Fara í aðalinnihald

Júlí-Agúst 2006, BFF

Pabbi sagði:
Eins og þorskur á þurru

  • Strandagæji í sólríku sumrinu
  • Sumarfrí til Svíðþjóðar og Marielyst fjölskyldumót
  • Erfitt að trappa sig niður úr hinu ljúfa sumarfríi, fyrsti leikskóladagur eftir sumarfrí tekinn með trukki

  • Gerist stranddýrkandi í sólarbrælunni. Förum oft út að Vedbæk að kæla okkur við sjóinn. Fyrst er nú farið varlega en svo einn daginn: ég vil fá ermakútana. Svo er bara synt og synt út í sjónum þar sem áður var eingöngu farið hangandi á foreldrunum. Fitulagið skortið þó áþreifanlega og farið er að skjálfa fljótlega eftir nokkrar dýfur.
  • Verður voðalega viðkvæmur fyrir því þegar bíllinn þarf að fara í viðgerð. Ekki hrifinn af því að skilja þurfi hann eftir þar og má vart minnast á það meir.
  • Sumarfrí í Svíþjóð. Gist á farfuglaheimili, nokkuð spennandi og hlaupið út um allt. Kojur prófaðar all ítarlega.
  • Góða lífið í sumarfríinu venst fljótt og biður oft og iðurlega um ís. Enda verður það orðið staðalneysla að fá 2 stk á dag, kvölds og morgna.
  • Siglir á kanó á Öresjoe í Svíþjóð og vara nokkuð brattur. Sækir svo í sig veðrið og vill róa sjálfur út á vatn.
  • Rosa duglegur á stökkbrettinu í Alvhoögsborg í Trollhattan. Stekkur þar eins og froskur aftur og aftur út í eitt. Spyr svo pabba sinn: "Fékkst þú líka svolítið kitl í magann?"
  • Suð og rell ágerist verulega. Alltaf verið að suða um að fá nýtt dót og gott í munninn. Svolítið erfitt að eiga við í sumarfríinu þar sem hinum daglegu römmum er kastað fyrir róðra.
  • Sefur í gúmmíbát heima hjá Maríu og Kjell í Trollhattan og þykir barasta fínt. Sér sjónvarp þar á bæ í fyrsta skipti í tæpa viku og lætur sig bara hafa hvað sem er: sænskur fréttaskýringaþáttur þykir fullgóður svaladrykkur eftir að koma úr sjónvarpseyðimörkinni.
  • Velur eitt orð úr Sænsku til að læra: Godies (nammi). Auðvitað !
  • Eftir Svíþjóðarferðina tekur Baldur það upp hjá sjálfum sér að þau systkinin skuli fara að sofa saman í herbergi. Foreldrarnir grípa það snögglega á lofti og flytja rúmið yfir til Ástu Lísu og þau fara að sofa saman í herberginu.
  • Verður líka alveg yfir sig upptekinn af því að fá GSM síma eftir að hann sér að sænsku bræðurnir Alexander og Kristoffer höfðu slík tól. En rök foreldranna um að maður þyrfti að vera orðinn eldri eins og þeir (10 og 12) voru snögglega blásin burt: "Þegar maður er 5 ára, fær maður síma. Er það ekki?"
  • Gríðarlegir fagnaðarfundir að hitta ömmu Völlu, Guðrúnu frænku, afa Sæma, Baldur frænda, Imbu, Emmu og ekki síst Eðvarð Geir.
  • Líflegir og skemmtilegir dagar þegar stórfjölskyldan sameinast í sumarbústaðarlandinu Marielyst. Rosa duglegur að synda í kröftugum ölduganginum og kafar kútalaust undir öldurnar en flýtur jafnframt eins og korktappi undan straumnum suður með sjó.
  • Fær dillun að vilja fá kalla eins og Eðvarð Geir (Bonicle). Fær svo einn frá ömmu völlu við mikinn fögnuð. Félagarnir tveir koma vart út úr leikherberginu í Marielyst bústaðinum. Fær svo annan rauðan eftir kröftugt suð og kemur svo sannarlega á óvart eitt kvöldið þegar hann púslar honum saman upp á sitt einsdæmi í tómri þrjósku. Ekki var í boði að fara að fá púslþjónustu frá pabba fram eftir kvöldi eftir lögboðinn háttatíma: "Ég geri það bara þá sjálfur!"
  • Miðaldarsafnið í Nyköbing þótti mjög merkilegt. Sérstaklega burtreiðasýningin sem "okkar" maður, riddarinn Svane, bar sigur úr býtum. Svanefánanum var haldið áfram að veifa upp í Sölleröd og kappinn ákaft hylltur í marga daga og vikur á eftir: Svane, Svane, Svane!
  • Miklir og hjartnæmir endurfundir á leikskólanum eftir sumarfrí þegar Corentin og Baldur knúsast og hoppa af kæti. Þeir gerast þó full hressir og gera ekki góða hluti fyrsta daginn þegar þeir óhlýðnast í ávaxtatímanum. Það endar með því að þeir missa af ávöxtunum og afmæliskökunum í refsingaskyni.
  • Ævintýrum félaganna er þó hvergi nærri lokið því Baldur lýsir eftirfarandi yfir á rólóinum okkar einn daginn: "Þegar ég og Corentin eru orðnir fullorðnir, þá ætlum við að fara einir í Lynby". Nema hvað, hanga í verslunarmiðstöðinni eins og alvöru unglingar!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Úps!

Svið: Á leið heim í lestinni sunnudagskvöldið 4. janúar Persónur: fjölskyldan situr með 4 stk ferðatöskur, nýkomin úr flugi frá 2 viknar fríi á Íslandi Ásta Lísa (ÁL): Pabbi, ég þarf að pissa Pabbinn (ég): Ok, klósettið er bara hérna rétt hinu megin við hornið. Taktu í hendina á mér, lestin vaggar svolítið og við gætum dottið. Hérna er þetta. Prófaðu að ýta á takkan, þá opnast hurðin (ÁL ýtir á takkann og við blasir miðaldra feitlaginn maður sem situr á salerninu "í hægðum sínum") Ég: Úps, fyrirgefðu. Vissi ekki að það væri ólæst. (ýti aftur á takkan og loka hurðinni aftur. Það kemur ekki í veg fyrir að 2,27 rúmmetrar af geigvænlega fúlu þarmalofti sleppa fram í ganginn. Við röltum til baka og setjumst í sætin sposk á svip. Allir í vagninum skilja og finna lykt af því sem gerðist. Vandræðaleg brosin og allir reyna að láta sem ekkert hafi gerst. Þá kemur hreinskilni barnsins...) ÁL: Það er kúkafýla (sniff sniff, sogið upp í nefið til að vera viss) ÁL: Pabbi, það er vond lykt.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var