mánudagur, 9. ágúst 2010

Vegaferd2010 - myndir, skammtur 2

 Lokaskammtur af myndum kominn inn. Hér má sjá svipmyndir af sólardegi á Emerson, Lundúnarferð, Brusselheimsókn, Tilburg og Amsterdam í Hollandi og svo síðasta nóttin í stórkósí heimagistingu í úthverfi Hamburg.
Góðar stundir
Posted by Picasa

laugardagur, 7. ágúst 2010

Vegaferð 2010 - myndir, skammtur 1

Jæja þá er maður búinn að slumma inn fyrstu hrinu af myndunum frá ferðalagi okkar um NV-horn Evrópu í Júlí mánuði. Við fengum konunglegar móttökur hjá Ástu frænku í Englandi og brölluðum ýmislegt þar í 5 daga. Vorum voða dugleg í badminton, ríkulegum morgunmat og útsoferí. Kíktum m.a. í Brighton, Crowleytúr, Emerson, Bangsimon heimkynninn ofl. Svo kom að því að bruna til Dover á ferð okkar til Brussel. En meira um það síðar...
Posted by Picasa

föstudagur, 30. júlí 2010

Útilegur Vízindaklúbbsins anno 2010 - myndir

Vízindaklúbburinn átti náðuga endurfundi í sumar og gerði sér dagamun í tvígang úti í náttúrunni með börnum og buru. Alltaf gott veður og stuð. Að venju.
Posted by Picasa

Tilsvör

Tusku-faðir: Baldur Freyr, ekki fara inn á skónum. Við vorum að skúra og það er blautt úti.

Bolta-sonur: Æi, ég er kominn inn. Labba bara til baka. Moppan stendur hvort sem er þarna við hliðina. Getið þið ekki bara skúrað aftur? Þið eruð ung og frísk.

Snjall drengur. Klykkir út með gullhömrum. Skák og mát. Ég skúra bara aftur.

þriðjudagur, 20. júlí 2010

Á vegum úti - D12: Hamborg

Það er ræs. Hamborg bíður. Stöðumælirinn rennur út kl 10 en snör og samhæfð handtök ferðalanganna gera okkur af stað að rúlla af stað 10:14. Og svo er bara keyrt. Og keyrt, langleiðina til Osnabruck þar sem áð er í hádeginu á McFlugnager með mykjufýluna á vangann á útiborðunum. Bara eins og í sveitinni. Það eru sagðar gátur og brandarar gegnum lofkælda klósetthurðina á McD, Baldur Freyr er í feikna stuði inni á náðhúsinu.

Við skiptum um bílstjóra og eftir einungis 1 km lendum við í vel útilagðri umferðarteppu við Onsabruck. Þar silumst við á hraða snigilsins í klukkutíma eða svo. Loks náum við upp eðlilegum umferðarhraða og brunum áfram þjóðveginn uns það er kominn tími á pissustopp og ís. Hér geysar 32 stig í skugga og úrvalið í vegasjoppunni er dálaglegt. Das Trucker sómir sér vel við hlið bláu myndanna í rekkanum. Samhengi?

Þrátt fyrir handskrifuð og takmörkuð plögg náum við að ramba inn á úthverfið Barsbuttel og lendum klukkan hálfsjö hjá heiðurshjónunum á Bergredar 11. Hér er um að ræða algert krútthús með svakalega flottum alúðsgarði. Sannkallað dúkkuhús með smáatriði í öllum skreytingum og innréttingum. Við fáum alla efri hæðina og hlökkum strax til uppdekkaðs morgunverðarborðsins.

Það er matarleit í úthverfunum, við erum virkilega í hálfsveit. Sannkallað úthverfi, hálfgert Nærum. En við römbum fyrir rest á veitingastað í "miðbænum"/kjarnanum þar sem virðist vera fastur kjarni fastakúnna sem taka í spil og öl. Og þetta reynist hinn fínasti matur, fáum salat í forrétt og svo ouzo og sleikjó í eftirrétt sem staðalpakka með matarpöntun. Vel kýld kjögum við heim í krúttloftið. Vel sátt og södd eftir rúmlega 500 km ferðalag.

mánudagur, 19. júlí 2010

Á vegum úti - D13: Heimferð

Sváfum eins og englar. Dýrindis morguverður er framreiddur framar vonum af heiðurshjónunum á neðri hæðinni. Í borðstofunni gefur að líta afar áhugaverðar ljósmyndir frá 9. áratugnum. Hér hefur verið heimavöllur sonarins. Stoltur benzeigandi með liðað sítt að aftan í bleikum krumpustuttbuxum stillir sér upp við kaupin.

Við þökkum fyrir okkur á bágborinni þýsku framreiddri af talvél hópsins, Ástu Jakobs, ásamt táknmáli. Við gerum upp og skorum þónokkur stig við að leiðrétta peningatalninguna sem hallaði á gestgjafana. Brunum af stað kl 11:14.

Það er áningarstaður í landamærabúllunni. Hér er enginn smámarkaður og spákaupmennska. Hér er allt til alls, aðallega sykurvörur og fljótandi. Við tölum um kasino á móti súpermarkaðinum ásamt flutningabílaþvottasöð. Við fyllum á belgina á Burger King, utandyra í 30+ hita.

Skipt er um bílstjóra og Fjón sýnir skemmtanagildi sitt enn á ný. Ég steinsef yfir eyjuna grænu og vakna ekki fyrr en skammt frá ísstoppi á sjálandi. Við erum á leið heim.

Ferðin endar í Nærum um síðdegið og þrátt fyrir að þetta hafi verið frábær og viðburðarrík ferð eru allir glaðir og fegnir að koma heim.

sunnudagur, 18. júlí 2010

Á vegum úti - D11: Amsterdam 2

Það er bæjartúr í blíðuna eftir ríkulegann morgunverð og við þræðum okkur inn að bæjarmiðjunni með nauðsynlegu kaffihúsastoppi. Túristarnir fara í bátsferð en heimafólkið sitja hjá þetta sinnið og slaka á við síkjabakkann. Við fræðumst um hús og skurði af þrítyngdu segulbandinu. Ásta Lísa er ekki sérlega bergnumin af segulbundnum fróðleiknum og leitar niður á gólfið í leit að skugga. Hún kemur sér vel fyrir á gólfinu við fótskör meistarans og hylur sig peysu móðurinnar og dundar sér við að flétta bönd bakpokans.

