Fara í aðalinnihald

Á vegum úti - D6: Brussel

Engin miskun, nú þurfti að drífa sig á fætur. Ekkert hangs í rúminu frameftir, það þarf að fæða, klæða, ganga frá og pakka í bílinn. Það er kraftaverki líkast að allt dótið fyrir okkur fimm komist í Nissan skott. Hér kemur áralöng Skodapökkunarþjálfunin sér vel. Klukkan 11:09 er brunað í átt að Dover í lágskýjuðu. Kannski gott að fá smá hvíld frá sólinni svona rétt á meðan við keyrum.

Við erum tekin í stutt málamyndatékk hjá tollurunum í Dover. Kannski eru það íslensku númeraplöturnar sem vekja eftirtekt þeirra? Akbraut 158, stigagangur G5 og þilfar 7. Þar erum við samankomin og krakkarnir hlaupa hið snarasta inn í barnahornið þar sem sýndar eru ræmur með sniðuga kettinum honum Tómasi. Börnin hverfa inn í heim teiknimyndanna og veita útsiglingunni enga eftirtekt.

Langþráður kaffibolli er næsta mál í fullorðinsdeildinni. Systurnar sveima um völundarhús kaffiteríunnar. Ég fæ félagsskap á meðan af hormónafylltum íþróttaunglingum frá þýskalandi sem stytta mér stundir. Mikið hvað það getur verið gaman að taka myndir á farsímann sinn. Vá, þetta gutl í bollanum mínum er einhver sú lélegasta afsökun fyrir kaffi sem ég hef kynnst. Held að við séum að reyna að sötra skolvatn uppþvottavélarinnar með slettu af mjólk. Selt sem cappuchino. Nei takk. Hafnað!

Brunað áfram þjóðveginn í Frakklandi og við gerum stopp í mykjufýlunni í Belgíu þar sem hægt er að fá mannsæmandi kaffi, alveg vel hressilega sterkt Espresso. Alveg eins og það á að vera. Dugar sem eldsneyti þá 100 km sem eru til Brussel. Við tökum smá hringavitleysu í Brussel, missum af hringveginum og förum niður í blessaðann stokkinn. Förum of snemma upp úr stokknum og hrinsólum nokkra stund. Náum að sigta okkur inn að kennileiti: Aborre torgi og með leiðsögumann í símanum þá komumst við að Montgomery torgi þaðan sem Andrés fjarstýrir okkur síðustu metrana. Við hittum á hann kófsveittann á götuhorni og þá erum við næstum heima. Lendum heil á húfi á bílastæðinu við Elénore Avenue um 8 leytið, nokkru seinni en við ætluðum. Ásta Lísa er búinn með þolinmæði sína gagnvart þvælingi og vegvillum og segir hátt og skýrt: ég ætla út úr þessum bíl!

Móttökurnar hjá húsráðendum Andrési og Rakel eru höfðinglegar og okkar bíður dásamleg máltíð. Börnin detta í leik um leið og fullorðnir sitja og spjalla frameftir. Sumir nokkuð lengur aðrir...

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Úps!

Svið: Á leið heim í lestinni sunnudagskvöldið 4. janúar Persónur: fjölskyldan situr með 4 stk ferðatöskur, nýkomin úr flugi frá 2 viknar fríi á Íslandi Ásta Lísa (ÁL): Pabbi, ég þarf að pissa Pabbinn (ég): Ok, klósettið er bara hérna rétt hinu megin við hornið. Taktu í hendina á mér, lestin vaggar svolítið og við gætum dottið. Hérna er þetta. Prófaðu að ýta á takkan, þá opnast hurðin (ÁL ýtir á takkann og við blasir miðaldra feitlaginn maður sem situr á salerninu "í hægðum sínum") Ég: Úps, fyrirgefðu. Vissi ekki að það væri ólæst. (ýti aftur á takkan og loka hurðinni aftur. Það kemur ekki í veg fyrir að 2,27 rúmmetrar af geigvænlega fúlu þarmalofti sleppa fram í ganginn. Við röltum til baka og setjumst í sætin sposk á svip. Allir í vagninum skilja og finna lykt af því sem gerðist. Vandræðaleg brosin og allir reyna að láta sem ekkert hafi gerst. Þá kemur hreinskilni barnsins...) ÁL: Það er kúkafýla (sniff sniff, sogið upp í nefið til að vera viss) ÁL: Pabbi, það er vond lykt.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var