Fara í aðalinnihald

Sólbruni í Svíþjóð

Skódinn veitir okkur æ fleiri óbeislaða möguleika á ferðum á eigin forsendum. Skruppum til Svíþjóðar á laugardaginn þar sem ég náði að sólbrenna bara nokkuð vel.


Á laugardaginn skelltum við okkur í bíltúr upp til Helsingör þar sem ómældur fjöldi af ferjum skýst yfir sundið til Helsingborg í Svíþjóð á 20 mínútum. Við römbuðum á bílastæði upp við kirkju inn í bæ og röltum upp að afgreiðslu Sundbusserne til að kaupa miða. Ahh, við vorum ekki með sænskar krónur né danskt reiðufé, þannig að það þurfti að byrja á því að rölta inn í bæ að redda því. Baldri fannst það ekki alveg málið og herti ennþá á fyrirspurnartíðninni: "Hvenær förum við í bátinn? Hvar er báturinn okkar?"

Helsingborg komst undir sænska krúnu árið 1758 og hafa Svíarnir æ síðan verið duglegir að dugga sér yfir sundið að kaupa áfengi. Helsingör ber þess glöggt merki hver aðalsöluvarningurinn er: áfengi. Hér er búð við búð að bjóða brettastæðurnar af bjór, sérvalinn að smekk svíanna 5,6% og yfir, ásamt sterku víni. Svíarnir mæta líka í hjörðum með trillur undir bjórinn.

Ferðin yfir sundið tók bara 20 mínútur og var Ásta Lísa kyrr í 2 mínútur af þeim tíma. Gekk 15,3 hringi á efra dekki ásamt tröppugangi ofl. Baldur skoðaði mikið en var mikið rólegri í umsvifum. Við byrjuðum á að borða nestið okkar á bryggjusporðinum í sólinni áður en við tókum strætó upp í Sofiero garðinn.

Sofiero er mikill grasagarður þar sem sérstök hátíðarhelgi Rhododendron blómsins 27-28 maí var einmitt í gangi. Þá eru mættir sérfræðingar og aðdáendur þessarar jurtar og stúdera og selja hin ýmsustu sérafbrigði. Við létum okkur nægja að rölta um, rúlla í grasinu, taka kollhnísa, taka upp halakörtur í lófana ofl ofl.

Sólin skein og þetta var afar ljúft allt saman. Frekar áberandi eldra fólk, svona svolítið Hrafnistu andrúmsloft, en greinilega slatti af Dönum. Taldi mig hafa þekkt nokkra úr þar sem þeir komu upp um sig með Tuborg Classic, álpappírsumbúðunum og remúlaðitúpunum. Ís á línuna var svo punkturinn yfir i-ið áður en við héldum til baka í strætóinum þar sem Hrafnistuhópurinn umkringdi okkur all hressilega.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...