Við röltum svo sem leið liggur niður á Leidseplein eftir siglinguna og finnum þessa drellifínu wok-frátökubúllu, wok to walk. Afar velútfærð hugmynd þar sem skilvirkni og einfaldleiki afgreiðslu er í fyrirrúmi. Hér er búið að meistra færibandawok þar sem hver hefur sitt sérskipaða hlutfverk (afgreiðsla, samtínari, steikjari). Krakkarnir velja sér þó frekar, ekki að óvörum, McD sem er beint á móti. Í kaupbæti náum við að sjá restina af dansýnsingu á leið í sporvagn 7 á leið heim.

Wokið var alveg að gera sig og fylgja hér sterk meðmæli með sniðugu strákunum á WokToWalk. Silla verður víst að kveðja, það er næturvakt framundan en við skellum okkur á róló í austurgarði. Góðar stundir og ærsl sem straumlínulaga sængurferð ungviðisins. Fullorðnir tylla sér niður við flöktandi kertaljós og dreypa á frískandi veigum. Hinn lífræni Adoube þrúgusafi fær að fjúka ásamt myndalegu safni rauðvíns og belgísk-/hollenskra bjóra. Og málin eru rædd. Við fáum minnigarbrot og fréttir úr öllum krókum og kimum. Endurupplifun þjórsárdalsferðar bindindisfélagsins er sennilega eftirminnilegust, enda síðust á dagskránni.

laugardagur, 17. júlí 2010

Á vegum úti - D10: Amsterdam

Það er uppdúkað dýrindis hlaðborð sem tekur á móti okkur um morguninn. Baldri Frey og Ástu Lísu líkar það alls ekki illa, svo ekki sé meira sagt. Ardy kemur svo um 11 og það eru rifjaðir upp gamlir tímar og minningar. Við tökum svo göngu um bæinn og skoðum margar merkilegar verslanir með notað og nýtt frá mörgum heimshornum. Áður en við kveðjum fersum við kaup á Gwotel skónum góðu frá Mongólíu, bæði einstaklega flottir og hlýir skór til styrktar góðu málefni. Grípum svo kaffi og brauðmeti í bílinn til að hafa alla metta á leiðinni til Amsterdam.

Ferðin gengur svona stórvel, fyrir utan smá krúsidúllur við að komast út úr Tilburg. Við erum mætt á áætluðum tíma kl 17 og komum húsráðendum í opna skjöldu með slíkri svínslegri stundvísi. Óli og Silla koma skjótt af nærliggjandi kaffihúsi og hjálpa okkur með draslið upp í rjáfur. Þau svífa um með þaulæfð handtök og endurinnrétta íbúðina á núllkommafimm. Hana, þá er búið að koma 5 í viðbót fyrir í litlu og huggulegri íbúðinni með þakglugga og det hele.

Spagetti carbonada er galdrað fram á mettíma og leyft að setjast hæfilega til í meltingaveginum með góðri kvöldgöngu um hverfið þar sem við fáum nasasjón af húsbátum, síkjum og öllu því sem einkennir Amsterdam. Við ljúkum kvöldinu við spjall, snakk og drykki. Spennandi dagur framundan....

föstudagur, 16. júlí 2010

Á vegum úti - D8: Tilburg 2

Það er morgunmatur og hefðbundin morgunverk. Spjall og slökun. Von er á Machteld og nýsjálenska sjóliðanum Mike, en hann verður frumsýndur tengdaforeldrunum í dag. Þau eru að vonum spennt að hitta þennan sjómann í Breska hernum sem siglir um höfin blá í mánaðarvís. Morgunverðurinn teygir sig yfir í kaffisamsæti. Jelte slær í gegn með kynningu á gömlum spilum og leikjum sem spiluð voru á æskuheimilinu. Kubbaleikurinn skorar mjög hátt og er spilaður aftur og aftur. Skakkaturnsspilið og bjöllupúslið er líka vinsælt.

Við tökum göngu í garðinum og nú er hægt að spila fótbolta á afgirtum sparkvelli. Það eru allir með og sviti sprettur af ennum fólks, ójá. Það er rölt heim á leið og ég og systurnar bregðum okkur í kjörbúðina að versla inn fyrir matinn því við vildum launa gestrisnina með því að malla Lasagne fyrir mannskapinn. Það heppnaðist bara nokkuð vel og var Paula tvöfalt ánægð með matinn: fannst þetta rosa gott og svo þurfti hún ekki að elda ...

Þá var kominn tími á það sem ungviðið hafði lengi beðið eftir:tívolí. Og þvílík ljósadýrð, hljóð og spennandi möguleikar. Fyrsta verk var að taka hring á óskatækjunum sem höfðu verið sérvalin í spæjaraferð gærkvöldsins. Og meira til; Sjef var duglegur að grípa börnin og far með í tæki, m.a. draugahús og hringekju með Baldri. Músaborgin var merkileg í sjón - og þef.

Ég fann að jafnvægisskynið var augljóslega eitthvað þverrandi með árunum því þeytivindu-Jókerinn gerði mig hálfvaltann á meðan Baldur hljóp beint út gallvaskur og sagði: fáum okkur Candyflos!

Við lukum ferðum okkar um tívolíið með smáhesta reið og tónleikum, sem voru nokkuð merkilegir. Fyrir framan sviðið var n.k. símaklefi þar sem fólk steig upp og hringdi upp á svið og bað um óskalag. Svolítið eins og Sniglabandið gerði í útvarpinu.

