Fara í aðalinnihald

Kraumandi kollvik

Það er aldeilis að kollvikin krauma núna, eins og ég sé með tvö rauð teppasýnishorn í kollvikakrókunum. Upphandleggir, handabök og hnakki eru í sama djúprauða stílnum, "þökk" sé garðvinnunni í sólinni í gær. Besti dagur ársins hingað til, ekki spurning. Krakkarnir voru meira að segja með bjartsýnni sólardýrkendum og hlupu um ber að ofan á garðstígunum.

Mikill árangur varð í garðræktinni um helgina enda erum við með mömmu hérna í heimsókn sem er ansi hreint hagvön á gaffal, skóflu og klóru. Frá því á laugardagsmorgun hafa hátt í 10 hjólbörur með garðaúrgangi fengið að fjúka út í safnhaug, pælt upp ræktunarsvæði og beð afmörkuð. Risastór hola var líka grafin af mömmu til að hýsa tilvonandi sólberjarunna úr óleigða garðskikanum sem okkur áskotnaðist í gær í gegnum varaformann garðafélagsins. Það féll reyndar um sjálft sig í dag þegar talhólfsskilaboð frá Annette tjáðu okkur að leigjendur hefðu tekið við garðinum og sólberjarunninn því ekki lengur í boði.

Við komum við á bensínstöð á heimleiðinni frá náttúruleiksvæðinu og var fyllt á skóda litla sem og farþegana þar sem sólberjarunnadramað krafðist bland í poka til að komast yfir áfallið. Allir í bílnum voru hæstánægðir með þau kaup, sérstaklega Ásta og Baldur.

Hanna fékk svo yfirgripsmikla leiðsögn í plöntugreiningum, nytjum og góðráðum seinnipartinn úti í garði frá einni nágrannakonu. Þar voru sko ýmis góð ráð gefin og vonandi fer þetta nú allt að spretta og blómstra svo unun verði af. Án sólberjarunnans þó...

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Finnur Geir, þú verður 34 ára nú í haust og enn hefur þú ekki lært þá grunnreglu að bera á þig sólarvörn áður en þú ferð út í sólina!
Unknown sagði…
Mér til "varnar" var skýjað þegar ég fór út og voru allir klæddir í peysur og vindstakka. Svo glennti bara guli helíumboltinn sig svona svakalega og ég gleymdi mér algerlega með gaffalinn í moldarflaginu.
En þetta er rétt hjá þér, auðvitað á maður að nota sólarvörn. Ég hef lært mína lexíu, aftur....
Nafnlaus sagði…
Sæll Finnur.
Tek undir með Nirði að það er betra að bera á sig sólarvörn áður en haldið er út í sólina. Fékk að kenna á þessu þegar ég dvaldi í Salzburg fyrir um 11 árum síðan. 'A morgun 30.apr. hætti ég formlega á Sólheimum eftir 3ja ára starf. 'Asta mágkona þín er tekin við rekstri Völu á Sólheimum.
Heyrumst síðar.
Kv frá Íslandi
Böðvar Jens

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Draumaferðin - komin í gang

Nú þegar búið er að stúdera og samræma atburðardagskrárnar fer allt í gang. Ég byrja annan í jólum á 25km fjallahjólatúr með góðum hópi og það verður að segjast að landslagið er nokkuð frábrugðið. Í stað drullu og sleipra rótarbunka þarf að venjast lausamöl (tækla eins og drullu) og stórgrýttar holur. Einnig hjóluðum við kafla þar sem malarvegurinn minnti glettilega á vestfirskt þvottabretti þar sem demparar framan og aftan fengu heldur betur að vinna fyrir hverri rifflu. Fjölskyldan leigir sér tennisspaða og völl og spreytir sig í klukkutíma í sólinni. Hanna er dugleg að hlaupa og prófa ýmislegt svo sem Zumba, Funkdans, afródans og fullorðins sundæfingu sem var nokkuð krefjandi. Þriðja í jólum leigjum við okkur öll fjallahjól og tökum túr inn til næsta bæjar, Gran Tarjal, þar sem við spókum okkur og snæðum dýrindis pizzu og guðdómlegan ís við ströndina. Svo er það bara að skella sér í krakkaklúbbinn eða busla í lauginni þess á milli. Nú eða skella sér í ræktina, prófa bodytoning (ha

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugavegurinn hjólaður - myndir

Þann 16. júlí hjóluðum við fjórir félagarnir (ég. Lalli, Snorri og Tolli) frá Landmannalaugum til Bása í Þórsmörk, sem í daglegu tali kallast Laugarvegurinn. Þetta var í alla staða eftirminnileg og frábær ferð í góðum félagsskap sem hélt vel í þá 14 tíma sem við hjóluðum, teymdum upp brekkur, ísskafla og ár. Ferðalokin í Básum klukkan fjögur um nótt voru kærkomin með Thai hnetusmjörskjúklingarétti og mikið var gott að leggjast til hvílu í tjöldunum. Meira segja myndir en mörg orð...