Fara í aðalinnihald

Draumaferðin - ævintýri og ferðalok

Við fjölskyldan vorum virkilega farin að finna okkur heimakomin á PlayItas. Hvað annað er hægt í stöðugu 20+ og sól með endalausum möguleikum að fara út og leika sér utan dyra og fá smá svita á ennið. Ég var farinn að fá löngun í annan fjallahjólatúr og vildi athuga með föstudagstúrinn. Í pöntunarafgreiðslunni var augljóst að fólk var búið að átta sig og taka þjóðverjann á þetta og mæta eldsnemma og panta hjól, ferðir og tíma fram í vikuna. Það var bara ekkert laust fyrr en töluvert eftir heimferð. En hvað með götuhjól? Jú, það var eitt slíkt á gamlárs sem var laust. Tók það og var spenntur að prufa.

Ég sótti hjólið að morgni gamlársdag í fullum hjólagallaskrúða með pedala, kamelpoka og orkusnakk. Skoðaði leiðir í boði (40, 60 og 80 km) og að tillögu afgreiðslumannsins í hjólaleigunni setti ég markið á 40 km svona til að byrja með.

Það tók smá tíma að venjast fisléttu hjólinu og mjóum dekkjum þar sem fjöðrun var nánast engin og allar misfellur og holur fundust vel. En rennslið var gott og gaman var að hjóla um í nærsveitunum og ég var kominn til baka 100 mínútum seinna bara hress og reifur. Ákvað að skella mér í 60 km eftir hádegismat og hala inn 100 þann daginn og ná að vera kominn heim seinnipart svo Hanna kæmist í danstímann.
Eftir hádegið lagði ég af stað í 60 km leið fullur sjálfstrausts eftir 40 km reynslutúrinn um morguninn. Ég fylgdi leiðbeiningum eins og mér var unnt og áði af og til fyrir kortaskoðun og sjá hvar beygja ætti. Við skoðun eftir á sá ég að það gleymdist beygja eftir 16 km og leiðin varð heldur betur öðruvísi.

Ég sá að ég var kominn af leið þegar ég sá hafið. Nújæa, þá hef ég farið of langt. Þá ákvað ég að halda áfram í stað þess að snúa við og sjá hvort ég kæmi ekki inn á leiðina aftur vestanmegin. Ha, sjór aftur? Áfram held ég og nú tekur við löng brekka og mótvindur sem ég trappa upp. Orðin örlítið órólegur þar sem klukkan er rúmlega fjögur og dagsbirtan ekki marga klukkutíma í viðbót. Ég stoppa við gatnamót í brekku og sé að þar á vinstri hönd er kunnulegt bæjarnafn en til hægri er bær sem ég átti að hafa farið i gegnum fyrir löngu síðan. Nú staldra ég við og fer yfir möguleikana á yfirgefnum veginum fjarri mannabyggðum með Pajara og Cardon til hvorrar handar.
Frá hægri kemur hjólreiðamaður og við heilsumst og tökum tal saman. Það er augljóst á þeim gloppóttu upplýsingum um hvaðan ég sé að koma að ég er nett villtur. Þjóðverjinn dregur þá upp úr vasanum svona heljarinnar alvöru gps sem gat hjálpað við að setja neyðarplan i gang - fyrir myrkur! Ég slökkti á gps við þessi gatnamót og notaði símann sem neyðartæki þaðan í frá.
Ég byrjaði á því að hringja í hótelnúmerið af kortinu til að fá samband við hjólamiðstöðina. Ekkert svar. Þá hringdi ég til Hönnu upp á von og óvon. Sem betur fer var hún með símann. Ég byrjaði að segja að ég væri ennþá að hjóla en Hanna var alveg róleg og sagði að það væri alveg í lagi - hún ætlaði hvort sem er ekki í dansinn. Ég sagði þá að það væri ekki alveg vandamálið heldur að ég vissi ekki nákvæmlega hvar ég væri og ekki viss um að ná heim fyrir myrkur. Plan B var að ég myndi koma mér í næsta bæ og taka taxa í versta falli en þjóðverjinn vildi nú ekki meina að Cardon væri það beysið pleis að þar væru taxar, hálfgert sveitaþorp sagði hann. Úr varð að ég trillaði af stað og sá einn bíl á leiðinni.

Ég rúllaði inn á bílastæði við lítið kaupfélag sem var að opna eftir siestu svona til að hafa möguleika á það fá aðstoð frá fólki. Þá hringdi Hanna og sagðist hafa talað við gaurana í hjólaleigunni sem voru fyrst hvað mest áhyggjufullir yfir því að hjólið mitt væri bókað í útleigu næsta dag. En ef ég væri ekki of þreyttur ætti ég að ná heim til PlayItas frá Cardon ef ég væri ekki of þreyttur. Þeir lokuðu sex og þá væri líka sólarlag.