Það fóru allir sáttir og þreyttir í rúmið eftir þennan góða og viðburðaríka dag.

fimmtudagur, 15. júlí 2010

Á vegum úti - D8: Tilburg

Það er vaknað um áttaleytið. Snemma í dag því hreingerningardaman er mætt og það vantar frönskutúlk hið snarasta. Ásta hin fjöltyngna vippar sér upp og bjargar málum. Við röltum út á rólo eftir morgunmat og þegar líða tekur að hádeginu er fyllt á geymana með franskar+ís. Svo er kominn tími á að pakka og kveðja. Tilburg bíður.

Bærinn er undirlagður af bæjartívolíinu þannig að það eru smá krókaleiðir að Telefoonstraat. En við erum nokkuð góð að rata þetta í gott sem fyrstu atrennu og rúllum að hliðinu um sex-leytið. Það verða miklir fagnaðarfundir og kynningar á áður ókynntum fjölskyldumeðlimum. Snakk og skraf og krakkarnir fá spil í gjöf sem þau dunda sér með. Ásta Lísa verður nokkuð lunkin með apaspilið.

Eftir hressandi Enschiladas er gönguferð um bæinn þar sem hægt er að sjá vinnuflokka setja upp tæki og tjöld sem verða klár fyrir morgundaginn. Ekki laust við að það myndist spenna hjá ungviðinu og Baldur Freyr kortleggur óskalista morgundagsins. Það var því miður ekkert gras í boði til að spila fótbolta þannig að götubolti verður að duga.

Jæja, það er farið snemma í rúmið. Stór dagur á morgun. Baldur Freyr liggur í rúminu og er að melta þetta allt saman. Nú er hann í heimsókn hjá fólkinu sem hýsti föður hans fyrir 18 árum sem skiptinema. "Pabbi, mér finnst skrýtið að þú skiljir þetta tungumál. Mér líkar vel við Sjef og Paula, finnst þau søde". Alveg sammála. Þrátt fyrir ósamstæð tungumál þá næst vel að ná saman og þau leika á alls oddi við börnin.

miðvikudagur, 14. júlí 2010

Á vegum úti - D7: Brussel 2

Draumamorgunmatur og algerlega eftir höfði og óskum Baldurs Freys og Jens Inga: nutellabrauð úr tröllaukinni krukku sem var vandlega valin úr ódýru búðinni. Allir mettir og ferðaklárir um hádegisbil en þá tölti hersingin niður í metró, nema Rakel greyið sem var farin í vinnuna að hafa eftirlit með EFTA/EB lagabákninu.

Fyrsta stopp var hinn stórmerki kínaverski súpermarkaður sem eftir lýsinum Andrésar átti bara heima í ævintýrum. En það reyndist dagsatt ævintýr og enginn skortur á úrvali og valkostum. Eiginlega áskorun að ná að takmarka sig í innkaupum. Þegar maður hélt að allt væri skoðað kom í ljós að við vorum bara í ytri helmingi búðarinnar. Fórum út klyfjuð af kryddum, tei ofl gúrmei.

Við röltum um miðbæinn en fljótlega fór sultarkórinn að verða æ háværari þannig að við förum að tillögu Andrésar inn í þrönga veitingahúsagötu út frá stóratorgi. Þar erum við tilvalin fórnarlömb innkastara túristastaðanna og er lofað gulli og grænum skógum. En þjónninn á erfitt með að fela vonbrigðin þegar við pöntum ekki stóra sjávarréttaplattann eða kjúklingadiskinn. Bara pizzur og annað léttmeti sem er barn - og ofnæmisvænt.

Við heimsækjum litla pissukarlinn sem er klæddur upp í napóleongalla. Magnað að auðkennistákn bæjarins skuli ekki vera betur frágengið; það eru bara svona snúrulufsur lafandi hist og pist aftan úr drengnum. Ætli það sé ekki kvöldlýsingarperur. Eða þvagrásin sjálf?

Í Belgíu er gert mikið af súkkulaðikonfekti. Og okkur þótti skylda ein og vel passandi að versla eins og eina öskju til að kvitta fyrir gestrisnina á næsta fyrirhugaða stoppi, í Tilburg. Það var um og yfir 30 stig þennan daginn þannig að það virtist vera staðalbúnaður að fá álfóðraða og rennda axlartösku með í kaupunum. Hún kom sér svo vel sem nestistaska fyrir kælivörur síðar

Það er óumflýalegt þrumuveður í aðsigi og við drífum okkur upp á metro stöð. Enda er ungviðið búið að fá nóg af bæjarlífinu og langar heim í badminton og leik. Við skiptum liði og karlar fara í innkaupaferð á meðan restin af genginu flýtir sér heim í kapphlaupi við úrhellið sem nálgast óðum. Það fer að blása hressilega og það þyrlast upp rykið af götunum og fyllir augu okkar. En við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því, demban hellist á okkur og hreinsar allt ryk á núll einum. Regnið dynur á þakinu og læðist inn um lofttúðurnar þar sem ég engist um í valkvíða við risavaxið kjötborðið, sem er í raun kjötlager. Við Andrés náum að sigta út nokkur góð stykki og leggjum inn pöntun. Innkaupin ganga bara nokkuð vel fyrir sig og við hlaupum við fót heim í rigningunni með kassana í fanginu. Ég spóla bara í nýju sandölunum mínum sem voru greinilega ekki hannaðir fyrir votgöngur.

Veðurguðirnir eru miskunsamir og rífa ský og regn burt svo við getum slegið upp grillveislu. Eftir spá hins reynda innkaupameistara Andrés þá kemur óvænt innihald upp úr kjötbréfunum miðað við það sem maður taldi sig krossa við á hinum franskmælandi pöntunarlista. En það kemur ekki í veg fyrir fjögurra kjöttegunda hlaðborð með grænmeti, kartöflum og tófúpylsum. Ljúf kvöldstund fylgir með mat, drykk, spjalli og ögn af plötukynningum.

