Fara í aðalinnihald

Á vegum úti - D8: Tilburg 2

Það er morgunmatur og hefðbundin morgunverk. Spjall og slökun. Von er á Machteld og nýsjálenska sjóliðanum Mike, en hann verður frumsýndur tengdaforeldrunum í dag. Þau eru að vonum spennt að hitta þennan sjómann í Breska hernum sem siglir um höfin blá í mánaðarvís. Morgunverðurinn teygir sig yfir í kaffisamsæti. Jelte slær í gegn með kynningu á gömlum spilum og leikjum sem spiluð voru á æskuheimilinu. Kubbaleikurinn skorar mjög hátt og er spilaður aftur og aftur. Skakkaturnsspilið og bjöllupúslið er líka vinsælt.

Við tökum göngu í garðinum og nú er hægt að spila fótbolta á afgirtum sparkvelli. Það eru allir með og sviti sprettur af ennum fólks, ójá. Það er rölt heim á leið og ég og systurnar bregðum okkur í kjörbúðina að versla inn fyrir matinn því við vildum launa gestrisnina með því að malla Lasagne fyrir mannskapinn. Það heppnaðist bara nokkuð vel og var Paula tvöfalt ánægð með matinn: fannst þetta rosa gott og svo þurfti hún ekki að elda ...

Þá var kominn tími á það sem ungviðið hafði lengi beðið eftir:tívolí. Og þvílík ljósadýrð, hljóð og spennandi möguleikar. Fyrsta verk var að taka hring á óskatækjunum sem höfðu verið sérvalin í spæjaraferð gærkvöldsins. Og meira til; Sjef var duglegur að grípa börnin og far með í tæki, m.a. draugahús og hringekju með Baldri. Músaborgin var merkileg í sjón - og þef.

Ég fann að jafnvægisskynið var augljóslega eitthvað þverrandi með árunum því þeytivindu-Jókerinn gerði mig hálfvaltann á meðan Baldur hljóp beint út gallvaskur og sagði: fáum okkur Candyflos!

Við lukum ferðum okkar um tívolíið með smáhesta reið og tónleikum, sem voru nokkuð merkilegir. Fyrir framan sviðið var n.k. símaklefi þar sem fólk steig upp og hringdi upp á svið og bað um óskalag. Svolítið eins og Sniglabandið gerði í útvarpinu.

Það fóru allir sáttir og þreyttir í rúmið eftir þennan góða og viðburðaríka dag.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Draumaferðin - komin í gang

Nú þegar búið er að stúdera og samræma atburðardagskrárnar fer allt í gang. Ég byrja annan í jólum á 25km fjallahjólatúr með góðum hópi og það verður að segjast að landslagið er nokkuð frábrugðið. Í stað drullu og sleipra rótarbunka þarf að venjast lausamöl (tækla eins og drullu) og stórgrýttar holur. Einnig hjóluðum við kafla þar sem malarvegurinn minnti glettilega á vestfirskt þvottabretti þar sem demparar framan og aftan fengu heldur betur að vinna fyrir hverri rifflu. Fjölskyldan leigir sér tennisspaða og völl og spreytir sig í klukkutíma í sólinni. Hanna er dugleg að hlaupa og prófa ýmislegt svo sem Zumba, Funkdans, afródans og fullorðins sundæfingu sem var nokkuð krefjandi. Þriðja í jólum leigjum við okkur öll fjallahjól og tökum túr inn til næsta bæjar, Gran Tarjal, þar sem við spókum okkur og snæðum dýrindis pizzu og guðdómlegan ís við ströndina. Svo er það bara að skella sér í krakkaklúbbinn eða busla í lauginni þess á milli. Nú eða skella sér í ræktina, prófa bodytoning (ha

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...