Þá var bara að skella sér á fákinn og bruna í kappi við sólina sem ég horfði ótt og títt til að sjá hvað ég ætti nú mikinn tíma eftir. Og það hafðist! Klukkan 17:55 rúllaði ég inn á hjólaleiguna og skilaði af mér. Dauðfeginn að komast til baka fyrir myrkur og lenda ekki í útilegu á gamlárskvöld úti í Kanarísveit þar sem flugið var næsta dag.

Það var gott að komast heim i sturtu og fá sér að borða eftir að hafa tekið 115 kílómetra þann daginn. Ágætis prufa á kappreiðarhjóli það. Við steiktum okkur hamborgara og horfðum á Flinstones á spænsku áður en við kíktum á áramótagleðina niðri á torgi. Við flugeldasýninguna á miðnætti voru allir í fjölskyldunni orðnir lúnir, enda hafði aldrei verið vakað svo lengi í þessari ferð. Ekki heldur í hópi hinna fullorðnu.

Næsta dag var kveðjustund og Ástu fannst sérstaklega leiðinlegt að kveðja umsjónamenn daggæslunnar þar sem hún og Baldur höfðu eytt mörgum stundum. Við horfðum á Reykjarnes líkt umhverfið úr rútunni og vorum sammála að þessi áfangastaður yrði heimsóttur aftur...

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi

Í faðmi fjalla og stórbrotinnar náttúru

Við erum svo virkilega að njóta okkar hérna á Íslandinu og höfum farið út í náttúruna og hitt vini og vandamenn á förnum vegi. Krakkarnir príluðu með okkur eitt kvöldið upp á Úlfarsfellið sem blasir við út um stofugluggann hjá mömmu og var það hressilegur túr fyrir sál og líkama. Svo er búið að taka túr um uppsveitir Suðurlands og heimsækja Sólheima sem eiga alltaf stóran stað í hjörtum okkar. Hanna fór með krakkana í sveitina til Guðnýar og nutu þau lífsins og náttúrunnar með ferðum með ströndinni á undir rótum Snæfellsjökuls. Og auðvitað varð að kanna stöðuna á toppi jökulsins líka með hjálp snjótroðara og útsýnið var víst stórfenglegt af toppinum þar. Á meðan Hanna og gríslingarnir nutu lífsins í Syðri-Knarrartungu þá fór ég með Lalla, Snorra og Tolla. Svo erum við búin að prófa þó nokkrar sundlaugar og fara í eitt gott brúðkaup úti í guðsgrænni náttúrunni.

Laugarvegurinn hjólaður

Þessi hugmynd að taka einn góðann hjólatúr fæddist á vormánuðum hjá meistara Lárusi. Og undirbúningurinn og stemmningsuppbyggingin fór á fullt. Ekkert var sparað til í pökkunarlistum, ferðaáætlunum og gögnum um fyrri slíkar ferðir þar sem hægt er að horfa á myndbönd, sjá gps, lesa lýsingar og sjá myndir. Spennan var orðin þónokkur á sunnudeginum 15 júlí þegar ég var að pakka í bakpoka og elda mat fyrir hópinn inn á milli þess að smyrja nesti fyrir ferðina. Mánudagsmorguninn 16. júlí stóðum við Tolli, Lárus og Snorri klárir á BSÍ eins og hinir túristarnir og gerðum okkur klára í rútuna í Landmannalaugar kl 8. Við komum hjólunum okkar fyrir í einni af tveimur smekkfullu rútunum en tjöld ofl sendum við með annarri rútu upp í Þórsmörk. Eftir nokkuð hoss og hopp vorum við upp í hinum stórbrotnu landmannalaugum þar sem var bara frekar mikið um manninn. Hjólin komu nokkuð heil út úr þessu nema að aftari bremsudiskur hjá mér hafði beyglast en það var lagað fljótt og örugglega. Veðrið var...

Draumaferðin - komið á áfangastað

Jóladagsmorgun 2011 og það er ræs klukkan 4 að morgni eftir örfáar svefnstundirnar. Það er rok og rigning á E47 á leið út á Kastrup flugvöll, en það á eftir að breytast... Fjölskyldan dormar og sefur til skiptis á milli sögubrota frásagnaglaða aðstoðarflugstjórans um ferðalög danskra víkinga suður eftir álfunni. Fróðlegt, en ég vildi nú samt heldur sofa eins og lofað var eftir mat og fríhafnarprang. Það eru svo nokkur viðbrigði að koma í 20 gráðu hitann og hrjóstrugt eldfjallalandslag þar sem regn er greinilega ekki oft á dagskránni. Eftir 45 mínútna rútuferðalag í gegnum landslag sem líkist Reykjanesinu allmikið komum við á áfangastað, Las Playitas ! Við erum rösk að tékka okkur inn og pakka upp og þá er bara að taka út svæðið og skoða það sem í boði er næstu vikuna. Það eru lögð drög að dagskrá næstu daga og heimilisfaðirinn skráir sig til leiks í 25 km fjallahjólatúr næsta dag. Sundlaugin og krakkaklúbburinn tekinn út og allt fær bestu einkunn. Helstu nauðsynjar bornar í hús úr ...