þriðjudagur, 13. júlí 2010

Á vegum úti - D6: Brussel

Engin miskun, nú þurfti að drífa sig á fætur. Ekkert hangs í rúminu frameftir, það þarf að fæða, klæða, ganga frá og pakka í bílinn. Það er kraftaverki líkast að allt dótið fyrir okkur fimm komist í Nissan skott. Hér kemur áralöng Skodapökkunarþjálfunin sér vel. Klukkan 11:09 er brunað í átt að Dover í lágskýjuðu. Kannski gott að fá smá hvíld frá sólinni svona rétt á meðan við keyrum.

Við erum tekin í stutt málamyndatékk hjá tollurunum í Dover. Kannski eru það íslensku númeraplöturnar sem vekja eftirtekt þeirra? Akbraut 158, stigagangur G5 og þilfar 7. Þar erum við samankomin og krakkarnir hlaupa hið snarasta inn í barnahornið þar sem sýndar eru ræmur með sniðuga kettinum honum Tómasi. Börnin hverfa inn í heim teiknimyndanna og veita útsiglingunni enga eftirtekt.

Langþráður kaffibolli er næsta mál í fullorðinsdeildinni. Systurnar sveima um völundarhús kaffiteríunnar. Ég fæ félagsskap á meðan af hormónafylltum íþróttaunglingum frá þýskalandi sem stytta mér stundir. Mikið hvað það getur verið gaman að taka myndir á farsímann sinn. Vá, þetta gutl í bollanum mínum er einhver sú lélegasta afsökun fyrir kaffi sem ég hef kynnst. Held að við séum að reyna að sötra skolvatn uppþvottavélarinnar með slettu af mjólk. Selt sem cappuchino. Nei takk. Hafnað!

Brunað áfram þjóðveginn í Frakklandi og við gerum stopp í mykjufýlunni í Belgíu þar sem hægt er að fá mannsæmandi kaffi, alveg vel hressilega sterkt Espresso. Alveg eins og það á að vera. Dugar sem eldsneyti þá 100 km sem eru til Brussel. Við tökum smá hringavitleysu í Brussel, missum af hringveginum og förum niður í blessaðann stokkinn. Förum of snemma upp úr stokknum og hrinsólum nokkra stund. Náum að sigta okkur inn að kennileiti: Aborre torgi og með leiðsögumann í símanum þá komumst við að Montgomery torgi þaðan sem Andrés fjarstýrir okkur síðustu metrana. Við hittum á hann kófsveittann á götuhorni og þá erum við næstum heima. Lendum heil á húfi á bílastæðinu við Elénore Avenue um 8 leytið, nokkru seinni en við ætluðum. Ásta Lísa er búinn með þolinmæði sína gagnvart þvælingi og vegvillum og segir hátt og skýrt: ég ætla út úr þessum bíl!

Móttökurnar hjá húsráðendum Andrési og Rakel eru höfðinglegar og okkar bíður dásamleg máltíð. Börnin detta í leik um leið og fullorðnir sitja og spjalla frameftir. Sumir nokkuð lengur aðrir...

mánudagur, 12. júlí 2010

Á vegum úti - D5: London

Þrátt fyrir göfug fyrirheit var seint skriðið á fætur. Regn næturinnar að klárast um hádegisbilið og sólin skríður fram um elið og við rúllum af stað í áttina að sjálfri London. Mann- og götulífið fer að taka á sig æ áhugaverðari blæ eftir því sem við nálgumst Brixton. Chauser road reynist auðveld viðureignar í bílastæðamálum og áður en við vitum af situm við upp á annarri hæð í þristinum á leið til Trafalquare square.

Hér er dágóð mauraþúfa. Express pizza verður fyrsta menningarlega stopp okkar með bókarbúðakaffibaukum í hendi á eftir. Allar orkustöðvar eru nú fullhlaðnar og við ákveðum að taka ferðamannastrætóferð til að sjá nú sem mest á okkar stutta viðverutíma hér í bæ. Og sjá, hér sjáum við öll helstu merkisstaði Lundúna í einni bunu. Stórmerk borg með mikla sögu sem þarfnast þónokkurra heimsókna í viðbót til að sjúga inn allt það sem í boði er. Dagsheimsókn okkar var ágætis smakk.

Við rúllum svo til baka í þristinum þegar kvölda tekur. Það eru margar merkisbúllur á leiðinni heim sem vert er að nefna: PFC (Perfect Fried Chicken), BFC (Best? Fried Chicken) ofl. Við tökum hins vegar Thai með okkur heim í East Grinstead. Heima bíða okkar skilaboð á dyrinni. Það er frá hinu viðkvæma japanska blómi, sem er nágranni okkar á hostelinu. Hin líflegu börn okkar voru víst fullmikið innlegg inn í hinn daglega rytma. Bað vinsamlegast um grið. Kannski passlegt að við séum á förum til Brussel á morgun. Við sáum til þess að sérstaklega rólega og hljóðlega væri farið um þetta kvöldið.

Það er svo badmintonumferð fyrir háttinn og svo tekur við pökkun fyrir Brussel ferð morgundagsins. Ásta er í raun að pakka niður fyrir brottflutning þar sem gistiheimilið á að loka í júlílok. Og þá er pakkað. Sumir lengur en aðrir. Sumir fram á morgun. Já það er í mörg horn að líta og passa upp á.

sunnudagur, 11. júlí 2010

Á vegum úti - D4: England, Pooh bridge og Emerson

Frekar döpur frammistaða í fótaferðum hér á bæ. Það hálf varð okkur til láns að ein merkiskonan vakti Ástu til að kveðja. Hún væri á leið til baka til S-Afríku, hefði "gengið frá" í eldhúsinu. Ásta tók svo hálftíma í að hreinsa úr vaksinum og skúra bleytu af gólfum. Það gustar um þessa merku frú búsettri í S-Afríku.

Tókum bíltúr í hitanum upp í Emerson og ákváðum að labba svolítið um og borða nestið okkar þarna. Rosalega flott svæði og ég slökkti nánast ekki á myndavélinni þann tíma sem við sóluðum og spókuðum okkur þar. Sáum meðal annars persónulega sýningu á áttuflæði vatns. Ég uppgötva að ég er með opna buxnaklauf þar sem ég sit og maula samlokuna í sólinni. Svona er maður slakur í fríinu.

