Fara í aðalinnihald

Júlí-Agúst 2006, BFF

Pabbi sagði:
Eins og þorskur á þurru

  • Strandagæji í sólríku sumrinu
  • Sumarfrí til Svíðþjóðar og Marielyst fjölskyldumót
  • Erfitt að trappa sig niður úr hinu ljúfa sumarfríi, fyrsti leikskóladagur eftir sumarfrí tekinn með trukki

  • Gerist stranddýrkandi í sólarbrælunni. Förum oft út að Vedbæk að kæla okkur við sjóinn. Fyrst er nú farið varlega en svo einn daginn: ég vil fá ermakútana. Svo er bara synt og synt út í sjónum þar sem áður var eingöngu farið hangandi á foreldrunum. Fitulagið skortið þó áþreifanlega og farið er að skjálfa fljótlega eftir nokkrar dýfur.
  • Verður voðalega viðkvæmur fyrir því þegar bíllinn þarf að fara í viðgerð. Ekki hrifinn af því að skilja þurfi hann eftir þar og má vart minnast á það meir.
  • Sumarfrí í Svíþjóð. Gist á farfuglaheimili, nokkuð spennandi og hlaupið út um allt. Kojur prófaðar all ítarlega.
  • Góða lífið í sumarfríinu venst fljótt og biður oft og iðurlega um ís. Enda verður það orðið staðalneysla að fá 2 stk á dag, kvölds og morgna.
  • Siglir á kanó á Öresjoe í Svíþjóð og vara nokkuð brattur. Sækir svo í sig veðrið og vill róa sjálfur út á vatn.
  • Rosa duglegur á stökkbrettinu í Alvhoögsborg í Trollhattan. Stekkur þar eins og froskur aftur og aftur út í eitt. Spyr svo pabba sinn: "Fékkst þú líka svolítið kitl í magann?"
  • Suð og rell ágerist verulega. Alltaf verið að suða um að fá nýtt dót og gott í munninn. Svolítið erfitt að eiga við í sumarfríinu þar sem hinum daglegu römmum er kastað fyrir róðra.
  • Sefur í gúmmíbát heima hjá Maríu og Kjell í Trollhattan og þykir barasta fínt. Sér sjónvarp þar á bæ í fyrsta skipti í tæpa viku og lætur sig bara hafa hvað sem er: sænskur fréttaskýringaþáttur þykir fullgóður svaladrykkur eftir að koma úr sjónvarpseyðimörkinni.
  • Velur eitt orð úr Sænsku til að læra: Godies (nammi). Auðvitað !
  • Eftir Svíþjóðarferðina tekur Baldur það upp hjá sjálfum sér að þau systkinin skuli fara að sofa saman í herbergi. Foreldrarnir grípa það snögglega á lofti og flytja rúmið yfir til Ástu Lísu og þau fara að sofa saman í herberginu.
  • Verður líka alveg yfir sig upptekinn af því að fá GSM síma eftir að hann sér að sænsku bræðurnir Alexander og Kristoffer höfðu slík tól. En rök foreldranna um að maður þyrfti að vera orðinn eldri eins og þeir (10 og 12) voru snögglega blásin burt: "Þegar maður er 5 ára, fær maður síma. Er það ekki?"
  • Gríðarlegir fagnaðarfundir að hitta ömmu Völlu, Guðrúnu frænku, afa Sæma, Baldur frænda, Imbu, Emmu og ekki síst Eðvarð Geir.
  • Líflegir og skemmtilegir dagar þegar stórfjölskyldan sameinast í sumarbústaðarlandinu Marielyst. Rosa duglegur að synda í kröftugum ölduganginum og kafar kútalaust undir öldurnar en flýtur jafnframt eins og korktappi undan straumnum suður með sjó.
  • Fær dillun að vilja fá kalla eins og Eðvarð Geir (Bonicle). Fær svo einn frá ömmu völlu við mikinn fögnuð. Félagarnir tveir koma vart út úr leikherberginu í Marielyst bústaðinum. Fær svo annan rauðan eftir kröftugt suð og kemur svo sannarlega á óvart eitt kvöldið þegar hann púslar honum saman upp á sitt einsdæmi í tómri þrjósku. Ekki var í boði að fara að fá púslþjónustu frá pabba fram eftir kvöldi eftir lögboðinn háttatíma: "Ég geri það bara þá sjálfur!"
  • Miðaldarsafnið í Nyköbing þótti mjög merkilegt. Sérstaklega burtreiðasýningin sem "okkar" maður, riddarinn Svane, bar sigur úr býtum. Svanefánanum var haldið áfram að veifa upp í Sölleröd og kappinn ákaft hylltur í marga daga og vikur á eftir: Svane, Svane, Svane!
  • Miklir og hjartnæmir endurfundir á leikskólanum eftir sumarfrí þegar Corentin og Baldur knúsast og hoppa af kæti. Þeir gerast þó full hressir og gera ekki góða hluti fyrsta daginn þegar þeir óhlýðnast í ávaxtatímanum. Það endar með því að þeir missa af ávöxtunum og afmæliskökunum í refsingaskyni.
  • Ævintýrum félaganna er þó hvergi nærri lokið því Baldur lýsir eftirfarandi yfir á rólóinum okkar einn daginn: "Þegar ég og Corentin eru orðnir fullorðnir, þá ætlum við að fara einir í Lynby". Nema hvað, hanga í verslunarmiðstöðinni eins og alvöru unglingar!

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Draumaferðin - komin í gang

Nú þegar búið er að stúdera og samræma atburðardagskrárnar fer allt í gang. Ég byrja annan í jólum á 25km fjallahjólatúr með góðum hópi og það verður að segjast að landslagið er nokkuð frábrugðið. Í stað drullu og sleipra rótarbunka þarf að venjast lausamöl (tækla eins og drullu) og stórgrýttar holur. Einnig hjóluðum við kafla þar sem malarvegurinn minnti glettilega á vestfirskt þvottabretti þar sem demparar framan og aftan fengu heldur betur að vinna fyrir hverri rifflu. Fjölskyldan leigir sér tennisspaða og völl og spreytir sig í klukkutíma í sólinni. Hanna er dugleg að hlaupa og prófa ýmislegt svo sem Zumba, Funkdans, afródans og fullorðins sundæfingu sem var nokkuð krefjandi. Þriðja í jólum leigjum við okkur öll fjallahjól og tökum túr inn til næsta bæjar, Gran Tarjal, þar sem við spókum okkur og snæðum dýrindis pizzu og guðdómlegan ís við ströndina. Svo er það bara að skella sér í krakkaklúbbinn eða busla í lauginni þess á milli. Nú eða skella sér í ræktina, prófa bodytoning (ha

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...