna vanhæfni sinnar...

Föstudaginn var ég að vinna heiman frá svona til hálf ellefu en náði að skella í sólberjamarineringu fyrir hálf tíu. Maður uppskar þokkalega um kvöldið með sólberjakryddkjúkling af grillinu með rauðlauk, maís og kartöflur úr garðinum. Algert dúndur. Við krakkarnir horfðum svo á Disney stundina og Talent á meðan Hanna þvældist um í samgöngukerfi Stór-Kaupmannahafnar. Alveg úr æfingu greyið stúlkan að fara niður í bæ á öldurhúsin. En hún skilaði sér að lokum til Dagný og félaga á Blasen.

Í gær fór Baldur í heimsókn til Aleksanders skólabróðurs og gerðist þaulsetinn mjög. Á meðan skelltum við þrenningin okkur út á Skodsborg ströndina á hjólunum þar sem sílspikaði selurinn skellti sér í úfinn sjó. Það blés þokkalega inn frá hafinu og ég fékk góðar gusur upp í og yfir mig. Ég og Ásta Lísa gáfum smáfuglunum Ciabattabollu á meðan Hanna lá á maganum horfði fast ofan í teppið með lokuð augun. Og maturinn: ég smjörsteikti svínasnitsel í speltraspi um kvöldið með Meyer rauðkáli sem er algert lostæti.


Í dag byrjuðum við á því að fara á markaðinn inn í Holte með viðkomu í gamla góða kaupmanninum í Sölleröd. Þetta var bara eins og hverfa 2-3 ár aftur í tímann, rosa gaman að koma þangað aftur. Ég var þó búinn að hræra saman megninu í tandoori marineringuna áður en við fórum af stað og gat sett sítrónuna og engiferið í við heimkomuna. Lyktin var dásamleg. Ég varð einn eftir í kotinu á meðan Hanna fór með Baldur á sundæfingu og Ásta var horfin um leið til Ölmu vinkonu. Á meðan hrærði ég í skúffuköku og hlustaði á þjóðlagatónlist. Allt var nú að verða klárt fyrir grannagrillið í kvöld, mmm.
Þvílík lukka sem þetta grill var. Tandoori kjúklingurinn var algert sælgæti með bökuðum kartöflum. Súkkulaðikaka plús eplakaka frá nágrönnum rann vel niður með kaffi og þeyttum rjóma. Krakkagerinu líkaði þetta heldur ekki illa.

Núna erum við Hanna á fullu að skrifa upp handbók fyrir gemlinga- og húshald sem mamma og Guðrún taka að sér í næstu viku. Þá erum við nefnilega á leið til Makedóníu! Djíss hvað þetta verður gaman. Marjan og Aleksandar eru búnir að græja þetta allt saman, það eina sem við höfum gert er að bóka flug. Það á víst að vera klár bíll á flugvellinum sem við brunum á niður til Orchid vatnsins til að byrja með í smá ferðamannaleik áður en brúðkaupið er á laugardaginn.

miðvikudagur, 10. september 2008

Jaså

...mikið hvað fólk getur verið upptekið af óléttu.....

laugardagur, 6. september 2008

Íslensk tónlist í góðum farvegi

Ég er núna búinn að vera ánægður viðskiptavinur eMusic í rúm 2 ár. Þar greiði ég áskriftagjald fyrir mín 40 niðurhöl á mánuði sem eru í formi hreinna og beinna mp3 skráa. Ekkert takmark á fjölda niðurhala á sama lagi/plötu né takmörk á hvaða tölvur ég set skrárnar á, ekkert röfl.
Nema hvað, ég hef verið að slæðast eftir Íslenskri tónlist hjá þeim og þar er nú barasta slatti í handraðanum. Í gær sá ég að Sprengjuhöllin er í sviðsljósi mánaðarins, á forsíðu sem umfjöllun dagsins og í öðru sæti á topp albúmum dagsins. Ekki slæmt það! Og platan þeirra er stórgóð, auðvitað sótti ég hana um leið. Til lukku með þetta strákar.
Vonandi fær maður svo að sjá nýju plöturnar hjá Benna Hemm Hemm og Emiliönu innan skamms.