Og þá er það út á ensku sveitavegina aftur. Við tékkum á Bangsimon brúnni með viðkomu í Bangsimon horninu. Voða sæt og flott búð, en erfitt að vera ung sál sem langar í allan heiminn þar inni. Prikaleikurinn virðist bara heppnast vel.

Tökum kvöldmatinn á Old mill og skoppum yfir á svartapéturskránna í Forrest Row til að sjá úrslitaleikinn í fótboltanum. Þar vantar ekki lætin og hressleikann og þrátt fyrir góðan undirbúning okkar heyrir Ásta Lísa mestu kviðurnar í gegnum heyrnartólin á tölvunni þar sem hún situr og snýr baki í leikinn og horfir á Castania (í milljónasta skiptið). En þetta verður þrusuleikur og fer í framlengingu. Baldur Freyr gírast allur upp og segist nú hlakka mikið til að fara í fótboltaskólann í Ágúst.

Það er síðbúin sængurferð ungviðisins en fullorðna deildin fer í að pakka niður, finna gistingu í nágrenni Hamborgar fyrir næstu viku, prenta út akstursleiðbeiningar ofl. Síðasta kvöldverkið er að kippa út úr þurrkaranum.

laugardagur, 10. júlí 2010

Á vegum úti - D3: England, Crowford

Skrölt á fætur um 10 leytið. Bað og badminton á línuna úti í blíðunni. Við ákveðum að skella okkur í smá bíltúr til Crowford. Heldur heitt hjá okkur. Ekki úr vegi að versla eina þykka vetrarúlpu í Marks og Spencer. Annars er fátt annað fýsilegt en að setjast í bláhornið á hinum margverðlauna garði Crowley með kaffi og nesti. Hér verður vendipunktur í tækjasögu unviðisins þegar langþráður draumur Baldurs Freyrs verður að veruleika: hann kaupir sér Nitendo DS fyrir uppsafnaðan sarp sjóð sinn. Pöntunarlistabúðin Argos við hlið garðsins reyndist hafa góð verð á græjunum. Og hamingjan og gleðin leynir sér ekki. Nú geta allir lagst rólegir niður og sólað sig...

Hér gengur maður framhjá og prumpar með ógurlegum óhljóðum. Steinkasti frá mér engjast tvær gelgjur í flisskasti. Veit ekki hvort það er þarmaþefurinn, hitinn eða hreinlega menningarlegur margbreytileikinn, en ég er að horfa á þrífættann hund draga hjólastól. Hlýtur að vera nýtt met í minnihlutahóp.

Á bakastíminu kaupi ég tvær lyklakippur af Batman til styrktar börnum. Hanna rekur endahnútinn á símavangaveltur sínar og skellir sér á allpæjulegann Samsung snertisíma. Ég sötra ískaffið af áfergju á meðan kaupferlið fram og fæ ennisfreða að launum.

Við komuna til Tobias skellum við okkur beint í High Tea með skones og öllu tilheyrandi í tilefni 30 ára afmælis skólans. Mætum í svakalega fínt uppdekkað enskt teboð með fínerís postulíni, te og veitingum. Það er hóað inn í bakgarð þar sem hátiðarávörp eru flutt. Krakkarnir eru furðurólegir og halda alveg næstum út fram að freyðivínsskál og kökuskurði. Þau skjóta sér út á tún en koma svo til baka í kökusneið. Ásta Lisa nær að reka svona hressilega við á plaststól, sem gefur kröftug magnaraáhrif. Konan á næsta borði brosir til okkar. Síðar spyr hún hvort við ættum þessi kröftugu börn. Ha, hugsum við Hanna bæði. Þau eru búin að vera svo ótrúlega róleg og hálfósýnileg hérna? Nújá, kannski kraftprumpið hafi verið ástæðan....

Maður hittir margt merkilegt og áhugavert fólk þessa dagana. Ofarlega i huga er frú berfætt-brjóstahaldaralausa-og-bláttáfram. Hún er sjaldan þögul og stikar um berfætt og spjallar við allt og alla um alla mögulega hluti. Og liggur ekki á skoðunum sínum en er rosalega indæl kona.

Eftir kvöldmatinn rennur upp langþráð jómfrúarspilamennska Nitendo og það er tekin badmintonsyrpa fram í myrkur. Stillan og hitastigið myndar kjöraðstöðu fyrir badmintonæðið sem hér geysar

föstudagur, 9. júlí 2010

Á vegum úti - D2: England, Brighton

Það er rólegur morguninn hjá okkur og við tökum okkur hægt og rólega til fyrir ferð til Brighton. Sultarkvein ser slökkt á McMoney bráðlega eftir komuna til strandbæjarins. Apótek: sólgleraugu og verkjapillur. Þá er hersingin klár á ströndina.

Niðurbrennd bryggjan er látin standa ósnortin. Það er ósk um að láta þennan minnisvarða fornfrægra tíma standa og svo er hún víst mikið notuð í kvikmyndum. Steinaströndin er barasta fín og mógrænar öldur svala okkur í hitanum. Baldur Freyr og Ásta Lísa skríkja af fögnuði í ölduganginum. Líka ég. Við hoppum og buslum dágóða stund en leigjum svo stóla. Svona röndótta erki-strandstóla sem krefst ákveðins líkamslags til að forma hann eftir stólnum. Kryppa væri æskilegt lag á stólnum í þessi húsgögn. Hér er dormað og dúllað sér nokkra stund. Tökum svo strandlabb gegnum búllurnar og markaðina á leiðinni heim að bíl. Langvarandi sjokk í bílastæðahúsinu þegar við sjáum reikninginn fyrir þessum ca 5 klst. Tölum ekki meira um það...

Sainsburys skreppur á heimleiðinni þar sem við kaupum í síðbúinn kvöldmat. Ég varð heldur kvöldsvæfinn í þetta sinnið og trítlaði inn með börnunum í háttinn fyrir ellefu. Það er nú einu sinni frí, maður verður að nota hvíldartímann sinn vel, hah?

fimmtudagur, 8. júlí 2010

Á vegum úti - D1: England

Fríið að skella á. Mörg smáverkefnin sem þarf að klára áður en hægt er að skella sér í frí. Byrjaði daginn klukkan hálfátta á að klippa runnanna í garðinum, það var víst löngu komið á tíma. Fékk mér kaffibolla og fór svo á vit síðasta vinnudagsins.

Sumarringulreið lestarkerfisins hindraði okkur ekki í að tékka inn tímanlega og ná að snæða og kíkja snöggt í leiklandið. Brá þó nett í brún við hlið C24 þegar tilkynningin "closing" mætir okkur, enda 20 mín til brottfarar. En það var allt í góðu og tími fyrir fjölskylduna að taka eina klósettferð í rananum fyrir flugtak. Hefðum betur látið það ógert. Þar geysaði ein sú versta klóakfýla norðan alpafjalla. Baldur Freyr hljóp út hálfgyrtur, gat bara ekki meir. Ég varð eftir inni með Ástu Lísu sem blessunarlega var alstífluð af hori og fann enga lykt. Komst út við illan leik, hálfsortnaði bara fyrir augum af ammoníakstækjunni. Slæmt, mjög slæmt. Og hefur maður þó farið á nokkrar vel súrar tónlistarhátíðir...

Gatwick. Ljóshærður engill tekur á móti okkur með heimagert "velkomin family Finnsson" skilti tekur á móti okkur. Það verða heldur en ekki fagnaðarfundir og við finnum grána gamla í bílageymslunni sem mun sameina okkur á vegum úti næstu 12 dagana. Auðfundinn Nissaninn, enda allir hinir bílarnir með stýrið vitlausu megin! Ekki við, höfum stýrið á réttum stað. Verst með götutilhögunina. Og við rúllum af stað út í kvöldmyrkrið. Komum til East Grensted út úr myrkrinu eftir snúnum sveitavegum umvofnum træjm þar sem dádýr og refir leynast í myrkrinu. Snarl og sængurföt. Svo er gengið til náða. Ævintýrið er hafið.

mánudagur, 21. júní 2010

Með kúbein í körfu

Við fórum í lítinn hjólatúr áðan eftir matinn. Tókum nágranna og bekkjafélagann Alfreð með. Hann hafði með sér forlátt mini-kúbein. Mjög gerðarlegt og virtist geta þjónað fullum tilgangi sínum, að minnsta kosti þá fengu nokkrir morknir trjástofnar að kenna á því af fullum krafti. Hann sagði að það væri ansi margt hægt að kaupa í grænu skemmunni niður í Kristjaníu þar sem pabbi hans býr. Þar var líka hægt að kaupa dúkkur, sagði hann við Baldur. Svona stórar uppblásnar dúkkur fyrir stráka "som synest det er sjovt at bolle" . Geri ráð fyrir að valið hafi fremur hallast að kúbeininu þann daginn hjá pabbanum...

Eftir að við sáum litla svarta eðlu voru allir sáttir og klárir til að koma heim í háttinn. Ég fékk heiðurinn að ferja kúbeinið heim í körfunni minni. Í huga mér formuðust óteljandi hugsanir og möguleikar tengdu svörtu verkfærinu sem glitraði svo bjart í kvöldsólinni.

laugardagur, 17. apríl 2010

Egyptaland 2010 - Dagur3

Dagur 3 í paradísinni rís sem aðrir morgnar hingað til, heiðskírt og sól. Við fáum okkur morgunverð svona með seinni skipunum en trítlum svon niður að laugarbakkanum þar sem við buslum og æfum okkur með nýju snorklgræjunum og Ásta Lísa svamlar um í nýja flotvestinu sínu. Við verslum okkur tvær dagsferðir sem við byrjum strax að hlakka til: bátsferð og jeppasafarí með meiru.

Við förum út og bryggju og snorklum öll saman svo er tími fyrir að taka 3ju umferð á ísbarnum. Eftir matinn kíkjum við í barnaklúbbinn í stutta stund. Þar er mestmegnis töluð rússneska en samt hægt að gera sig skiljanleg með litum, fótboltaspili og táknmáli. Tókum svo einn síðdegislabbitúr upp á markaðinn í grenndinni. Snorklbúllan frá deginum áður reyndist bara vera rétt í forgarði markaðsþyrpingarinnar, þ.e. í forgarði helvítis.

Hér þarf sterkt hjarta og sál til að verjast og hafa roð við kappsömum sölumönnum góss og glingurs. Aðferðarfræðin er þaulskipulögð og þaulæfð. Það er einn innkastari hinum meginn búðarinnar með vinarleg og "algerlega óbindandi tilboð", "hello, where are you from? Denmark, kom og kig i min butik" Krökkunum hafði verið lofað Egypskum minjagripum og við minnstu augngotu er kominn einn rúmlega hjálpsamur sölumaður sem reynir að koma hugsanlegum kúnna á stig 2, "inn í búðina". Fyrir því eru sennilega tvær ástæður: a) verður erfiðra að ætla að labba burt b) selja draslið, þ.e. draga fram ódýrari hluti en þá sem voru til sýnis úti. Oftar en ekki virðist það fara hönd í hönd að þeir eru bæði ódýrari og af lélegri gæðum.

Hanna stóð sig með prýði og hryggbraut nokkra tilboðsgjafana í búðunum með sín móttilboð. Hálskeðjusölumaðurinn endaði með því að slengja niður hálsfestinni sem Ásta Lísa hafði óskað sér eftir mæst hefði verið á mðiri leið. Kattastyttumaðurinn var ekki eins heppin að fá viðskiptin þrátt fyrir að við höfðum farið tvær ferðir í búðina. Ásta Lísa varð að vonum bara ringluð af öllu havaríinu, hún hafði séð græna kattastyttu úti en inni var dregið fram svartmálað gifsdrasl. Aðspurt um úr hverju þetta væri gert kom tvírætt bros á varirnar (busted) og saga fæddist á leifturhraða þar sem hann svaraði ekki spurningunni heldur fór að benda á að gyllta málningin væri svo dýr. Eiiiinmitttt.... Baldur Freyr prúttaði sína trommu sjálfur með mömmu sinni og var það bara nokkuð létt og lipurt ferli. Það var mæst á miðri leið án stórdramatískra yfirlýsinga sölumannsinn um arðrænslu okkar.

Eftir kvöldmatinn kíkjum við Ásta Lísa á barna-diskótekið. Hún vill bara horfa, ekki dansa, að þessu sinni. Kannski næst...? Við setjumst saman fjölskyldan og fáum okkur einn kvölddrykk með níu-sýningunni en svo er trítlað inn á herbergi, leikið með trommu, múmíur og gert sig klára fyrir svefninn. Ævintýrin bíða morgundagsins.

þriðjudagur, 16. mars 2010

Egyptaland 2010 - Dagur2

Annar mars og við vöknum á nýjum stað. Sjáum nú öll herlegheitin í björtu, þvílik sýn yfir spegilslétt rauðahafið í heiðskírri sólarsælunni. Það er svo morgunverðarhlaðborð að lokinni sólkremssmurningu og hitabylgjan tekur á móti okkur upp tröppurnar. Svolítið annað en slydduélin í gær í Kaupmannahöfn, ha?

Það er enginn skortur á valmöguleikum á hlaðborðinu en ungviðið sigtar skjótt úr kókó-kúlur og grandskoðar speglaturna umkringda og fyllta af alls kyns kökum og kruðeríi. Svona ef maður væri ekki alveg búinn að fylla síðustu sentimetra vélindans. Ekki hægt að segja annað að veitingunum séu gerð góð skil.

Þá er upplýsingafundur með leiðsögukonunum sem reynist mjög nytsamlegur og fullur af góðum ráðum og upplýsingum. Krakkarnir eru ekki á sama máli. Drepleiðist. Það lagast þegar við komum niður að sundlauginni þar sem við eigum góðar stundir við busl, leik og slökun. Við erum augljóslega nýkomin, enda svífa meðhöndlana- og ferðasöludrengirnir á okkur með syngjandi söluræðunni: "Mozarella (er það litarhaftið?), hey how are you doing, where are you from, what´s your name? Would you like to taka boattrip tomorrow? Massage? osfrv...."

Rúsínan er þó ísbarinn, þar sem er frír bar eins og hægt er að láta í sig af ís frá kl 10 til sólarlags. Það hverfa nokkrir umgangar í barnagininn, Baldur og Ásta eru ekki lengi að taka þverfaglegt gæðapróf á öllum tegundunum í borðinu. Eftir hádegismat og smá snatt förum við feðgar út að kóröllunum og snorklum þar saman í klukkutíma eða svo. Alveg magnað sjá alla þessa fiska og iðandi lífið og litadýrðina neðansjávar á kóralrifinu.

Seinnipartinn var kominn tími á smá leiðangur út fyrir hótelið, sjá hvort við myndum geta fundið ýmislegt smálegt s.s. snorklgræjur f/fullorðna, meiri sólvörn ofl. Umhverfið er svona nett landnemasvæði, kannski mætti tala um "2007" þar sem allt er í uppbyggingu, verið að byggja hús, hótel, vegi ofl. Hér sunnanmegin jarðkúlunnar nota menn nefnilega flautuna í bílnum, enginn skortur á bíbb bíbb. Svo er mismunandi hvað bíbbið þýðir hverju sinni. Tvö stutt er svona "bara láta vita ég er hér, bíll kemur", annað flaut blæbrigði með augngotum og jafnvel handveifi er boð um taxaþjónustu. Baldur Freyr var mjög fljótur að læra að segja "no thanks".

Við kíktum fyrst í Il Mercado. Það er ekki merkilegt, samansafn vestrænna búða og máttarstólpanna McD og Starbucks. Verðlagið jafn hátt eða hærra en í DK, engin tilboðsverð hér takk. Skelltum okkur á kaffi og köku á Starbucks svona í sárabætur en á bakaleiðinn sáum við skilti "supermarket". Það reynist nú vera svona klassíks "kiosk" a la Nörrebro. Við hliðina er skranbúð og við kíkjum á snorkldót. Prúttið hefst. Gaurinn vill 16 evrur fyrir settið. Skv prúttvenju býður Hanna 4, sem er hálsbrjótandi móðgun fyrir grey manninn. Þetta er ekki plast, heldur silicone. Ef þú vilt plast, þá getur þú fengið það fyrir þetta verð. En þetta er sko silicone! Prútt, prútt og við göngum út með tilboð upp á 10. Nei takk, við yfirgefum búlluna og komumst 2 metra út. Þá svífa mávarnir á okkur. Allir vilja bita af þessu gómsæta, hvíta vorum-að-koma Evrópu búum. Komiði, bara eitt nafnspjald - ekkert að selja! Where you from? Frá Íslandi, vá bróðir minn á einmitt konu frá Íslandi (segir herramaðurinn án þess að hika augnablik). Eiiiinmitt, trúi því svona mátulega. Þetta er orðið gott af áreiti og við erum á leið út á götu aftur þegar snorklsölumaðurinn kemur fljúgandi á eftir okkur. Ok, ég er með nýtt lokatilboð. Við förum aftur inn í búiðina og fáum settin tvö á 16 - saman.

Á meðan ég sit einn við kvöldverðarborðið úti eru Hanna og krakkarnir inni að sækja sér á diskana. Á næsta borði sest hæglátt og ástfangið par. Það virðist verða úr að hún sæki köku með kaffinu fyrir þau, hafa kannski verið búin að borða kvöldmatinn fyrr um kvöldið. Hvað veit maður? Þjónninn kemur og reynir að gera sig skiljanlegan með bendingum, tveir snyrtilegir eldri menn standa við hliðina. Virðist eitthvað vera að þykkna í þeim. Ég skil. Þeir sátu víst þarna áður og höfðu verið (lengi) að ná sér í eftirrétt. Það er farið að hitna þarna og þjónninn tekur hárrétta ákvörðun og lætur sig hverfa hljóðlega. Heinz og Fritz eru orðnir æstir. Þeir hvæsa með sínum yndislega þýska hreim á manninn og rétta honum pjönkurnar heldur hressilega. We war schitting hier, whach ist it you don't untzerstand? Where arge you frohm, Russia!? (eins og það væri það alversta?) Karlgreyið hrökklast burt og heldur á pokum og töskum hálfringlaður og miður sín. Konan hans kemur á þessum tímapunkti og skilur ekkert í því að búið er að skipta hennar heittelskaða út með stífstraujuðum axlar-peysu-þýsku-homma. Slaaaka, sko. Strákar, hvor ykkar var á túr?

mánudagur, 15. mars 2010

Egyptaland 2010 - myndir 2

Næsti skammtur af myndum frá Egyptalandsreisunni miklu.
Hér fer fjölskyldan meðal annars í jeppasafarí, reiðtúr á kameldýrum og snorklar við Blue Hole í Dahab.
Önnur eins keyrsla og meðferð á Toyota Landcruiser hefur vart sést...
Posted by Picasa

föstudagur, 12. mars 2010

Egyptaland 2010 - Dagur1

Mánudagsmorgunn 1. mars og það er borðaður morgunmatur og smurðir matpakkar. Það voru slydduél á leiðinn á hraðbrautinni og við höfðum pantað okkur bílastæði á hjara veraldar. Allt innritunarferlið gekk vel og við erum komin inn fyrir og sveimum á fríhafnarsvæðinu eftir hádegismatinn. Spennan er mikil og tíminn drepinn í raftækjabúð við æsispennandi MarioCart wii spil. Svo mikil einbeiting að það er bara kominn aðkallandi tími á nr #2 hjá Baldri Frey þannig að strikið er tekið með mjög áhugaverðum fótaburði. En það er aðeins og seint og flogið er nærbuxnalaus til Egyptalands.

Það er mjög erfitt að bíða eftir að vélin lendir, spurt er á 11 mín frest og mótmæt harðlega ef hinn liðni tími er ekki amk 20 mín meira en þegar síðast var spurt. Við lendum loksins í 20 C hita kl 21 að staðartíma, á fullu tungli. Farangurinn er fljótfenginn og ljóshærða, litla, bleikklædda dóttir okkar vekur ómælda athygli heimanmanna sem vilja allir heilsa upp á, klappa á kollinn og spyrja "hey, what´s your name". Auðvitað fer trýnið alveg í kleinu yfir þessu öllu saman, snýr sér í foreldrakjöltur og verður ein allsherjar feimni.

Stóðinu er skipt upp í rúturnar og við förum í 5 hótela rútuna sem brunar fljótlega af stað út í myrkrið. Við verðum síðust í röðinni og sjáum því öll hótelin sem fólkið fer á. Eitt þeirra er á svæði sem er enn í uppbyggingu (eins og mörg svæðin eru) og þar sjáum við hálfklárað hús við hliðina, svona fokhelt. Það hanga druslur fyrir gluggum en sum staðar sjáum við inn og Baldur Freyr tekur eftir því og segir "Hér býr fátæka fólkið". Útbrunnu "voru-einu-sinni-aðal" félagarnir tveir fyrir framan okkur skella uppúr, "já einmitt, hér munum við eyða fríinu okkar með heimasmurðu - eða þannig. Þú ert ekki svo vitlaus". Auðvitað tóku þeir því sem Baldur Freyr hefði meint hótelið þeirr, sem var kannski ekki algerlega galin ályktun. Það hafði svo sannarlega mátt muna fífil sinn fegurri. Eins og þeir.

Við vorum orðin einungis 4 eftir með leiðsögumanninum (eða konunni) í rútuni. Og maður fór að spá, vorum við að velja eitthvað kolvitlaust hótel? Nei, aldeilis ekki. Reyndist mjög fínt hótel, að vísu komið til ára sinna en snyrtilegt og alúðleg og lipur þjónusta. Upp á herbergi beið kvöldsnarl sem leiðsögukonan hafði séð um að yrði tekið til fyrir okkur. Það var þreytt, spennt og sátt lítil fjölskylda sem skellti sér á rúmin með tunglskinsbjart rauðahafið úti fyrir.

Ævintýrin bíða og dafna í draumalandinu...

fimmtudagur, 11. mars 2010

Egyptaland 2010 - fyrsti skammtur

Litla fjölskyldan lagði land undir fót dagana 1.-8. mars og upplifði langþráða draumaferð.
Hér er fyrsti skammtur af myndunum, fleiri myndir og frásagnir koma síðar....
Posted by Picasa

sunnudagur, 7. febrúar 2010

Það er hugurinn sem gildir

Um síðustu helgi vorum við fjölskyldan að þvælast upp í IKEA í Gentofte. Þegar við göngum út úr fokheldum innganginum og út í snjókrapann stendur þar heimilislaus maður að selja Hus forbi. Og hann var alveg orginal; rámur, skakkur, hertur og vegalaus Klaus.
Auðvitað keyptum við blað af honum og Baldur Freyr spurði mikið út í heimilisleysið. Af hverju yrði maður heimilislaus og hvernig það kæmi til. Við foreldrarnir lögðum til útlistanir á því hvaða hremmingar gætu leitt til þessara örlaga. Hmmm. Baldur Freyr var hugsi og fannst þetta augljóslega vond örlög.

"Heyrðu mamma og pabbi þegar ég verð ríkur, svona eins og onkel Joakim, þá ætla ég að gefa þeim heimilislausu svona eins og .. og eina milljón eða eitthvað svoleiðis. Þá þurfa þeir ekki að hafa áhyggur."

Æi, en fallega hugsað hjá þér Baldur.

"Já, og svo þarf maður ekki að borga skatt."

Hlátur. Mát. Hvaðan kemur þessi vísidómur? Jú, við búum í skattpíndasta ríki jarðar. Þetta hlýtur bara að leka inn með blandaða safanum úr Netto.